Glæsilega rituð grein eftir Bjarna Harðarson í opnu Mbl. í dag

Merkilegar hliðstæður dregur hann þar fram milli áður alþekkts, nú nær gleymds svindilbrasksmáls í Flóa um næstsíðustu aldamót, sem olli gjaldþrotum bænda, og Evrópusambands-pappíra- og áróðurssvindli um okkar daga.

Í skugga Glæsibæjar var skáldsaga (Víkingsútgáfan, 1945) eftir Ragnheiði Jónsdóttur rithöfund (1895-1967) og byggð á fyrrnefndum atburðum, en "Glæsibær" er þar Gaulverjabær, forn kirkjustaður. Meðal bænda í samnefndum hreppi var Jón Erlendsson í Gerðhúsum, Garði og Seljatungu, faðir Valdísar, móðurmóður undirritaðs, en hið stóra heimili hans og Kristínar konu hans frá Galtastöðum varð fyrir miklum búsifjum af völdum þeirra svindlara, sem þá fóru um sveitir og leituðu eftir uppáskriftum bænda á það, sem þeir höfðu ekki kynnzt fyrr: víxla. Fór svo, að svindlurunum tókst að hafa bújarðir og fé af ýmsum, unz stöðvast hlaut, en þá var það of seint fyrir marga. Segir Bjarni Harðarson á mjög lifandi hátt frá þessu sem bakgrunni að hálfsíðu langri grein sinni sem er fjörlegur fróðleikslestur út í gegn.

Nú eru í loftinu annars konar pappírsfreistingar í stórum stíl, kenndar við tvo eða þrjá sakleysislega útlítandi stafi, EU eða ESB, en eins og hið fyrra sinnið er mikið spilað á það, að torvelt verði að hafa hönd á réttum skilningi hlutanna, enda er pappírsmagnið í þetta sinn með ódámum mikið, og sem dæmi um það nefnir Bjarni, að bara EES-samningurinn er þvílíkur að vöxtum, að taka mundi mánuð að lesa hann og sinna engu öðru starfi á meðan. Þó er hann hreinasta hátíð hjá Evrópusambands-pappírsflóðinu sem fáir vita í raun skil á, en í krafti þeirrar vanþekkingar margra er þó spilað hér á áhættuhegðun og bríarís-þankagang margra sem vilja láta skeika að sköpuðu um jafnvel framtíð Íslands með því að flækja sig inn í þann pappírsskóg, ginningarstarfsemi og bíræfnar valdheimildir "sambandsins" og "skrifa upp á", þó ekki fyrr en við "sjáum samninginn" -- en hver treystist svo til að lesa "hann" allan, þegar þar að kemur?!

Bjarni Harðarson  Ég hef hér ekki á neinn hátt reynt að endursegja hina afar fjörlega skrifuðu grein Bjarna Harðarsonar, sem sjálfur er Árnesingur og þekkir vel til svindlmálsins austur í sveitum (og víðar en í Árnesþingi). Afkomendur eins aðal-svindlarans ráku síðar af umtalsverðri drift þekkta veitingastaði í Reykjavík og sjálfa Valhöll á Þingvöllum, en ekki víkur Bjarni að því í samantekt sinni. (Kynntist ég raunar einum af yngri kynslóð þeirra við mín fyrstu íbúðakaup, en var sannarlega ekki hlunnfarinn af þeim ágæta manni.)

Menn ættu að fá sér þennan Mogga í dag, og þar kemur fleira eftirsóknarvert í ljós, en einnig hratið með saftinni; sem dæmi um það birtist þar refjagrein aftir Teit Björn Einarsson hdl., ESB-veikan Sjálfstæðisflokks-frambjóðanda, og annar, stuttur pistill sem tekur saman nokkur sýndarrök innlimunarsinna í Evrópusambandsmálinu, og er þar m.a. spilað á yfirborðshluti, gervirök og falskan samanburð, í nafni Rögnu nokkurrar Garðarsdóttur, en samsuðan með þeim hætti, að halda mætti, að hin rangnefnda Evrópustofa hafi séð um áróðurs-tilreiðsluna.

Skemmst er þar einnig að minnast fráleitlega framhleypins og vanhugsaðs pistils Kolbrúnar Bergþórsdóttur bókmenntafræðings, sem taka mætti nú á beinið hér sérstaklega, jafnframt því að hluta snyrtilega sundur áðurnefndan gervirakapistil. Hætt er oft við, að menn lesi það, sem stutt er og fljótblekkjandi, en þó má telja líklegt að þorri Morgunblaðslesenda falli beint inn í þessa spennandi grein Bjarna og slíti sig ekki frá lestrinum fyrr en við lokapunkt. Er það þá vel, enda er hún fréttnæm í þokkabót vegna vísbendinga þar um endurnýjun flokkarlitrófsins hér á landi.

Bjarni gerir ljósa grein fyrir stöðu ESB-málanna í seinni hluta greinar sinnar og leiðir lyktir hennar að hugleiðingu sinni um raunalegt, reyndar hörmulega sviksamlegt* hlutskipti Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, og þar streymir niðurstaðan bert og augljóst að þeim ósi, að nauðsyn beri til, eins og Indriði Aðalsteinsson á Skjaldfönn hafði fyrstur hvatt til, að stofna nýjan, fullveldissinnaðan, þjóðdyggan vinstri flokk í stað þeirrar allsherjar-skráveifu alþýðu sem stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur nálgast það að verða. (* Orðin eru hér öll mín, JVJ.)

Þessi grein Bjarna Harðarsonar verður í minnum höfð um glæsileg tilþrif og stílhrif í íslenzkri blaðamennsku. Fyrir þá, sem aðeins geta nálgazt hana á netinu, er hana hér að finna: Svindilbraskarar ESB.

Jón Valur Jensson. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband