Á hnjánum til Brussel

Ríkisstjórnin verður seint ásökuð um að liggja á lötu hliðinni í eina stefnumáli sínu að troða Íslandi gegn vilja mikils meirihluta landsmanna inn í Evrópusambandið. Allur sá tími og kostnaður, sem kratakljúfar íslensks samfélags leggja í þessa fyrirfram vonlausu ferð, mundi nýtast landsmönnum mun betur til eigin sparnaðar, styrkingu heimila og uppbyggingu atvinnulífs eftir stærstu fjármálaárás í sögu landsins. En í staðinn leggjast þeir fjármunir til allra hinna, sem brenndir eru á báli atvinnuleysis, lélegrar þjónustu hins opinbera við ellilífeyrisþega, sjúka, börnin í skólum og á dagheimilum. Og áfram stækkar skuld ríkisins og er nú komin á það stig að í alvöru má ræða hrun 2.0, ef skútunni verður ekki tafarlaust snúið frá Samspillingarstefnu ríkisstjórnarinnar.

Og allur er þessi skaði til þess eins að þjóna markmiðum ráðandi krata að krækja í feitu pulsubitana í Brussel. Það er eftir heilmiklu að slægjast, þegar mánaðarlaun þingmanna Evrópuþingsins slagar hátt í tíu miljónir krónur, laun starfsmanna allt að 4 miljónum krónum og fólk í leiðandi stöðum með hærri laun en sjálfur Bandaríkjaforseti. Og enginn þarf að borga skatta, því þessir u.þ.b. 50 þús starfsmenn ESB eru svo uppteknir af þýðingarmiklum störfum og eiífum fundahöldum, af því að þeir eru að bjarga aðildarríkjunum frá vandamálunum, sem ESB sjálft og evran hefur komið þeim í.

Sósíaldemókratar sambandsríkja og evrusvæðis hafa verið minst sagt duglegir við að leggja álfuna í rúst og flokksbræður þeirra á Íslandi horfa öfundaraugum á árangurinn. Ekki nóg með að búið er að pína upp hærra atvinnuleysi en þekkst hefur í lengri tíma, hleypa inn þríeyki í stað lýðræðis, skera niður venjulega þjónustu sjúkrahúsa og skóla og skapa þannig upplausnarástand og gjaldfellingu siðmenntaðs samfélags, að nýir nazistar þramma að næturlagi um stræti sjálfrar vöggu lýðræðisins, þá er einnig verið að afnema það sem eftir er af fjárhagslegu sjálfstæði þjóða á færibandi með endalausum nýjum tilskipunum eins og t.d. um yfirstjórn bankamála evrusvæðisins. Þar er helsta umræða toppanna, hvort nauðsynlegt sé að taka yfirráðin af öllum 6000 bönkum ESB eða hvort það dugi ekki bara að taka yfir 200 stærstu bankanna, sem ráða 90% fjármagnsins.

Þjóðverjar vilja stjórna öllu ESB og setja skilyrði um sífellt meiri völd sér til handa "af því að þeir leggja hvort eð er svo mikið í púkkið." Hvort svo sem ný bankastjórn hrynjandi evru eða nýjar, hispurslausari tillögur sem eru á leiðinni og segja hreint út að þjóðirnar verði endanlega að kasta fullveldi sínu í hendur Framkvæmdastjórnarinnar, þá er stóra spurningin á meginlandinu, hvort algjör upplausn brýst út áður en Þjóðverjar, Framkvæmdastjórnin og handfylli ríkja mynda saman 4. ríkið til að beygja undir sig það sem eftir verður.

Hvað Ísland varðar er ekkert að marka þá pappíra sem á utanríkisráðuneytismáli kallast "samningsafstaðan í peningamálum". Það er sama blaðrið og einkennir tal ríkisstjórnarinnar um lausnir, sem eiga að falla frá himnum ofan í framtíðinni. Á meðan raunveruleikinn er sá, að ríkissjóður sligast með yfir ársframleiðslu landsins í skuldir, sem aukast dag frá degi, landið býr við gjaldeyrishöft og atvinnuleysi sem náð hefur fótfestu, er skútunni stýrt í hrun 2.0. Allt tal um "hyggist uppfylla", "mun taka", "áætlar að" "hyggst taka", "gert ráð fyrir", "stefnt er að", "núverandi spár", "gefa til kynna", "verði náð" er í besta falli hægt að nota sem skreytingu á pappír, sem venjulega er notaður annars staðar en í nánd við þann stað, þar sem heilinn er venjulega. Ísland uppfyllir ekki Maastricht-skilyrðin og allt orðagjálfrið fær í engu breytt þeirri staðreynd.

Eini boðskapur "samningsafstöðu í peningamálum" er enn á ný endurtekin viljayfirlýsing um að fá að ganga inn í ESB-klúbbinn. Virðast allir "samningar" ríkisstjórnarinnar við ESB vera eitt allsherjarbænakall á hnjánum til að fá að vera með.

Var það þess vegna, sem lýðveldið Ísland var stofnað á Þingvöllum 17. júní 1944, svo að fáeinir stjórnmálaskussar gætu tæpum 70 árum síðar selt landið fyrir fáeina stóla við hliðina á "stóru strákunum" í Brussel? 

Gústaf Adolf Skúlason 


mbl.is Samningsafstaðan í peningamálum birt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband