Þetta er stóra málið: við viljum ekki fullveldisframsal til Evrópusambandsins

Gríðarlegt vald yrði falið "sameiginlegu fjármálaeftirliti ESB hér á landi" (m.a. að banna Kaupþing og lífeyrissjóðina!) ef ný reglugerð ESB kæmust hér á gegnum EES-leiðina, en er ÓLÖGLEGT skv. stjórnarskránni. Hún heimilar EKKI slíkt framsal valds til stofnana á vegum Evrópusambandsins.

Frétt um þetta mál í Sjónvarpinu á fimmtudagskvöldi vakti suma, ekki alla, upp af dvalanum. Þetta mál í hugum ESB-hneigðra knýr á um þá breytingu á stjórnarskrá Íslands, sem þá virðist dreyma um: að leyfa slíkt framsal fullveldis okkar -- og yrði það þó bara partur af því fullveldisframsali, sem gerast myndi með raunverulegri "aðild" að Evrópusambandinu : þar væri verið að framselja til ríkjasambandsins öllu æðsta löggjafarvalds-fullveldi, sem og fullveldisrétti okkar yfir fiskimiðum okkar, a.m.k. utan 12 mílna, yfir efnahagslögsögunni raunar og æðsta stjórnvaldi yfir öllum sjávarútvegsmálum, allt frá hvölum niður í möskvastærð neta og nýtingu átunnar hér við land, ljósátu og minnstu seiða.

Við í Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland erum andvíg afsali æðsta löggjafarvalds í hendur annarra ríkja eða ríkjasambanda. Það merkir þá jafnframt, að við tökum afstöðu gegn því að breyta stjórnarskránni í þágu fullveldisafsals í annarra hendur en þeirra sem byggja þetta land.

Hér er, ef að er gáð, bezta þekkingin á því sem okkur kemur vel og hentar lífsháttum okkar, hvort sem um fiskveiðar, stýringu veiða úr öðrum villtum stofnum eða um aðra hluti er að ræða sem varða sjálfa stjórn okkar á landinu. Orð, sem Jón Sigurðsson lét falla í þessa átt, eiga eins vel við nú og þá.

En aftur að fréttinni. Nú hefur utanríkisráðuneytið fengið það staðfest eftir grandgæfilega skoðun tveggja lagaprófessora, Stefáns Más Stefánssonar og Bjargar Thorarensen, að ef þessar reglur í nýju ESB-reglugerðinni yrðu innleiddar hér á landi óbreyttar, "yrði gengið lengra í framsali framkvæmdavalds og dómsvalds en talið er að heimilt sé samkvæmt stjórnarskránni."

Samkvæmt þessu er bannað að innfæra þessar reglur hér. En Evrópusambandið hefur ekki þegið einhverjar framboðnar málamiðlunartillögur á vegum íslenzkra og norskra stjórnvalda, heldur ætlast til þess að Íslendingar og Norðmenn lögtaki þetta eins og ekkert sé!

Það sama gæti átt við um nýja innistæðutilskipun ESB, sem myndi nær fimmfalda tryggingu innistæðna (hækka trygginguna úr 20.887 evrum upp í 100.000, stytta ennfremur útgreiðslutíma tryggingarinnar og leggja hana beinlínis á herðar ríkisins í hverju tilviki!).

Það er því eðlilega komið að krossgötum hér. Utanríkisráðherrann benti á það í frétt Sjónvarpsins, að hér væri tvennt til: annaðhvort að breyta stjórnarskránni til að leyfa fullveldisframsal eða að færa okkur úr úr EES-samningskerfinu. Margt bendir til, að einnig Norðmenn verði brátt að íhuga seinni kostinn. Ýmsir óttast hann þó, þ.e. uppsögn EES-samningsins, en gleyma því þá gjarnan, að í gildi er tolla- og fríverzlunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins.

Þetta er málefni, sem full nauðsyn er nú að ræða í framhaldinu. Vonandi hafa alvarlega þenkjandi menn bara haft gott af því að fá þessa viðvörun: að hætta steðjar nú að varnarákvæðum stjórnarskrárinnar, þeim sem sett voru í þágu fullveldis okkar. 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Reglugerðin ósamrýmanleg stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband