Sannfæring sem kann að vita á illt

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra á útleið, hefur lengi talið "óhjákvæmilegt að ganga í ESB." Á grunni þeirrar sannfæringar tók hann þátt í ófyrirleitnu áhlaupi á íslenzka þjóðarhagsmuni í Icesave-málinu. Ekki nýtur hann þess í kosningum í vor! Stjórnmálamenn, sem láta hagsmuni og þrýsting erlendra stórvelda ganga fyrir tillitssemi gagnvart eigin landsmönnum og þjóðarréttindum í bráð og í lengd, hafa aldrei átt upp á pallborðið hjá öllum þorra Íslendinga.

En andstætt þeim, sem blaðra án ábyrgðar um, að aldrei verði nein hætta á því, að Ísland hverfi inn í Evrópusambandið (dæmi: Pétur Gunnlaugsson á Útvarpi Sögu*), segir þessi heitttrúaði Brusselvinur, Össur, á fréttavef Bloomberg í dag: "Ég er sannfærður um að við munum á endanum ljúka viðræðunum og að samþykkt verði í þjóðaratkvæði að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu." Þegar fylgið við þá stefnu er vel innan við 30% í öllum nýjustu skoðanakönnunum, má spyrja, hvaðan í ósköpunum ráðherrann hafi fengið þessa undarlegu flugu í höfuðið.

Allir vita, að Norðmenn eru ein alríkasta þjóð í Evrópu og staða ríkissjóðs þar sennilega betri en nokkurs ríkis á byggðu bóli. Þeir höfðu því eftir litlu að slægjast í Evrópusambandinu, sem hét þeim í aðildarviðræðum að fá ENGIN sérréttindi til fiskveiða í norskri lögsögu -- og hvorki einkarétt yfir stjórn á fiskveiðum norðan 62. breiddargráðu (nema um fjögurra ára skeið, 1994-30.6. 1998**) né að fá "regluna um hlutfallslegan stöðugleika" fiskveiða hvers ESB-sjávarútvegsríkis innmúraða sem trausta og varanlega inn í aðildarsáttmálann. NEI-hreyfingin og norsk sjávarútvegssamtök áttuðu sig á því, hvílíkur risavaxinn réttindamissir yrði í þessu fólginn, og hófu gagnsókn í málinu gegn þáverandi ríkisstjórn, 1994.

Þegar ástand og forsendur mála voru svona afgerandi í Noregi -- landið í engri þörf til að beygja sig undir yfirvald Evrópusambandsins -- mátti þá ekki gera ráð fyrir yfirgnæfandi andstöðu við inntöku landsins í ESB -- eitthvað svipað og 70% andstaðan hér á Íslandi?

Nei, því var ekki að heilsa. Einungis 52,2% sögðu NEI við aðildarsáttmálanum, jafnvel færri en í fyrra skiptið, 1973, þegar 53,5% sögðu sitt stolta NEI.

Hvað olli því, að svo naumt var á mununum milli ESB-innlimunarmanna og norskra fullveldissinna? Jú, ríkisstjórnin sjálf og fjölmiðlar og helztu samtök í verkalýðshreyfingu og meðal atvinnurekenda, að sjávarútvegi undanskildum, tóku afstöðu með Evrópusambandinu. Þar við bættist svo massífur áróður hins síðastnefnda. Þó munu yfirburðir ESB í auglýsingamennskunni í Noregi 1993-4 hafa verið langtum minni en horfur eru eða voru á hér á landi, þar sem stjórnvöld hafa í hneykslanlegri auðmýkt leyft Evrópusambandinu að leggja 230 milljónir króna í yfirvofandi áróðursherferð fyrir innlimun Íslands í stórveldið.

Hættuna, sem yfir okkur vofir, skyldu menn því ekki vanmeta. Það er lítið mál að hella áróðri yfir Íslendinga, og því ber ríkisstjórn og Alþingi að koma í veg fyrir slíkt og getur þar stutt sig við Vínarsáttmálann um skyldur sendiráða, en einnig haft hliðsjón af eigin löggjöf sem meinar stórfyrirtækjum -- að gefnu tilefni -- að dæla milljónastyrkjum í stjórnmálamenn og -flokka.

Því ber þess vegna að fagna, að tveir stærstu stjórnmálaflokkar á Íslandi (miðað við nýjustu skoðanakannanir) vilja láta loka hinni rangnefndu "Evrópustofu". Andmæli Hönnu Birnu Kristjánsdóttur gegn slíkri lokun eru ekkert minna en sorglegt dæmi um tilefnislausa óhlýðni við lýðræðislega samþykkt hennar eigin landsfundar.

* Pétur er einn helzti talsmaður nýs flokks, Lýðræðisvaktarinnar, heldur ítrekað uppi kosningaáróðri fyrir þann flokk, og vegna þeirrar fráleitu stefnu hans að vilja halda áfram aðildarviðræðunum -- rétt eins og Samfylking, "Björt framtíð" og Vinstri grænir -- hefur Pétur komizt í vörn gagnvart mörgum hlustendum sínum, sem vilja ekkert með Evrópusambandið hafa að gera. Úrræði hans hefur einkum verið að láta sem ESB-málið sé alls ekki meðal helztu alvöru-deilumála fyrir komandi kosningar og þar að auki muni þjóðin "aldrei" samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu að ganga inn í Evrópusambandið. En það er EKKI þess vegna, sem hið sama ESB eyðir tugum milljóna, hundruðum milljóna og þúsundum milljóna í það að koma Íslandi inn í Evrópusambandið -- þeir í Brussel hafa langa reynslu af því, að tekizt hafi að snúa afstöðu almennings í umsóknarríkjum (m.a. Svíþjóð og Tékklandi) nánast á síðustu stundu til fylgis við stórveldið. Og okkar vanhæfi utanríkisráðherra veit sennilega lengra sínu nefi um áform Brussel-herranna í þessu efni og hefur því sína sannfæringu sem gengur þvert gegn yfirlýstu áliti Péturs Gunnlaugssonar, sem svo gjarnan vill sem minnst úr ábyrgð sinni gera á samstöðunni með hinum harða ESB-sinna Þorvaldi Gylfasyni.

** Sjá Tengsl Íslands og Evrópusambandsins, með undirtitlinum "Skýrsla Evrópunefndar um samstarfið á vettvangi EES og Schengen og um álitaefni varðandi hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu", Rv. 2007, bls. 104.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Óhjákvæmilegt að ganga í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband