Engin þörf á að semja um neinn makrílkvóta Íslands nema þá helzt til aukningar

Steingrímur J. Sigfússon hefur ekkert þjóðarumboð til að semja við Evrópusambandið um makrílkvóta, hvorki 7, 10 né 15%.

Við höfum veitt úr honum um 16% af þeim kvóta, sem Alþjóða-hafrannsóknaráðið hefur lagt til, en það er í raun of lítið miðað við 1) dvalartíma hans hér við land (um 40% líftíma hans), 2) gríðarlegt magn átu sem hann innbyrðir hér við land, um fimmfalda eiginþyngd hans, og þetta tekur fæðu frá öðrum fiski hér.

Í þriðja lagi er ætlun ESB-þjóðanna um eigin veiðar í stórfelldu ósamræmi við það, hvar makríllinn heldur sig og í raun margföld rányrkja, ef eitthvað er "sjórán" á þessari fisktegund, enda ætla þær sér áfram að veiða margfaldlega á við okkur!

En í 4. lagi er svo ráðgjöf Alþjóða-hafrannsóknaráðsins byggð á sandi fremur en vísindum, gersamlega ótækum rannsóknaraðferðum, eins og vel kemur fram í afar skýrum skrifum Jóns Kristjánssonar fiskifræðings um þau mál, hér 6. þ.m. á Moggabloggi: Ekki semja um makrílinn!

Það er því ankannalegt í hæsta máta að lesa þessar fréttir frá Evrópusambandinu:

Evrópusambandið hefur í hyggju að bjóða Íslendingum 10% af ráðlögðum makrílkvóta í Norðaustur-Atlantshafi og Færeyingum sama hlutfall samkvæmt því sem fram kemur á írsku fréttasíðunni Donegal Democrats í dag.

Þar segir ennfremur að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sjái fram á að geta stöðvað „stjórnlausa rányrkju“ Íslendinga og Færeyinga á makrílstofninum með slíku tilboði og að um sé að ræða ásættanlega lendingu til þess að binda endi á makríldeiluna.

"Ásættanleg lending" -- þannig talar þetta kerfisfólk, ásamt óverjanlegum upphrópunum sínum, í stað þess að virða efnahagslögsögu hvers ríkis. Hún yrði að sjálfsögðu ekki virt hér, ef við færum inn í þetta Evrópusamband, þar er gefinn jafn aðgangur allra ESB-þjóða að fiskimiðunum. En jafnvel án "inngöngu" í þetta stórveldabandalag ætlast það til þess að fá að vaða hér yfir okkur á skítugum skónum með þrýstingi á þá ráðamenn hér, sem reyndust, þrátt fyrir það sem mönnum sýndist, ekki hafa bein í nefinu til að standa gegn yfirgangi þjóða úr þessari sömu átt.

Það er dæmigert, að bæði Belgar og Hollendingar taka undir hortugheit og frekju Skota, Íra og Breta á móti okkur á sínum ESB-vettvangi, en Danir og Svíar hafa hins vegar óskað eftir "málamiðlun".

Það er í 1. lagi spurning, hvort Íslandsmið og ástand annarra fiskistofna þyldi slíka málamiðlun -- réttast væri líklega að auka veiðarnar hér langt upp fyrir 20% heildarveiði makrílsins á NA-Atlantshafi. En í 2. lagi á það ekki að vera hlutverk annarra Norðurlandaþjóða að vera með íhlutun í okkar innanríkismál og stuðla að þvingun gagnvart okkar eigin efnahagslögsögu, um leið og með því væri verið að svipta okkur útflutningstekjum svo næmi mörgum tugum milljarða króna á t.d. einu kjörtímabili.

Steingrímur J., sem er að renna út skeið síns kjörtíma, hefur ekkert umboð þjóðarinnar til að gera hrossakaup við Evrópusambandið með lúpulegum svip. Sitthvað bendir jafnvel til, að hann ætli sér að eiga það spil í bakhendinni fyrir næstu kosningar að hafa loksins reynzt standa gegn offorsi stórveldisins í þessu máli. Þó er eins víst og að sólin kemur upp í fyrramálið, að fólk er hætt að treysta honum fyrir áframhaldi makrílveiða okkar, sbr. að fyrir örfáum dögum kom í ljós í könnun Útvarps Sögu, að innan við 20. hver maður treystir honum til samninga við ESB um þetta mál (Algert vantraust á Steingrími J. Sigfússyni til að semja við ESB um makrílkvóta).

Slíkir samningar eru hvort eð er óþarfir, meðan valdamenn Evrópusambandsins halda sig uppi í skýjunum og tala af hroka og yfirlæti niður til Íslendinga og Færeyinga.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Verða Íslendingum boðin 10%?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi Helgason

Eftir að hafa litið á yfirlitskort af íslendsku fiskveiðilögsögunni, þá sýnist mér að það sé þó nokkur vegalengd milli þeirrar íslendsku og þeirrar skosku og írsku.

Þess vegna fæ ég nú ekki skilið hvernig þessar þjóðir telji sig hafa einhvern "rétt" til þess að hlutast til um hvernig Íslendingar hagi sínum veiðum á sínu umráðasvæði, - það er, - að þær þjóðir geti skipað svo fyrir hversu mikið Íslendingar megi veiða af fiski í sinni lögsögu.

Mér hefði fundist eðlilegra að þessar fiskveiðaþjóðir hefðu óskað eftir samkomulagi við Íslendinga um að þær fengju að veiða makríl hér, svo sem eins og 100 þúsund tonn, svo ég nefni einhverja tölu. Það finndist mér ólíkt gæfulegra.

Og ég er viss um að þeirra fiskimenn myndu ekki "fúlsa" við því.

Tryggvi Helgason, 19.7.2012 kl. 12:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband