Enn fleiri aðlögunarverkefni dúkka upp og tölvukerfum ráðuneyta breytt í þágu ESB - en ráðherrar týndir þjóðinni og tröllum gefnir?

Á sama tíma og öll teikn eru um, að Steingrímur J. ætli sér að láta undan kröfum ESB um stórfelldan samdrátt í makrílveiðum hér, berast fleiri fregnir af hneisulegri meðvirkni með ESB hér, stjórnarskrárbrot falin og ný aðlögun sett í gang.

Stórathyglisverð frétt í Mbl. í dag, Leggja drög að tölvukerfi fyrir styrkjakerfi ESB ætti með réttu að vera komin inn á Mbl.is, en undirfyrirsögn er þar: • Forvinna í iðnaðarráðuneytinuKallar á nokkur mannár í vinnu. Baldur Arnarson blaðamaður upplýsir þar lesendur um það, hvernig "sérfræðingar iðnaðarráðuneytisins hafa að undanförnu unnið að þarfagreiningu fyrir tölvukerfi sem yrði notað fyrir styrkjakerfi Evrópusambandsins, komi til aðildar. Kerfið heitir á ensku Management Information System, MIS, og er jafnframt einskonar gæðakerfi sem Evrópusambandið notast við vegna styrkjakerfisins."

Styrkjakerfi ESB "er mikið að vöxtum og gerir Evrópusambandið kröfu um að aðildarríkin notist við tölvukerfi á borð við það sem starfsmenn iðnaðarráðuneytisins vinna nú frumkönnun á svo leggja megi mat á hvernig það rímar við íslenskar aðstæður." Þótt ódýrara verði en í stærri löndum vegna smæðar okkar, "er talið að kostnaðurinn verði umtalsverður og margfaldur á við það sem hann er í dag, enda er kerfið ekki einfalt í sniðum. Þá hafa sérfræðingar í huga að uppsetning kerfisins hefur vafist fyrir sérfræðingum fjölmennari umsóknarríkja og er sá vari því hafður á að verkið geti tekið sinn tíma og er undirbúningurinn talinn kosta nokkur mannár í vinnu," segir í frétt Baldurs.

En málið snýst um, að "til að sýna fram á að Ísland geti mætt öllum skilyrðum sambandsins um undirbúning, áætlanir og framkvæmd á styrkjum ESB til landbúnaðar, byggðamála og fiskveiða," þurfi að "taka upp ákveðna verkferla í íslenska stjórnkerfinu til að sýna fram á að Ísland geti mætt öllum skilyrðum sambandsins um undirbúning, áætlanir og framkvæmd á styrkjum ESB til landbúnaðar, byggðamála og fiskveiða."

Svo fáum við hér skammt af býrókratísku sproki samninganefndar Íslands, en á vef hennar er vikið að tölvukerfinu:

Tekið verður til athugunar hvort hanna skuli nýtt upplýsingastjórnunarkerfi á vegum stjórnunaryfirvalds og einnig skal lagt mat á hagkvæmni þess að reka eitt upplýsingastjórnunarkerfi fyrir alla sjóði ESB. Þarfagreining verður framkvæmd varðandi eftirlit og matsgerðir og kerfi og verklag áður en kaflanum verður lokað. Þessi vinna mun fela í sér heildarþarfagreiningu á upplýsingastjórnunarkerfunum og að þarfir verði kortlagðar. Á þessum grundvelli verður þjálfunaráætlun gerð í samvinnu við framkvæmdastjórnina og valin aðildarríki.

Og þá ber þess að geta, að "uppsetning á nauðsynlegu upplýsingastjórnunarkerfi mun eiga sér stað í öðrum áfanga," eins og segir á vef samninganefndarinnar, og þessu "ferli" fylgja m.a. heimsóknir möppudýra héðan til aðildarríkja Evrópusambandsins (orðalag undirritaðs, en byggt á á vefnum vidraedur.is) og allt gert til að "tryggja skjóta uppsetningu".

Þannig er litla Ísland í höndum okkar afvegaleiddu stjórnmálastéttar, sem starfar þvert gegn vilja landsmanna, sem í öllum skoðanakönnunum frá umsókn Össurarliðsins hafa tekið eindregna meirihlutaafstöðu gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið; og embættismannastéttin er sett í þjónustuverkin, hvort sem þau snúast um að fækka ráðuneytum (og ráðherrum) til þægðar ESB eða að hraða því sem mest menn mega að aðlaga stjórnarráðið að kerfi ESB.

Margt bendir til þess, að gamli kommúnistakjarninn í Vinstri grænum hafi gengið Evrópusambandinu á hönd, ekki aðeins Árni Þór Sigurðsson, sem hóf sitt nálgunarferli á því að meðtaka 10 milljóna persónulegan styrk til að "kynna sér" ESB og dveljast þar í eitt ár við lúxusaðstæður heldur líka Svavarsliðið Gestssonar og Steingrímur J. Sigfússon. Steingrímur er nú í því að hringsnúast kringum annan gamlan kommúnista (einn enn í framkvæmdastjórn ESB), Mariu Damanaki, og beygja sig og bugta fyrir kröfum um "samninga um makrílinn", eins og þær séu eðlilegar - á sama tíma og alþýða manna sýnir í nýjustu vefkönnun Útvarps Sögu, að yfir 95% telja, að Íslendingar eigi sjálfir að ráða makrílkvótanum innan landhelgi Íslands. Dóttir Svavars, ráðfrúin verkefnalitla Svandís, var hins vegar í því í verkum sínum undir þinglokin að skjóta undir stól (í Össurarstíl) áliti tveggja virtra lagasérfræðinga um að nýjasta ESB-löggjafarinnfærslan hér stríddi gegn stjórnarskrá okkar!

Almennum félagsmönnum Vinstri grænna ætti að vera orðið ljóst, að þessi forysta þeirra hefur svikið vilja og stefnu óbreyttra flokksmanna og kjósenda þess flokks, sem fekk ófá atkvæði út á það, sem vorið 2009 virtist hin einarðasta kosningastefna nokkurs flokks GEGN ESB-aðild. Þessi grasrót VG getur naumast haldið áfram að láta sem ekkert sé og leyft forystu sinni að leika lausum hala með þessum hætti og komast upp með svik við landið og þjóðina og þá sjálfa um leið.

Jón Valur Jensson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur I.

Sælir hér baráttujaxlar og baráttukonur.

Ég held reyndar eftir að hafa lesið aumlega grein Árna Þórs Sigurðssonar um tafarlausa uppgjöf í markríldeilunni, sem nota bene er þingflokksformanns VG og formaður utanríkismálanefndar að hann sé einungis í eiginhagsmunapoti og greinilega löngu orðin heittrúaður ESB kerfissinni enda allur þannig þenkjandi.

Ég spái því nú að hann sé að fara að undirbúa prófkjör sitt fyrir Samfylkinguna, þaðan sem hann reyndar kom. Ótrúlegt hvað þessi annars duglausi, litlasusi og fylgislausi atvinnupólitíkus hefur náð ótrúlega langt með flokksræðis- og tækifærismennskunni einu saman.

Nú fer hann aftur heim í Samfylkinguna og Össur hinn slóttugi refur hefur lofað honum feitu djobbi í Brussel ef honum tekst með sínu brölti ásamt þeim að troða þjóðinni inn í ESB !

Gunnlaugur I., 10.7.2012 kl. 17:41

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér kærlega fyrir innleggið, félagi. Mér gafst ekki tími til að svara þér verðuglega í gærkvöldi, ég þarf nefnilega að skrifa hérna meira en nokkur orð og vænti þess að gera það seinna í kvöld.

Jón Valur Jensson, 11.7.2012 kl. 19:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband