Þessum sendiherra er ekki stætt á að vera hér áfram - en um leið þarf ríkisstjórnin að taka á sig rögg!

Glöggt er athugað hjá Birni Bjarnasyni, að sendi­herr­a ESB gef­ur í skyn að Gunnar Bragi og Sigmundur Davíð séu ómerk­ing­ar, er þeir segja ESB-um­sókn­ina aft­ur­kallaða, en sendiherrann sjálfur fullyrti í Morg­un­blaðinu í gær að hugs­an­legt sé að um­sókn­in um inn­göngu í sam­bandið sé enn í fullu gildi, og þó hafa for­ystu­menn rík­is­stjórn­ar­inn­ar ít­rekað sagt að svo sé ekki.

„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ESB-sendi­herra á Íslandi hlutast til um ís­lensk inn­an­lands­mál. For­ver­ar Brink­manns hafa ekki fengið um­vand­an­ir af hálfu ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins,“ seg­ir Björn og velt­ir fyr­ir sér hvernig Gunn­ar Bragi Sveins­son ut­an­rík­is­ráðherra bregðist við. (Mbl.is)

Ætlar Gunnar Bragi Sveinsson að sitja undir því, að yf­ir­maður sendi­nefnd­ar Evr­ópu­sam­bands­ins á Íslandi, Matt­hi­as Brinkmann, lýsi ráðherra ríkis­stjórnarinnar ómerka orða sinna um þessi mál?

  1. Fyrri dæmi um íhlutun sendiherra ESB í okkar innanríkismál voru mjög gróf og snerust um Timo Summa, hinn finnska sendi­herra Evrópu­sam­bandsins. Sjá um það hér: Lögleysu-athæfi sendiherra, en þó umfram allt hér í hinni eitilsnjöllu grein Tómasar Inga Olrich, fyrrv. sendiherra: Summa diplómatískra lasta.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar geta ekki unað því að vera virtir með þessum hætti að vettugi af sendiherra ESB og af Evrópusambandinu sjálfu -- því að ljóst er, að sendiherrann talar í fullu umboði þess, til þess hefur hann fullt vald, eins og áherzla var lögð á í síðustu grein hér á þessu vefsetri, og á sömu sveif leggst Styrmir Gunnarsson, með öðrum rökum, í grein á vefsetri sínu þennan fimmtudag: Yfirlýsing sendiherrans jafngildir formlegri afstöðu ESB

Þar með hefur ríkisstjórnin fengið það staðfest, að Evrópusambandið tekur ekki mark á bréfaskrifum Gunnars Braga utanríkisráðherra, sem áttu að heita uppsögn hans f.h. ríkisstjórnarinnar á Össurarumsókninni frá 2009. Þessi bréf Gunnars Braga voru í raun aðferð hans til að víkja sér undan því að leggja málið fyrir Alþingi; ástæðan var ekki merkilegri en svo, að þarna var gripið til þess ráðs að gefast upp fyrir samfelldum áróðurs-þrýstingi Samfylkingarinnar, annarra ESB-sinna og samherja þeirra í fjölmiðlum, þ.m.t. í sjálfum ríkis­fjöl­miðl­unum, sem voru blygð­unar­laust misnotaðir í þessu skyni misserum saman.

Menn lesi nú endilega skrif Björns og Styrmis um málið, en ríkisstjórnin hefur nú það augljósa, knýjandi verkefni, sem ágætur maður, Jóhann Elíasson, lýsti svo, að hún ætti "að hætta þessari hræðslu við stjórnarandstöðuna og leggja fram frumvarp um afturköllun umsóknarinnar og afgreiða það frumvarp á þann hátt sem ber ... að afturkalla þessa umsókn á ÓUMDEILDAN HÁTT ÞANNIG AÐ EKKI VERÐI UM NEINA ÓVISSU AÐ RÆÐA." 

Slík afturköllun væri einmitt í fullu samræmi við stefnu­mörkun lands­funda ríkisstjórnar­flokkanna tveggja stuttu áður en þeir komust til valda.

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Hvað gerir Gunnar Bragi núna?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. nóvember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband