Neðanjarðarstarfsemi Dags B. Eggertssonar og Samfylkingar í sveitarfélögum í þágu ESB-innlimunar Íslands

Dæmigerð, en að engu hafandi er sú moldvörpustarfsemi sem evrókratar hafa tekið upp á vettvangi sveitarfélaga (eins og á öðrum vígstöðvum, m.a. í "Óðinsvéum" síðustu vikur). Dagur B. fekk tillögu samþykkta hjá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 28. febrúar sl. þar sem hún hvatti til þess "að Alþingi tryggi sveitarfélögunum í landinu ráðrúm til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegna málsins," þ.e. vegna þingsályktunartillögu utanríkisráðherrans um slit aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Engin sérstök þörf er á afskiptum sveitarfélaga af þessu málefni Alþingis. Um stefnu flokkanna var kosið í vor, og lýðræðið kvað upp sinn úrskurð eftir fjögurra ára vandræðastjórn hinnar ESB-þýlyndu Samfylkingar: þjóðin taldi rétt að kippa henni úr 29,8% fylgi niður í 12,9%. Áttundi hver maður á landinu reyndist þannig fylgja Jóhönnu- og Árna Páls-flokknum, þegar upp var staðið, enda hafði þessi flokkur haft forgöngu um að freista þess að láta Íslendinga borga risavaxnar, en ólögvarðar kröfur tveggja gamalla nýlenduvelda, en allt það athæfi studdi Evrópusambandið opinberlega og beitti sér hart gegn okkar þjóðarhagsmunum.

Til að kóróna óhæfuna sótti Samfylkingin um inntöku Íslands í Evrópusambandið og framkvæmdi þá gjörð sína með þrýstingi á annan flokk að láta hann svíkja sín kosningaloforð, en lokahnykkurinn á verkinu fólst í því að brjóta gegn ákvæðum 16.–19. gr. stjórnarskrárinnar um þingsályktanir í miklilsverðum málum, eins og ítrekað hefur verið fjallað um hér á vefsetrinu.

Kyndugt er, með þessa ljótu fortíð málsins, að Samfylkingunni ærusviptu takist nú að fá aðra vinstri þingflokka, jafnvel einn sem þykist á móti ESB-inngöngu (enda ekki annað fært, þar sem þannig er hugur grasrótar hans), til að hamast gegn sjálfsagðri tillögu utanríkisráðherrans að gera út af við þessa umsókn Össurar og fylginauta hans fúsra sem ófúsra.

Sveitarfélögin eiga enga þá "aðkomu" að þessu landsstjórnarmáli, að það réttlæti ógáfulegar yfirlýsingar sveitarstjórna í Kópavogi, Hafnarfirði og Reykjavík. Eina "aðkoma" sveitarstjórnarmanna í þessu máli virðist helzt sú, sem snertir þerra eigin pyngju og frítíma, vellystingar og vonda samvizku, en þeir hafa þegið óspart af boðsferðum á vegum ESB til Brussel og víðar, ókeypis flugferðir og keyrslu, hótelgistingu og risnu og dagpeninga í þokkabót. Æ sér gjöf til gjalda, og nú fannst þeim kannski sem komið væri að skuldadögunum eða vildu ekki missa fleiri slíka spóna úr aski sínum.

En það mega sveitarstjórnarmenn í nágrenni Reykjavíkur vita, að þar er vinstri meirihluti alls staðar hruninn samkvæmt skoðanakönnunum. Þessum ótrúu fulltrúum fólksins væri því nær að sinna beinum starfsskyldum sínum en að gera neitt til þókknunar því Evrópusambandi, sem þjóðin hefur í ÖLLUM skoðanakönnunum frá Össurarumsókninni tjáð sig andvíga því að verða partur af.

Það væri líka mesta áfall sveitarfélaga landsins, ef stjórnvöldum við Lækjartorg og Austurvöll tækist að véla landið inn í Brusselbandalag gömlu stórveldanna í Evrópu, með tilstyrk áróðursfjár frá hinu sama stórveldabandalagi og auðsveipra útsendara þess hér á landi. Ein afleiðingin yrði t.d. sú, að útgerðarmenn gætu selt aflaheimildir sínar hæstbjóðanda í því hinu sama ESB, og þar með færi aflinn til erlendra togara með erlendum áhöfnum, sem skila myndu sínum sköttum til sinna eigin landa, enda aflanum landað þar. Það sjá það allir fyrir sér nema blindir ESB-dýrkendur, hvílíkt reiðarslag það yrði fyrir tekjustofna sveitarfélaga við sjávarsíðuna, en þar eru skipstjórnarmenn og sjómenn langdrýgstir meðal útsvarsgreiðenda. Auðn og atvinnuleysi myndi blasa við í slíkum sjávarbyggðum, verðfall á fasteignum og flótti fjölskyldna í þéttbýlið syðra, en með lítil efni til að koma sér þar þaki yfir höfuðið. Hrapið í gjaldeyrisöflun landsins vegna tapaðs afla og vegna samdráttar í afleiddum störfum og iðngreinum yrði svo engu síður hnekkir fyrir þjóðarhag.

En þetta er nú einu sinni framtíðarsýn Salfylkingarinnar, sú sem hún aldrei minnist á. Hitt er ekki að efa, að fremstu flokksspírur hennar ættu að kjötkötlum að ganga fyrir sjálfa sig í Brussel, hálaunaembættum og skattafríðindum. Svikin við alþýðu Íslands og sjálfstæðishugsjónir 19. og 20. aldar manna væru hins vegar augljós.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vilja ljúka aðildarviðræðum að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband