Aðildarumsóknin að ESB og stjórnarskrámálið eru sama málið


Árni Páll Árna­son sagði í bréfi sem hann sendi flokks­meðlim­um í Sam­fylk­ing­unni 11. febrúar sl.: „Við byggðum aðild­ar­um­sókn að ESB á flóknu baktjalda­sam­komu­lagi, sem aldrei hélt, í stað þess að fá skýrt umboð frá þjóðinni til að fara í aðild­ar­viðræður, sem hefði bundið alla flokka við um­sókn­ar­ferlið.“ En þarna játar Árni að umsóknarferlið hafi verið ein stór mistök.

Helgi Hjörvar þing­flokks­for­maður, sem fýsir að verða for­maður, tekur í svipaðan streng í yf­ir­lýs­ingu sem hann sendi fjölmiðlum í kjöl­far þess að hann til­kynnti fram­boð til for­mennsku í flokkn­um; „Það dug­ar ekki að bíða eft­ir evr­unni, held­ur þarf Sam­fylk­ing­in skýra stefnu­breyt­ingu.” - Sem er í sjálfu sér allt í lagi, en hann heldur áfram: “Við eig­um að halda aðild­ar­um­sókn­inni að ESB á lofti, en hætta að segja að allt sé ósann­gjarnt og verði áfram óhóf­lega dýrt á meðan við höf­um okk­ar veik­b­urða gjald­miðil.“ -Takið eftir, að hann segir að halda eigi aðildarumsókninni á lofti og viðurkennir þar með að hún hafi ekki verið dregin til baka og segir að krónan sé “veikburða gjaldmiðill.” Og hann sagði enn­frem­ur í yf­ir­lýs­ingu sinni: „Við meg­um ekki fresta því að breyta kerf­inu þangað til við fáum al­vöru gjald­miðil.“ Þessar yfirlýsingar Helga gefa okkur nasasjón af því hvernig hann myndi beita sér í Evrópusambands-aðildarmálinu, yrði hann formaður Samfylkingarinnar - væri hann vís til að gera allt til þess að liðka fyrir sem sneggstri innlimun í ESB.

En förum nú aftur í yfirlýsingar Árna Páls þar sem hann talar um flókið bak­tjaldamakk í tengslum við ESB "aðildar­viðræðurnar". Árið 2009 átti að ganga í sambandið að undan­gengnum breytingum á stjórnarskrá. Leitað var til Feneyja­nefndarinnar um álit á því hverju þyrfti helst að breyta og var það álit tilbúið 2010. Til að hægt væri að opna kafla er vörðuðu framsal valds og að gera okkur gjaldgeng til inngöngu þurfti að breyta ákvæðum í stjórnarskrá hvað þetta varðaði. Þá var á endanum skipað stjórnlagaráð sem síðar kom með tillögur að breytingum, sem áttu að vera samkvæmt forskrift Feneyja­nefnd­arinnar. (Það má taka fram að við skipun stjórnlagaráðs var litið framhjá úrskurði hæstaréttar um kosningar til stjórnlagaþings). Þessi drög voru send Feneyja­nefndinni til yfirferðar og skilaði hún áliti sínu á þeim 2013 sem í stuttu máli sagði drögin ómöguleg þar sem of margir fyrirvarar væru á framsals­ákvæðum. Meðan svo var, var ekki hægt að opna kafla er vörðuðu framsalið og því sigldu aðlögunarviðræðurnar í strand. Þetta var aldrei viðurkennt og aðeins rætt um hlé á aðildarviðræðum. Reynt var að telja fólki trú um að aðildar­viðræðurnar svonefndu og stjórnar­skrár­málið væru tvö aðskilin mál sem þau voru að sjálfsögðu ekki. Enn er verið að vinna í stjórnarkrármálinu, því án valda­framsals í stjórnarskrá er ekki hægt að halda "aðlögunarviðræðum" – réttu nafni: aðildarferlinu – áfram.

Með því að rýna í gegnum þennan vef blekkinga og baktjaldamakks má sjá að ESB-umsóknin og stjórnarskrármálið eru sama málið.

Svonefndar rýniskýrslur voru gerðar af ESB, en mönnum var ekki mikið í mun að þær kæmu fyrir almenningssjónir. Er ástæðan eflaust sú að þar hefði komið fram á hverju steytti, nefnilega framsali valds í stjórnarskrá. Öll gögn um aðild­arumsóknina á að vera hægt að finna á vef utanríkis­ráðuneytisins, framvindu­skýrslur, álit stjórnarskrár­nefndar og ESB-Feneyja­nefndarinnar 2010 og 2013. En þar vantar þó enn rýniskýrslurnar. Þær hefur Össur séð ásamt fleirum, en þær eru of eldfimar til opinberar birtingar því að þær tengja þessi tvö mál saman svo ekki verður um villst.

Stjórnarskrárnefnd heldur áfram undirbúningsvinnu fyrir aðild að ESB án þess að fólk almennt átti sig á því. Ekki tókst að ná fram sáttum um framsals­ákvæðin í síðustu atrennu, en það má búast við því að það verði reynt áfram, því það er lykillinn að því að taka upp viðræður við ESB, sem strönduðu einmitt á þessum ákvæðum.

Það er mikil herkænska af Samfylkingunni að slaka á kröfunni um inngöngu í Evrópusambandið þegar vitað er að aðildarferlið er stopp og mun hvergi komast af stað fyrr en búið er að liða sundur stjórnarskrána til að gera okkur hæf til inngöngu og opna á kafla sem varðar framsal. Nú eru þeir komnir með forgangsröðina. Nú mun áherslan lögð á stjórnarskrárbreytingar til að greiða götuna. Ég vil hvetja fólk til þess að vera vel á verði og fylgjast vel með fréttum af stjórnarskráviðræðum. Sjáum hvort framsalsákvæðið komi aftur til umræðu. Skrifum og látum í okkur heyra og mótmælum ef troða á í gegn þessu ákvæði um skilyrðislaust framsal valds í stjórnarskrá lýðveldis okkar.

Steindór Sigursteinsson. Steindór er hér gestapenni samtakanna. Með þakklæti.


Bloggfærslur 26. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband