Neðanjarðarstarfsemi Dags B. Eggertssonar og Samfylkingar í sveitarfélögum í þágu ESB-innlimunar Íslands

Dæmigerð, en að engu hafandi er sú moldvörpustarfsemi sem evrókratar hafa tekið upp á vettvangi sveitarfélaga (eins og á öðrum vígstöðvum, m.a. í "Óðinsvéum" síðustu vikur). Dagur B. fekk tillögu samþykkta hjá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 28. febrúar sl. þar sem hún hvatti til þess "að Alþingi tryggi sveitarfélögunum í landinu ráðrúm til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegna málsins," þ.e. vegna þingsályktunartillögu utanríkisráðherrans um slit aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Engin sérstök þörf er á afskiptum sveitarfélaga af þessu málefni Alþingis. Um stefnu flokkanna var kosið í vor, og lýðræðið kvað upp sinn úrskurð eftir fjögurra ára vandræðastjórn hinnar ESB-þýlyndu Samfylkingar: þjóðin taldi rétt að kippa henni úr 29,8% fylgi niður í 12,9%. Áttundi hver maður á landinu reyndist þannig fylgja Jóhönnu- og Árna Páls-flokknum, þegar upp var staðið, enda hafði þessi flokkur haft forgöngu um að freista þess að láta Íslendinga borga risavaxnar, en ólögvarðar kröfur tveggja gamalla nýlenduvelda, en allt það athæfi studdi Evrópusambandið opinberlega og beitti sér hart gegn okkar þjóðarhagsmunum.

Til að kóróna óhæfuna sótti Samfylkingin um inntöku Íslands í Evrópusambandið og framkvæmdi þá gjörð sína með þrýstingi á annan flokk að láta hann svíkja sín kosningaloforð, en lokahnykkurinn á verkinu fólst í því að brjóta gegn ákvæðum 16.–19. gr. stjórnarskrárinnar um þingsályktanir í miklilsverðum málum, eins og ítrekað hefur verið fjallað um hér á vefsetrinu.

Kyndugt er, með þessa ljótu fortíð málsins, að Samfylkingunni ærusviptu takist nú að fá aðra vinstri þingflokka, jafnvel einn sem þykist á móti ESB-inngöngu (enda ekki annað fært, þar sem þannig er hugur grasrótar hans), til að hamast gegn sjálfsagðri tillögu utanríkisráðherrans að gera út af við þessa umsókn Össurar og fylginauta hans fúsra sem ófúsra.

Sveitarfélögin eiga enga þá "aðkomu" að þessu landsstjórnarmáli, að það réttlæti ógáfulegar yfirlýsingar sveitarstjórna í Kópavogi, Hafnarfirði og Reykjavík. Eina "aðkoma" sveitarstjórnarmanna í þessu máli virðist helzt sú, sem snertir þerra eigin pyngju og frítíma, vellystingar og vonda samvizku, en þeir hafa þegið óspart af boðsferðum á vegum ESB til Brussel og víðar, ókeypis flugferðir og keyrslu, hótelgistingu og risnu og dagpeninga í þokkabót. Æ sér gjöf til gjalda, og nú fannst þeim kannski sem komið væri að skuldadögunum eða vildu ekki missa fleiri slíka spóna úr aski sínum.

En það mega sveitarstjórnarmenn í nágrenni Reykjavíkur vita, að þar er vinstri meirihluti alls staðar hruninn samkvæmt skoðanakönnunum. Þessum ótrúu fulltrúum fólksins væri því nær að sinna beinum starfsskyldum sínum en að gera neitt til þókknunar því Evrópusambandi, sem þjóðin hefur í ÖLLUM skoðanakönnunum frá Össurarumsókninni tjáð sig andvíga því að verða partur af.

Það væri líka mesta áfall sveitarfélaga landsins, ef stjórnvöldum við Lækjartorg og Austurvöll tækist að véla landið inn í Brusselbandalag gömlu stórveldanna í Evrópu, með tilstyrk áróðursfjár frá hinu sama stórveldabandalagi og auðsveipra útsendara þess hér á landi. Ein afleiðingin yrði t.d. sú, að útgerðarmenn gætu selt aflaheimildir sínar hæstbjóðanda í því hinu sama ESB, og þar með færi aflinn til erlendra togara með erlendum áhöfnum, sem skila myndu sínum sköttum til sinna eigin landa, enda aflanum landað þar. Það sjá það allir fyrir sér nema blindir ESB-dýrkendur, hvílíkt reiðarslag það yrði fyrir tekjustofna sveitarfélaga við sjávarsíðuna, en þar eru skipstjórnarmenn og sjómenn langdrýgstir meðal útsvarsgreiðenda. Auðn og atvinnuleysi myndi blasa við í slíkum sjávarbyggðum, verðfall á fasteignum og flótti fjölskyldna í þéttbýlið syðra, en með lítil efni til að koma sér þar þaki yfir höfuðið. Hrapið í gjaldeyrisöflun landsins vegna tapaðs afla og vegna samdráttar í afleiddum störfum og iðngreinum yrði svo engu síður hnekkir fyrir þjóðarhag.

En þetta er nú einu sinni framtíðarsýn Salfylkingarinnar, sú sem hún aldrei minnist á. Hitt er ekki að efa, að fremstu flokksspírur hennar ættu að kjötkötlum að ganga fyrir sjálfa sig í Brussel, hálaunaembættum og skattafríðindum. Svikin við alþýðu Íslands og sjálfstæðishugsjónir 19. og 20. aldar manna væru hins vegar augljós.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vilja ljúka aðildarviðræðum að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Eitt kemur ennfremur mjög óvart í þessu sambandi:

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks í Kópavogi og Hafnarfirði SÁTU HJÁ, þegar greidd voru atkvæði um hinar alls óviðeigandi tillögur evrókratanna í þeim bæjarstjórnum!

Með þeirri hjásetu voru þessir "sjálfstæðismenn" að óhlýðnast skýrum vilja landsfundar síns (æðsta valds í málefnum flokksins), og vekur það umhugsun um, hvað þeim hafi gengið til. Gerðu þeir þetta af ótta við formann flokksins, Bjarna Benediktsson, sem gengið hefur á undan með slæmu fordæmi gagnvart stefnumótun landsfundar í mestu málum?

Eða var þetta kannski af ótta við andstæðingana í bæjarstjórnum þessum? Slík afstaða væri vitaskuld engu síður heigulsleg.

Þriðji kosturinn væri þó sá versti: að þessir "sjálfstæðu" bæjarfulltrúar hafi þá þegar verið orðnir svo miklir styrkþegar* Evrópusambandsins, að þeir hafi ekki talið sig i góðri aðstöðu til að vinna beint gegn innlimunarstefnunni í bæjarstjórn.

Fróðlegt væri að fá skýringar þeirra sjálfra á því, hvað þeim hafi gengið til með þessari aumu hjásetu sinni.

* "Mútugjafir" kalla sumir þessar gjafaferðir reyndar.

Jón Valur Jensson, 21.3.2014 kl. 18:00

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

... mjög á óvart ...

Jón Valur Jensson, 21.3.2014 kl. 18:04

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég ætl að kanna þetta í Kópavogi.

Helga Kristjánsdóttir, 21.3.2014 kl. 23:45

4 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Jón Valur. Þarna ferð þú með svo miklar rangfærslur um hvað því fylgir að ganga í ESB að þú toppar bullið í fyrri skrifumn þínum og þá er nú mikið sagt.

 Ef við pössum upp á það að trggja að veiðiheimildirnar úr okkar fiskistofnum séu eign þjóðarinnar en ekki útgerðamanna þá geta þeir ekki selt neinar veiðiheimildir úr landi. Enda hefur engum útterðamönnum neins staðar innan ESB verið heimilt að gera það. 

 Það er beinlínis eitt af markmiðum sjávarútbegsstefnfu ESB að þær sjávarbggðir sem hafa haft lifibrauð sitt af fiskveiðum geti gert það áfram. Því hafa ríki ESB fjölmargar heimildir til að setja reglur sem gera kröfu til tengsla útgerða við þær sjávarbyggir til að fá veiðiheimildirr. Því munu íslensk stjórnvöld hafa fullan rétt samkvæmt ESB reglum til að hætta að úthluta veiðiheimildum til útgerða sem seldar hafa verið til erlendra aðila og landa megninu af afla sínum erlendis eða fylla áhöfnfina af erlendum sjómönnum.

Þessar reglur hafa aveg dugað til að tryggja sjávaergyggðum nýtingu aflans og því er þessi fullyrðing þín um að við missum þessa vinnu úr landdi svo mikið kjaftæði að þú gerir lítið úr sjálfum þér með svo dæmlausur rugli að halda þessu framþ

Þeir sem þurfa að bera jafn grófa lygi og þarna er á borð til að færa rök fyrir sínum málstað geta ekki haft góðan málstað að verja. Það er svo sannarlega svo í þessu tilfelli enda eru það hagsamunir lítilla sérhgsmunahópa að við stöndum utan við ESB en almenningur mun njóta góðs af því í bættum lífskjörum að við göngum í ESB. 

Sigurður M Grétarsson, 22.3.2014 kl. 15:51

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég var fyrst nú að sjá nýjasta innleggið hér, með blekkingarviðleitni gamla ESB-sinnans Sigurðar M. Grétarssonar. Fyrstu setningu sína þarna virðist hann líta á sem þægilega til endurnýtingar í stað þess að rökræða málin -- hefur sagt það sama áður!

SMG kemst ekki fram hjá þeim veruleika, að hér hafa útgerðarmenn heimild til að selja 1) útgerðir sínar, 2) einstök skip sín og meðfylgjandi aflaheimildir og 3) aflaheimildirnar einar sér.

Styrmir Gunnarsson minnti á þetta í þætti á Útvarpi Sögu, í viðtali hans og Ragnars Arnalds við Pétur Gunnlaugsson, nýlega. Pétur hváði þá og sagði: "En heldurðu að þeir myndu gera það?" (að selja aflaheimildir til ESB-útgerða). "Held ég?! Menn gera allt fyrir peninga!" sagði Styrmir.

Þrátt fyrir fullyrðingar SMG í 3. málsliðnum getur hann EKKI bent á, að Norðmenn hafi fengið neinar slíkar tilhliðranir fyrir sínar sjávarbyggðir við ESB-inntkuviðræður þeirra (síðast 1994).

Sjávarútgerð í strandbyggðum Króatíu skipti sjómenn þar mjög miklu máli, en þegar landið gekk í ESB árið 2013, var réttur þeirra fótum troðinn og fiskveiðilögsagan nánast opnuð upp á gátt (að 12 mílum), m.a. fyrir ítölskum skipum, sem stundað höfðu rányrkju í eigin lögsögu.

Og þetta var einmitt nýjasta ESB-ríkið, Króatía (með 6.000 km strandlengju í allt talið), en fjarri fór því, að hún hafi fengið góð býti hjá Brusseljörlunum fyrir sinn sjávarútveg, sjá hér: Króatar fá ENGAR undanþágur frá fiskveiðistefnu ESB sem gefur Ítölum o.fl. afnot af króatískri landhelgi upp að 12 mílum! Og athugið, að Króatía er með um 27 sinnum meiri fiskveiðar en Malta og 33 sinnum meiri en Slóvenía.

Jón Valur Jensson, 23.3.2014 kl. 02:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband