Fjandskapur ESB-ríkja við Ísland heldur áfram

Það fer fríverzlunarbandalagi og meðlimaríkjum þess illa að beita sér gegn frjálsri verzlun og flutningum. Gríman er fallin af Hollendingum og Þjóðverjum gagnvart Íslendingum um hvalamál. Löglegar veiðar okkar reyna þeir að bregða fæti fyrir með því að teppa flutninga með hvalkjöt til Japans. Þetta eru ekki meðmæli með Evrópska efnahagssvæðinu, né með ESB, ekki frekar en Icesave- og makríl-málin (sjá neðar).

  • Peter Altmeier, umhverfisráðherra Þýskalands, hefur sent yfirvöldum hafna við Norðursjó bréf þar sem hann mælist til þess að þau leyfi „sjálfviljug“ ekki flutning hvalkjöts.
  • „Þýskar hafnir ættu ekki að vera ákjósanlegur kostur til umskipunar hvalkjöts,“ sagði í bréfinu, sem Altmeier sendi á þriðjudag og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag. (Mbl.is.)

Ekki talar ráðherrann þarna í krafti löggjafar. Hitt er reyndar málið, að hann lætur í 1. lagi eins og stuðpúði einber vegna þrýstings græningjaliðs, og í 2. lagi er þetta vilji og stefna Evrópusambandsins sjálfs að leyfa ekki meðlimaríkjunum hvalveiðar, selveiðar né hákarlaveiðar. Við ættum ekki að fara í neinar grafgötur með það, en haga okkur eftir því með því að halda okkur fjarri þessu bandalagi stórveldanna og illa upplýstum embættismönnum þeirra og lýðkjörnum fulltrúum í ESB-þinginu.

En það er ekki nýtt, að við verðum fyrir óverðskulduðum kárínum af hálfu þessa Evrópusambands. Það hótar okkur og Færeyingum með gróflegum hætti í síldar- og makrílmálum. Það beitti sér frá upphafi gegn okkur í Icesave-málinu, með því að tilnefnda þrjá fulltrúa í gerðardóm haustið 2008 sem (þrátt fyrir – sem betur fer – viljandi fjarveru íslenzks fulltrúa) dæmdi okkur greiðsluskyld í því máli. Áfram beitti ESB sér gegn okkur með þrýstingi á stjórnvöld og á alþjóðavettvangi stofnana, og allt fram undir endalokin – EFTA-dómstóls-úrskurðinn glæsilega – beitti ESB sér með frekjulegum, ógnandi hætti gegn okkur, með því að gerast í 1. skipti í sögunni meðaðili að kæru tveggja meðlimaríkja, Bretlands og Hollands, gegn Lýðveldinu Íslandi. Málflutningur Samfylkingar-forystumanna og ESB-innlimunarsinna hér á landi hljómar því sem innantóm hræsni, þegar reynt er að uppteikna fyrir okkur Evrópusambandið sem útópíu framtíðarinnar og heillalausn fyrir okkur Íslendinga. Því fer víðs fjarri, og ekki yrðum við frekar en önnur "smáríki" innanborðs látin njóta þar sannmælis, hvað þá að ráða eigin ráðum.

  • Haft var eftir Iris Menn, sérfræðingi samtakanna í málefnum hafsins, á vefsíðu blaðsins Die Welt að bréf ráðherrans væri fyrsta skrefið, en hygðist hann axla ábyrgðina til fulls þyrfti hann að beita sér fyrir því að flutningur hvalkjöts um þýskar hafnir yrði bannaður með lögum ... (Mbl.is.)

Já, alvaran er grá í viðskiptum við slíka aðila, hvort sem um makríl, Icesave eða hvali er að ræða. Bandamenn Evrópusambandsins hér á landi mættu fara að skoða sig í spegli þessara staðreynda.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Tilmæli umhverfisráðherra gegn flutningi hvalkjöts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Ísland er einangrað á heimsvísu í þessu máli. Hefur ekkert með ESB að gera.

Jón Ingi Cæsarsson, 12.7.2013 kl. 12:02

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef Evrópa er okkur jafn andsnúin og umræðan snýst að mestu um, en Bandaríkin hins vegar svo miklu betri gagnvart okkur, af hverju leitum við þá ekki í vesturveg til samvinnu við Bandaríkjamenn til að fá það flutt til Japans?

Ómar Ragnarsson, 12.7.2013 kl. 14:25

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Gott hjá þér, Ómar, að benda mönnum þessa leið. Eins gætum við reynt að senda þetta í gegnum Kanada og erum nú þegar í viðskiptabandalagi við það land í gegnum EFTA.

Ísland er ekkert einangrað, Jón Ingi Samfylkingarmaður, og við höfum alveg heimild til hvalveiða í atvinnuskyni, enda eru veiðistofnar okkar alls ekki í neinni útrýmingarhættu.

Svo er það rangt hjá þér, að hvalveiðimálið hafi "ekkert með ESB að gera," þar talarðu gegn betri vitund, hygg ég, því að varla ertu svo óupplýstur að vita ekki, að Evrópusambandið vill banna hvalveiðar eins og fleira, þ. á m. örugga, ameríska barnabílstóla og fjölnota-ólífuolíuflöskur!

Jón Valur Jensson, 12.7.2013 kl. 18:11

4 Smámynd: Rafn Guðmundsson

jú - þetta er rétt hjá jóni i c. hvalveiðar í dag er tapað mál hver sem ástæðan er

Rafn Guðmundsson, 13.7.2013 kl. 00:04

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Við tökum þig nú, Rafn minn, ekki á órökstuddu orðinu um það.

Sjálfur virðistu lítt gera þér grein fyrir orsakasamhenginu hér.

Jón Valur Jensson, 13.7.2013 kl. 12:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband