Kippt fótum undan alhæfingum um ofurhátt verðlag matvæla hér á landi - og varað við áróðri þeirra sem vilja fórna íslenzkri matvælaframleiðslu

Ragnhildur Þóra Káradóttir, lektor í taugavísindum við háskólann í Cambridge, á athyglisverða grein í Mogganum í dag og ritar þar í upphafi: 

  • "Búandi erlendis er stundum skrítið að hlusta á þjóðfélagsumræðuna á Íslandi þegar maður kemur heim. Laugardaginn fyrir páska var mér brugðið að heyra í fréttum viðtal við formann Samtaka verslunar og þjónustu um að það sé betra að fella niður innflutningsgjöld til að lækka skuldir heimilanna heldur en að ganga að rót vandans, sem er í fjármálakerfinu sjálfu. 

Og hún spyr: "Er það staðreynd að matarverð sé svona miklu hærra á Íslandi en erlendis? Hverjar eru sannanirnar fyrir því?"

 

Ragnhildur tók það upp hjá sjálfri sér að bera saman innkaup á páskamáltíð í þremur löndum, á Íslandi, Bretlandi og Ítalíu, og bar einnig saman verð á "klassískum íslenzkum hversdagsmat," soðinni ýsu og kartöflum, en margir hafa haft hér á orði, að ýsan sé orðin hér ótrúlega dýr. Skemmst er frá því að segja, að sá ljúffengi hversdagsréttur reyndist 48% dýrari í Bretlandi en á Íslandi!

 

Páskamaturinn, humarsúpa, lambalundir og panna cotta-eftirréttur, kostaði hins vegar 15.046 kr. á Íslandi, á Englandi 23.865 kr. og á Ítalíu 19.354 kr.* Sama máltíð er þannig 59% dýrari í Englandi en hér (en ef humarsúpunni er sleppt, er hann 24% dýrari þar ytra).

    

Ekki er þetta nú í takt við linnulítinn málflutning ýmissa Evrópusambands-áróðursmanna, m.a. forystufólks í Samtökum verslunar og þjónustu (Margrétar Kristmannsdóttur og nú upp á síðkastið Andrésar Magnússonar**), sem mála skrattann á vegginn í sífri sínu yfir matvælaverði á Íslandi, en tilgangur þeirra virðist að hjálpa heildsölum og innflytjendum að eignast stærri skerf í markaðnum.

 

Ragnhildur Þóra spyr um "langtímaafleiðingar þess að fella niður innflutningsgjöld" og lízt ekki á blikuna, þetta hafi trúlega þær afleiðingar, að landbúnaður Íslands leggist af. Hún lýkur máli sínu með þessum hætti:

 

Ég bið Íslendinga að hugsa sig vel um og varast áróður þeirra sem vilja fórna íslenskri matvælaframleiðslu. Eins og ítalskt máltæki segir: Ef staðreyndarugl er endurtekið í sífellu verður það álitið sannleikur. Lítum á rökin og staðreyndir sem liggja að baki áður en við tökum afstöðu og gerum breytingar sem geta haft skaðlegar afleiðingar. Við höfum gnótt af hreinu vatni, við framleiðum nóg af ódýrri orku og mat til sjá fyrir öllum landsmönnum; sem er einstæður lúxus í þessum heimi. Verum stolt af þessari sterku sérstöðu okkar og metum hana fyrir það sem hún er. Seljum ekki matvælaöryggið frá okkur, verðum ekki þrælar erlendra markaðsafla, höldum sjálfstæði okkar.

 

Það er góð tilbreyting að sjá svona skýra hugsun í þessum málum, Ragnhildur Káradóttir áttar sig alveg á því, hvað hér geti verið í húfi, og sjálf ber grein hennar að gefnu tilefni yfirskriftina Er sjálfstæði Íslands til sölu? (smellið á þetta til að sjá greinina alla með mynd af höfundi, en þetta er einnig á bls. 35 í Mbl. í dag).
 
Ragnhildur birtir neðanmáls upplýsingar um útreikningana og um innkaupastaði (á Íslandi var það Nóatúnsverzlunin, sem margir vita, að er hér hvorki dýrust né ódýrust til innkaupa).
 
** Hér á JVJ einnig grein með gagnrýni á áhlaup Andrésar Magnússonar, frkvstj. SVÞ, á kjúklinga- og svínarækt í landinu: Skammsýni SVÞ-manna: vilja gefa öðrum störf okkar.
 
Jón Valur Jensson.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rafn Guðmundsson

ertu með nákvæmari upplýsingar um þetta.

Rafn Guðmundsson, 6.4.2013 kl. 17:39

2 Smámynd: Rafn Guðmundsson

eitthvað svona til að geta skoðað þennan samanburð

http://www.tesco.com/groceries/product/search/default.aspx?searchBox=haddock&sc_cmp=tescohp_sws-1_haddock&Nao=20

http://www.tesco.com/groceries/Product/Search/Default.aspx?searchBox=potatos&newSort=true&search.x=-996&search.y=-63&search=Search

Rafn Guðmundsson, 6.4.2013 kl. 17:46

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kemstu ekki inn í greinina sjálfa?

Jón Valur Jensson, 6.4.2013 kl. 18:55

4 Smámynd: Rafn Guðmundsson

nei - ekki með mbl í áskrift

Rafn Guðmundsson, 6.4.2013 kl. 19:25

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kauptu þér blaðið! Sunnudagsmogginn fylgir með -- beztu helgarblöðin.

Jón Valur Jensson, 6.4.2013 kl. 21:30

6 Smámynd: Rafn Guðmundsson

jvj - ef það eru einhver gögn þarna þá eru þarna líka linkar eða svo myndi ég halda. þú getur 'copy/past' úr pdf hingað inn. ef engir linkar eru þarna þá trúi ég þessu ekki.

Rafn Guðmundsson, 6.4.2013 kl. 22:13

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Jón, ég ætla svo sannarlega að kaupa moggan til að lesa þessa grein.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.4.2013 kl. 22:34

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég hef ekki leyfi (höfundar eða blaðsins) til að cópera alla greinina hingað, Rafn.

Jón Valur Jensson, 6.4.2013 kl. 22:40

9 Smámynd: Rafn Guðmundsson

ég kíki á þetta á mánudag

Rafn Guðmundsson, 6.4.2013 kl. 23:01

10 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Það lýsir barnalegri skammsýni og opinskárri sérhagsmunagæslu umræddra fulltrúa verslunarsamtakanna (sjálfsagt eðli málsins samkvæmt, þeirra vinna) að vilja heilu atvinnugreinarnar í íslenskri matvælaframleiðslu feigar. Þau segja "nei, nei", en í raun og veru eru þau á höttunum eftir meiri innflutningsverslun á þessum vörum í þeirri von að ná stærri bita af kökunni með því, bæði heildsölu- og smásöluálagningu - og kæra sig kollótt um hvort innlendar framleiðslugreinar þurfi að taka á sig skell fyrir vikið. Maður gæti haldið að þau væru svæsnustu kratar, eins og þau vaða elginn.
Mun stærri hluti neyslu landsmanna er í öðrum vöru- og þjónustuflokkum en matvöru. Í sérvöru er álagning margföld á við það sem er í matvöru. Hvernig væri fyrir talsmenn verslunarinnar að huga að þeim álagningarmálum til að byrja með ef þeim er svona umhugað um hag landsmanna? Þá væri von til þess að fólk keypti vörurnar fremur hérlendis heldur en að hlaða þeim á sig í utanlandsferðum sínum.

Kristinn Snævar Jónsson, 7.4.2013 kl. 01:46

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég er innilega sammála þér, Kristinn Snævar, og þetta er mjög góð viðbót hjá þér um aðra vöru- og þjónustuflokka en matvörur og afstöðuna til hárrar álagningar þar.

Jón Valur Jensson, 7.4.2013 kl. 02:18

12 Smámynd: Guðmundur Böðvarsson

Síbyljan dynur um lága vexti í nágrannalöndunum, en frétt RÚV um að húsnæðislánavextir í Danmörku hafi hækkað í 7% í marz, liggur óbætt hjá garði...

Guðmundur Böðvarsson, 7.4.2013 kl. 11:03

13 Smámynd: Reputo

Ef satt reynist að vörukarfan sé ódýrari á Íslandi, sem ég dreg stórlega í efa, að þá sé ég ekki ástæðuna til að banna innflutning þar sem íslenska varan er svona samkeppnisfær. Þessar tölur sem birtar eru í færslunni eru ekki í takt við það sem kemur fram hérna:

http://www.numbeo.com/cost-of-living/rankings_by_country.jsp

og ekki má gleyma því heldur að laun á Íslandi eru um helmingi lægri en í nágranna löndum okkar.

Menn tala um sérhagsmunagæslu o.þ.h. en það gleymist alltaf að líta á neytendur sem hagsmunahóp. Stórir hagsmunagæsluhópar s.s. útgerðarmenn og bændur hafa hátt launaða lobbýista við að ota sínum tota við öll tækifæri á meðan neytendur, sem eru lang lang stærsti hagsmunahópurinn eru nánast með fólk í sjálfboðavinnu við að verja hag okkar. Mér finnst það alltaf skrítið þegar fólk slæst í lið með sérhagsmunahópum í stað hins almenna neytanda.

Reputo, 7.4.2013 kl. 11:12

14 Smámynd: Reputo

Guðmundur, fyrir nokkrum mánuðum síðan var ég að skoða auglýsingu frá dönskum banka þar sem boðið var upp á 3,5% fasta óverðtryggða vexti út lánstímann. Danska kerfið er þannig upp byggt að þar er áhættunni dreyft. Lánastofnanir mega að hámarki rukka 6% vexti á húsnæðislánum og ef það er þörf fyrir hærri vext út af t.d. verðbólgu að þá taka bankarnir það á sig. Þetta gerir það að verkum að hagsmunir banka og almennings fara saman þ.e. að halda verðbólgunni niðri. Hérna græða banka óheyrilega á mikilli verðbólgu og hafa engann hag í því að halda henni niðri, og þar sem bankar er einhverjir mestu fjármagnseigendur í landinu hafa þeir bara töluvert um þetta að segja.

Reputo, 7.4.2013 kl. 11:17

15 Smámynd: Guðlaugur Hermannsson

Þetta var furðuleg samsettning á verðkönnun. Í það fyrsta þá eru launin helmingi hærri en hér á landi. Í öðru lagi þá er ekki allir sem eru að versla í matinn luxus fæði sem er dýrast í þessum löndum. Gat hún ekki lagst svo lágt að fara og versla almenna innkaupakörfu sem almenningur verslar dags daglega?

Guðlaugur Hermannsson, 7.4.2013 kl. 11:49

16 Smámynd: Sæmundur G. Halldórsson

Hvernig á þetta að vera svar við framtaki Samtaka Verslunarinnar? Þar var talað um kjúklinga- og svínakjöt. En frúin velur dýrasta lúxusfæði sem hún getur fundið. Humar og lamb er dýrasti matur sem þú finnur úti í Evrópu.

Þrátt fyrir allt er þó enn hægt að fá bæði fiskmeti og lamb á skaplegu verði hérna. En neytendur eru búnir að margborga fyrir lambið áður en þeir draga fram veskið í búðinni - með niðurgreiðslum til landbúnaðarins, með ofurtollum, einokun og innflutningshöftum.

Auk þess hafa íslenskir neytendur ekkert úrval í hænsnakjöti. Lífrænt hænsnakjöt er ekki til hérna, aðeins verksmiðjuframleiðsla. Framboð á svínakjöti sömuleiðis fábreytt og ekki sambærilegt við erlenda gæðavöru. Slíkt á enga tollamúra og vernd gegn samkeppni skilið.

Sæmundur G. Halldórsson , 7.4.2013 kl. 13:51

17 Smámynd: Rafn Guðmundsson

uff - kannski fer þetta að breytast. kúabændur eru að kalla eftir breytingum

http://www.ruv.is/frett/ottast-um-islenska-ostaframleidslu

Rafn Guðmundsson, 7.4.2013 kl. 16:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband