Þrumugóður fundur sjálfstæðismanna gegn Acer-orkumálapakka ESB

Um 90-100 manns munu hafa sótt fundinn í Valhöll kl.17.30 til um kl. 20 í kvöld. Tillaga til fundar­álykt­un­ar var sam­þykkt sam­hljóða, mót­atkvæða­laust. Miklar umræður voru eftir erindi framsögu­manna, sem voru Styrmir Gunn­arsson, fyrrv. ritstjóri, dr. Stefán Már Stef­áns­son, prófessor í Evrópu­rétti við HÍ, Bjarni Jónsson rafmagns­verk­fræð­ingur og Elías B. Elíasson verkfræðingur, sem starfað hefur áratugum saman hjá Landsvirkjun. Fundarstjóri var Jón Magnússon hrl., fyrrv. varaþingmaður, og fór það vel úr hendi.

Vafi hafði leikið á afstöðu forystu Sjálfstæðis­flokksins til ACER-málsins, en einungis einn ráðherra hans, varaformaður flokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfa­dóttir iðnaðar- og ferða­mála­ráðherra, mun hafa sótt fundinn, auk a.m.k. eins þingmanns, Birgis Ármanns­sonar. Hvorugt þeirra tók til máls á fundinum. Meðal annarra fundarmanna, sem sátu allan fundinn, var Davíð Oddsson, fyrrv. forsætisráðherra, nú ritstjóri Morgunblaðsins.

Þetta er fundar­ályktun þessa sögulega fundar í Valhöll:

Fund­ur­inn skor­ar ein­dregið á for­ystu Sjálf­stæðis­flokks­ins að hafna þriðja orkupakka Evr­ópu­sam­bands­ins á þeim grunni að hann stang­ast á við ákvæði stjórn­ar­skrár­inn­ar, opn­ar Evr­ópu­sam­band­inu leið til yf­ir­ráða yfir einni helstu auðlind Íslands og hækk­ar verð á raf­orku og af­leiðing­ar til langs tíma eru óviss­ar.

Allur fundurinn var tekinn upp á mynd­band og verður væntan­lega aðgengi­legur hvað úr hverju.

Jón Valur Jensson.


Bloggfærslur 30. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband