Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

ESB á von á "vondum fréttum" frá Íslandi

Austurríska ESB-þingmanninum Angeliku Werthmann er ljóst að lítill stuðningur er meðal almennings á Íslandi við að ganga í Evrópusambandið og hefur áhyggjur af því hvernig beri að haga samskiptum Íslands og ESB í framtíðinni, "ef Íslendingar hafna inngöngu í sambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ef tekin verður ákvörðun af hálfu nýrrar ríkisstjórnar landsins um að hætta alfarið aðildarviðræðunum," og hefur lagt fram fyrirspurn þessa efnis til framkvæmdastjórnar ESB. Svar hefur dregizt við fyrirspurninni, en framkvæmdastjórnin getur gefið sér allt að einn og hálfan mánuð til að svara slíkum fyrirspurnum.

Brusselmenn ættu að búa sig undir "vondar fréttir" frá Íslandi, því að flokkarnir tveir, sem eru að bræða saman ríkisstjórn og ganga frá stjórnarsáttmála annað kvöld, hafa þegar skuldbundið sig til að slíta viðræðunum um Össurarumsóknina sem samþykkt var með svo naumum meirhluta á Alþingi 2009. Þar með verður í raun engin breyting á viðskiptasamningum okkar né tollamálum.

JVJ. 


mbl.is Spyr um breytta stöðu á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland bezt komið með viðskipti við allar þjóðir, þarfnast ekki innilokunar í ESB

Fráleitt er, að mati Önnu Sonny, að eyríkið Ísland myndi einangrast við að slíta inntökuviðræðum við Evrópusambandið. "Það er aðili að EES og EFTA og varð nýverið fyrsta Evrópuríkið til þess að undirrita fríverslunarsamning við Kína,“ eins og þessi starfandi verkefnastjóri Evrópumála hjá brezku hugveitunni Civitas bendir á í pistli á heimasíðu hugveitunnar. Sjálft er EFTA (Fríverzlunarsamband Evrópu) með hagstæða fríverzlunar- eða tollasamninga við fjöldamörg ríki heims, m.a. Kanada.

Ennfremur vekur þessi verkefnastjóri á því athygli, að Ísland hafi "sýnt fram á að það er mögulegt að velja hvort tveggja,“ þ.e. viðskipti við Evrópusambandið, án þess að ganga í það, og við önnur lönd heims.

Það má einnig gera því skóna hér, að viðskiptasamningurinn við Kína, samhliða EES-viðskiptum okkar, geti orðið leið fyrir Kína til að koma vörum sínum nær tollfrjálsum á ESB-markað, þ.e.a.s. með viðkomu hér, þar sem síðasta fullvinnslustigið ætti sér stað, t.d. að setja reimar og innlegg í skó, sem annars kæmu að mestu leyti tilbúnir frá Kína. Sama gæti átt við um margar aðrar vörur, tízkufatnað, tæknivörur, vélar, tölvur o.fl. Við yrðum hins vegar að áskilja sjálfum okkur rétt til að stýra vinnuafli (innlendu sem erlendu, þó fremur innlendu) til þeirra vinnustaða sem annast myndu síðasta fullvinnslustigið á slíkum vörum.

PS. Í skoðanakönnun á vef Útvarps Sögu, þeirri síðustu sem birt var fyrir hvítasunnu, var spurt: "Á næsta ríkisstjórn að slíta eða halda áfram viðræðum við ESB?" -- 317 svöruðu, þar af sögðu 23,15%: "Halda viðræðum áfram," en 76,85% sögðu: "Slíta viðræðum". Kannanir á þessum vef ÚS eru vitaskuld ekki marktækar um þjóðarvilja (sbr. að 19 sinnum fleiri (57%) sögðust þar styðja Flokk heimilanna heldur en sú prósenta sem kaus hann í reynd (3%)). Engu að síður gefur þessi skoðanakönnun vilja ÚS-áhangenda nokkuð skýrt til kynna.

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Mögulegt að velja hvort tveggja“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það eru engar líkur á því, að vit sé í að semja við ESB um makrílveiðar næstu árin

Steingrímur J. Sigfússon er kominn í samningabuxurnar um makrílmálið, hvetur Evrópusambandið til samninga um málið, bendir því að vísu á ákveðnar grunnstaðreyndir, sem Brusselmenn loka augum fyrir, enda þrýst á þá af Skotum og Írum, og þá er nú málefnaleikinn fokinn út í veður og vind í þessari næstmestu þrýstihópaborg veraldar; það verður ofan á, sem hæst er hrópað af þeim, sem stærstan hafa túlann og hreykja sér hæst. 

Steingrímur bendir á, að ESB ætli Íslendingum Færeyingum og Rússum að veiða svo lítið sem 10% af áætluðum veiðum, þótt hann dvelji hér 30% af líftíma sínum. Og vitaskuld étur hann upp gríðarlegt magn af átu, og það kemur niður á öðrum nytjategunum hér, jafnvel blessaðri hrefnunni í Faxaflóa.

Þvílíkur hefur hrokinn verið í Brussel í þessum málum, að ekkert hefur tekizt að semja um við þetta stórveldabandalag árum saman í makríldeilunni. 

Við eigum sjálf okkar 200 mílna fiskveiðilögsögu og ætlum ekki að afsala okkur einni einustu fermílu af rétti okkar, hvað þá mörgum tugum þúsunda tonna af fiski -- ekki einu einasta tonni sem við eigum tilkall til -- með einhverjum hrossakaupasamningi með blessun Steingríms J. Sigfússonar. Eða er útgangandi allsherjarráðherrann kannski með jókerinn í bakhendinni -- sjálfan Svavar Gestsson, sem frambærilegan "aðalsamningamann" Íslands?

Sporin hræða, og kominn er tími til fyrir Steingrím að slaka á klónni. Hans hvatningar er ekki þörf hér, okkur nægir andi þorskastríðanna, þegar við stóðum saman öflug og einörð og lutum ekki í gras fyrir mesta heimsveldinu og vígdrekum þess. Ætlast Steingrímur til, að við hræðumst hótanir þessa hlálega þrýstipúða, pappírstígrisdýrsins í Brussel? 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Hvetur ESB til samninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framkvæmdastjórn ESB kastar grímunni með beinum hótunum við smæstu eyþjóð N-Atlantshafs

Þar kom að því að voldug framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti að leggja til refsiaðgerðir gegn Færeyingum vegna síldveiðiáætlunar þeirra. Með hótunum um valdbeitingu sýnir stórveldi smáríki krepptan hnefann, og það hlakkar í áhrifamönnum þar, að þessi aðgerð verði til þess að hræða bæði Færeyinga og Íslendinga til uppgjafar í makríldeilunni, en ef ekki, þá skuli viðskiptabanni skellt á þessar þjóðir vegna makrílveiða þeirra í sinni eigin fiskveiðilögsögu!

  • ... Haft er eftir Ian Gatt, framkvæmdastóra Samtaka skoskra uppsjávarsjómanna, í samtali við breska ríkisútvarpið BBC í dag, að ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins væri fyrsta skrefið í þá átt að refsa Færeyingum vegna síldveiða þeirra. Hins vegar ættu þær refsiaðgerðir einnig að ná til makríls enda væru tegundirnar tvær gjarnan veiddar samhliða.
  • Líkt og Lochhead [sjávarútvegsráðherra Skotlands] lýsti Gatt vonbrigðum sínum með að enginn frekari árangur hefði orðið í því að beita Íslendinga og Færeyinga refsiaðgerðum vegna makrílveiða þeirra. „Í tilfelli Íslands hvetjum við framkvæmdastjórnina til þess að óska eftir tafarlausum fundi með nýrri ríkisstjórn Íslands og reyna að koma viðræðuferlinu aftur af stað,“ sagði hann. Tækist það hins vegar ekki yrði að grípa til refsiaðgerða án tafar enda hefðu allar aðrar leiðir verið reyndar án árangurs. ... [Mbl.is, mun meira þar, sjá tengil neðar!]

Nú ríður á, að næsta ríkisstjórn okkar hafi bein í nefinu og láti ekki kúga sig til eins eða neins. Slíkt yrði seint eða aldrei fyrirgefið.

250084_10152309591040260_1300656966_n_2

Sjá einnig nýlega grein hér: ESB vanvirðir rétt Færeyinga rétt eins og Íslendinga. Þar á Tryggvi Helgason, flugmaður á Akureyri, gott innlegg, minnir á þakkarskuld okkar Íslendinga við Færeyinga og brýnir okkur til samstöðu með þessari góðu frændþjóð sem lifir ekki síður en við af gjöfum hafsins. Látum þá ekki standa uppi stuðningslausa, og nýtum viðskiptasambönd okkar til að rjúfa ofstopafullt viðskiptabann Evrópusambandsins, um leið og þess fer að gæta.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is ESB hyggst refsa Færeyingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formönnunum tveimur var treyst til þessa ...

Eygló Harðardóttir alþm. treystir bæði formanni sínum Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Bjarna Benediktssyni í stjórnarmyndunarviðræðunum.

En geta fullveldissinnaðir Íslendingar treyst þessum flokksformönnum til að fara eftir landsfundum eigin flokka í Evrópusambandsmálinu og slíta viðræðunum strax við myndun nýrrar ríkisstjórnar? Þeirra eigin flokksmenn eiga heimtingu á því, sem og sá meirihluti þjóðarinnar sem veitti þeim umboð til að stjórna lýðveldinu.

Sé þessari fráleitu Össurarumsókn vöðlað saman og varpað í ruslafötuna, þar sem hún á heima, verður þá ekki þeim mun léttara verk að láta loka Evrópusambandsstofunum tveimur á Akureyri og við Suðurgötu í Reykjavík?

Jón Valur Jensson.


mbl.is Segir tímabært að treysta Bjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB vanvirðir rétt Færeyinga rétt eins og Íslendinga

Evrópusambandinu nægir ekki að sýna eyðþjóðum í N-Atlantshafi yfirgang í makrílveiðimálum, heldur gildir það sama gagnvart Færeyingum um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum. Ólögmætt virðist framferði Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, og hefur mótmælabréf þess efnis verið sent til hennar.

  • "Fram kemur á vefsíðu [sjávarútvegs]ráðuneytisins [færeyska] að Damanaki hafi haldið því fram að Færeyingar hafi yfirgefið samningafund þar sem til stóð að semja um veiðarnar „eða yfirgefið samningaborðið“ eins og hún hafi orðað það. Ráðuneytið segir að fulltrúar Færeyinga hafi alls ekki yfirgefið samningaborðið heldur hafi fulltrúar Evrópusambandsins og annarra aðila viðræðnanna í raun útilokað Færeyinga frá þeim með því að yfirgefa fundinn og halda viðræðunum áfram annars staðar án þeirra.
  • Fram kemur á vefsíðunni að slíkt framferði gangi gegn alþjóðalögum og er Evrópusambandið að lokum hvatt til þess að viðurkenna mikilvægi sanngjarnrar stýringar á veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum." (Mbl.is.)

Íslendingar ættu að veita sérhverju slíku hrokatilfelli Brusselbossa sérstaka athygli og láta sér að kenningu verða. Stórveldin í Evrópu hafa sjaldan eða aldrei sett hagsmuni smáþjóða þar ofar sínum eigin. Svo mun ekki verða, ef ein slík bætist þar við og fær 0,06% atkvæðavægi í hinu volduga ráðherraráði í Brussel, sem fer m.a. með æðsta löggjafarvald í sjávarútvegsmálum. Smáþjóðin, sem hér um ræðir, er raunar ekki Færeyingar, heldur Íslendingar!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Voru útilokaðir frá frekari viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margstaðfest staðreynd: Engar varanlegar undanþágur eru veittar frá lögum ESB!

Guðmundur 2. Gunnarsson ritaði á þessari vefslóð:

„Það er ekki hægt að fá neinar varanlegar undanþágur frá lögum ESB,“ sagði Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, á blaðamannafundi í Brussel þegar spurt var út í sjávarútvegsstefnu sambandsins, og Össur gerði sig að fífli með að svara efnislega að það væri ekkert mál að semja um varanlegar undanþágur.

Eftir að Össur hafði svarað spurningunni bætti Füle við:  “Að í sambandi við þessi mál yrði að hafa í huga að ESB veitti ekki varanlegar undanþágur frá lögum sambandsins.”

Forsvarsmenn ESB hafa alla tíð verið ærlegir gagnvart Íslendingum um það að Ísland yrði með inngöngu í ESB að beygja sig undir sameiginlegar samþykktir ESB. Í Fréttablaðinu 8. nóvember síðastliðinn sagði Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, að það væru:  Engin fordæmi fyrir varanlegri undanþágu.” Emma Bonino, framkvæmdarstjóri sjávarútvegsmála ESB, í viðtali við Morgunblaðið 1995 þegar hún sagði að Ísland fengi ekki full yfirráð yfir fiskveiðilögsögu sinni heldur yrði eins og önnur aðildarlönd að gangast undir hina sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB. Orðrétt sagði hún: “Meginreglan er sú að sameiginleg stefna er öllum sameiginleg, hvort sem um er að ræða fiskveiðar eða landbúnað. Sami rammi gildir fyrr alla.”

Svo mörg voru þau orð. Séð í þessu ljósi þarf vart að undrast þegar rifjuð eru upp orð norska stjórnmálaforingjans Eriks Solheim sem sagði varðandi tvær árangurslausar inngöngutilraunir:  “Það er mjög lítill skilningur innan EB á sérstöðu Norðmanna. Fiskurinn er undirstaða búsetu eftir allri strandlengju Noregs. Þessu hefur EB ekki sýnt áhuga.”

Birt með leyfi höfundar, Guðm. Gunnarssnar.

9% Svía vilja evru!

Ef við tökum mark á frændþjóðum með reynslu af Evrópusambandinu, ættu viðhorf Svía sízt að freista okkar til að stefna hér að upptöku evru. Einungis 9% Svía vilja taka upp evruna. Ekki hafa Danir heldur gert það, og eru sumar þjóðir jafnvel farnar að tala um að hverfa af evrusvæðinu, eftir að annmarkar þessa gjaldmiðils fóru að koma æ skýrar fram, eftir að hann komst yfir fermingaraldur.

Páll Vilhjálmsson blaðamaður ritar:

  • Evran eyðileggur samstöðuna í Evrópusambandinu þar sem hún gerir kröfur um að öll efnahagskerfin 17 sem nota gjaldmiðilinn taki upp þýska fjármálastjórn. Og það einfaldlega gerist ekki.
  • Eina leiðin til að bjarga evru er að smíða utan um hana Stór-Evrópu þar sem sameiginlegt ríkisvald þvingar þjóðfélög undir sameiginlega efnahagsstefnu.

Þetta telur Páll ekki munu gerast, og óneitanlega geta viðhorf Svía bent til þess, að hann hafi rétt fyrir sér, en einungis 11% Svía vilja, að Evrópusambandið verði að einu sambandsríki, skv. þeirri sömu skoðanakönnun, sem hér sagði frá og unnin var í tengslum við rannsókn prófessors í stjórnmálafræði við Gautaborgarháskóla og birt í sænska ríkisútvarpinu Sveriges Radio (sjá tengil hér neðar).

En okkur ber einnig að minnast hins, að harla litlu ráða Svíar í Evrópusambandinu, hafa t.d. 10 atkvæði nú af 345 í ráðherraráðinu í Brussel skv. Nice-samningnum, þ.e. 2,9%, en missa um 36% af atkvæðavægi sínu við gildistöku Lissabon-sáttmálans í þessu efni hinn 1. nóvember 2014 og verða þá með einungis 1,85% atkvæðavægi.

Vilji ráðamanna í Brussel, París og Bonn er alveg ljós: meiri samlögun og stefna á sambandsríki, enda var sú jafnvel stefna ESB-þingsins strax fyrir aldamótin. Joschka Fischer, fyrrv. utanríkisráðherra Þýzkalands, tjáir vel þennan vilja ESB-ráðamanna í grein, sem birtist eftir hann í Mbl. í dag, þar sem hann segir m.a.:

  • "Það hefur lengi verið ljóst hvað þarf að gera. Verðmiðinn á því að myntbandalagið komist af, og þar með Evrópuverkefnið, er nánara samstarf: bankabandalag, fjármálabandalag og stjórnmálalegt bandalag. Þeir, sem eru þessu mótfallnir vegna þess að þeir óttast sameiginlega ábyrgð, tilfærslu fjármuna frá ríkum til fátækra og að missa fullveldið, munu þurfa að sætta sig við endurkomu þjóðríkisins í Evrópu ..." o.s.frv. 

Íslendingum er það hins vegar fullljóst, að þeir vilja halda sínu þjóðríki. Að munztra okkur á björgunarskip evrunnar gæti hins vegar orðið okkur skeinuhætt. Tilraunin er í reynd líkleg til að mistakast, enda gæti evran sjálf staðið stórveldisdraumum ráðamanna ESB* fyrir þrifum, og því fáum við líka þessi viðbrögð frá Þýzkalandi (með orðum Páls Vilhjálmssonar):

Fjármálaráðherra Þýskalands, þegar evran varð að mynt Evrópusambandsins, Oskar Lafontaine, afneitar afkvæminu og vill gjaldmiðilinn feigan áður en sambandið splundrast. 

* Sbr. stórveldisyfirlýsingar tveggja forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jacques Delors (1985-1995) og Barrosos (2004-2013-).

Jón Valur Jensson. 


mbl.is 9% Svía vilja taka upp evruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn S. Stefánsson: Næst förum við öðru vísi að

Jóhannes Snorrason (1917-2006), yfirflugstjóri, beitti sér mjög gegn aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, sem tekist var á um fyrir einum tveimur áratugum. Ég kynntist honum í þeirri baráttu. Hann sagði mér þá, af hverju hann væri knúinn í baráttunni. Það var þannig, að hann lærði að fljúga í Kanada í stríðinu, og fyrst eftir stríð flaug hann milli Kanada og Evrópu. Eitt sinn varð hann í vélinni áheyrandi að tali þýskra farþega, Þeir hafa væntanlega ekki gert ráð fyrir, að flugmaður á kanadískri vél skildi þýsku, eins og Jóhannes gerði eftir menntaskólanám á Akureyri. Þeir þóttust eiga dálítið undir sér, heyrðist honum. Stríðslokin voru rædd, og þeir sögðu: Næst förum við öðru vísi að. Jóhannes kvaðst líta á myndun Evrópska efnahagssvæðisins í þessu ljósi -- með því sæktu þjóðverjar fram -- og orð þeirra sóttu á hann.

Í vetur hitti ég í fyrsta sinn eftir tuttugu ár son Jóhannesar, Snorra bónda á Augastöðum í Hálsasveit og refaskyttu. Það var í Snorrastofu (Sturlusonar) í Reykholti. Hann flutti þar erindi um refinn. Á eftir ræddi ég við Snorra um sögu Jóhannesar af samtali þýsku farþeganna og hvers vegna hann hafði hana ekki með um árið í skrifum sínum. Mér hafði dottið í hug, að sem flugmaður hafi hann almennt verið bundinn trúnaði um það, sem hann yrði vitni að í starfi, þótt hann segði mér þetta að vísu. Snorri taldi, að trúnaðinum hlyti nú að vera aflétt.

Í Morgunblaðinu 11. f.m. er grein eftir Atla Harðarson, sem lýsir því, hvernig nú er farið að því að taka Ísland. Það var öðru vísi farið að fyrir stríð, þegar þjóðverjar voru hér undir ýmsu yfirskini. Síðar mátti átta sig betur á því. Grein Atla heitir Hvernig er hægt að komast í Evrópusambandið þótt flestir vilji vera fyrir utan það?

Morgunblaðinu, 1. maí 2013; endurbirt hér með leyfi höfundar, sem er dr. scient.


Hærri raunvextir hér en í nágrannaríkjum hafa ekkert með gjaldmiðil okkar að gera

Í upplýsandi grein  á Mbl.is í gær* kveður Már Wolfgang Mixa niður klisjutal á borð við að upptaka evru myndi galdralausn við að lækka fjármagnskostnað.

"Gaman væri ef lífið væri svo einfalt," segir hann. "Vandamálið á Íslandi er að raunvextir eru miklu hærri en í nágrannaríkjum og það hefur ekkert með gjaldmiðil okkar að gera. Hér hefur lánakerfið verið um árabil slakt og bankakerfið kostnaðarsamt í samanburði við önnur lönd. Í landi þar sem að gæði lánveitinga hafa verið jafn slakar og á Íslandi þarf stöðugt að afskrifa allt of stóran hluta útlána. Slíkur kostnaður er dekkaður með því að hækka raunvexti fyrir alla hina. Með of dýru bankakerfi þarf að leggja enn hærri vaxtakostnað á lán. Til að bæta gráu oná svart var allt gefið í botn síðastliðinn áratug varðandi lánshlutföll af húsnæði og gylliboðum af hálfu bankanna með alkunna endalokum. Krónur eða evrur skipta einfaldlega engu máli í þessum efnum; svo lengi sem gæði útlána á Íslandi eru slök þá verða raunvextir hérlendis háir, allt of háir."

  • "Samfylkingin fjallaði ... nánast ekkert um fjármál [í kosningabaráttunni]. Það var eiginlega aðeins eitt atriði; upptaka evru.
  • Þrátt fyrir að almenningur virtist hafa takmarkaðan áhuga á Evrópumálin í aðdraganda kosninga ákvað Samfylkingin að spila enn einu sinni evrutrompinu um að upptaka hennar myndi leiða til lægri fjármagnskostnaðar. Í (hræðilegri) auglýsingaherferð var meðal annars vitnað í að íslensk fjölskylda borgar heimili sitt að jafnaði tvisvar en evrópsk fjölskylda borgar sitt aðeins einu sinni. Ekki kom fram í auglýsingarherferðinni hvort verið væri að miða við raunvirði eða nafnvirði né hvort miðað væri við sambærileg lán hvað meðallengd varðar. Skilaboðin eru hins vegar augljós: Upptaka evru myndar einhverja galdralausn við að lækka fjármagnskostnað." (Framhaldið svo eins og hér ofar sést, en greinin er mun lengri.)
Hér afhjúpast billegar aðferðir Samfylkingar til að reyna að stöðva fylgishrun sitt. Lyginni um, að "íslenzk fjölskylda borgar heimili sitt að jafnaði tvisvar, en evrópsk (sic) aðeins einu sinni," var haldið að kjósendum hér, m.a. af svo ábúðarmiklum manni sem Magnúsi Orra Schram þingflokksformanni, sem mælir sýknt og heilagt með Evrópusambandinu, en ekki dugðu honum þessi ósannindi til að halda þingsæti sínu. Hann ætti í komandi fríi að hressa við hagfræðiþekkingu sína og sér í lagi reikningskunnáttuna.

 

* Hér er greinin opin öllum að lesa: Stefnu(fjár)mál íslenskra stjórnmálaflokka. Á þessum tengli er hins vegar hægt að hlusta á Má ræða þessi mál á Mbl Sjónvarpi.

Jón Valur Jensson.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband