Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Hingað og ekki lengra, Evrópusamband!

Stjórnvöld reyna nú að beita sér gegn ofveiði Rússa á karfa. Annar vandi er þó stærri.

  • Fyrir liggur að makríllinn kemur hingað á beit á hverju sumri og étur meira en milljón tonn út úr lífríkinu til að fita sig um fleiri hundruð þúsund tonn. Til þessara staðreynda vilja hvorki Norðmenn né Evrópusambandið taka tillit. Að þeirra mati eigum við ekkert tilkall til þess að veiða þennan fisk. Hlutverk okkar sé einungis að fita hann fyrir þá sjálfa. Þeir kalla veiðar okkar óábyrgar en á undanförnum áratugum hafa þessar þjóðir veitt þennan fisk í sameiningu langt umfram tillögur Alþjóðahafrannsóknaráðsins.

Þannig skrifar Hjörtur Gíslason, ritstjóri Útvegsblaðsins, í 5. tölublað þessa 13. árgangs þess (maí 2012), þ.e. í leiðaranum Hingað og ekki lengra. Þetta ritar hann í tilefni þess, að "makríldeilan stendur nú sem hæst, þegar styttist í að veiðar okkar á þessum verðmæta fiski eru að hefjast."

Já, nú stendur í raun sem hæst mjög alvarleg milliríkjadeila okkar við það sama Evrópusamband, sem eys hér á sama tíma af hundraða milljóna sjóðum sínum til "kynningar" og áróðurs til að fá Ísland inn í ríkjasambandið (engin furða, þegar efnahagslögsaga okkar er í raun rúmlega áttfalt stærri en landið eitt). Já, þessi óleysta deila og þessi áþján af hálfu ESB stendur enn yfir, þegar fulltrúar Evrópusambandsins eru farnir að birtast hér á fundum og í fjölmiðlum til að gylla fyrir okkur "kostina" við að "ganga í" stórveldið!

Við skulum ekki gleyma því, að eitt af því, sem ESB-sinnar hamra á sem "reglu" í ríkjasambandinu, er "hlutfallslegur stöðugleiki". En þar undanskilur Evrópusambandið svo sannarlega hvalveiðar, selveiðar og hákarlaveiðar, rétt eins og tófu- og svartfuglaveiðar! Það gefur engin "fyrirheit" um veiðar á neinu af þessu, a.m.k. ekki á sjávarspendýrunum.

Það er alfarið rangt að treysta og reiða sig á "regluna um hlutfallslegan stöðugleika", því að hún er í 1. lagi forgengileg, í 2. lagi forgengileg og í 3. lagi forgengileg -- fýkur út í buskann, þegar henni verður stórlega breytt eða skóflað út, eins og rætt hefur verið í Brussel, enda er hún í 1. lagi ekki partur af sáttmálum ESB, og í 2. lagi er hún í verulegu ósamræmi við grundvallarregluna sem gildir þar um jafnan aðgang allra ESB-þjóðanna að fiskveiðiauðlindum landanna.

En skoðum þó möguleikann á því, að "reglunni" yrði komið hér á við inntöku/innlimun Íslands í ESB, t.d. á næsta ári. Þá gætum við nánast gleymt makrílveiðum okkar, sem skiluðu okkur 24 milljörðum króna í þjóðarbúið árið 2011. "Reglan" sú arna byggir nefnilega veiðirétt á veiðireynslu. Þar fengi ESB einmitt tangarstað á okkur: gæti vísað til eigin veiðireynslu á liðnum árum gegn okkar litlu reynslu. Veiðireynslutímabilið geta þeir stillt af eftir eigin höfði (eða höfðum háværra þrýstilanda fremur en -hópa innan ESB), enda er það hvort sem er misjafnt eftir tegunum og svæðum. Þó að mestallur makríll færðist hingað, gæfi það okkur þá engan yfirburðarétt, hvað þá einkarétt, á að veiða hann, þ.e.a.s. ef við værum í ESB, heldur fengju Skotar, Írar og aðrir að ganga í hann hér í stórum stíl í takt við veiðireynslu sína á liðnum árum. Fiskveiðistjórnunin væri auk heldur ekki hjá Hafró -- nei, vinir, hún yrði í Brussel.

Eftir að hafa leikið okkur grátt í þessum efnum gæti svo ESB afnumið "regluna um hlutfallslegan stöðugleika" um 5 til 10 árum seinna, eins og tillögur voru um í grænbók þess sjálfs fyrir um fjórum árum, og þá gætu skip ESB-ríkja vaðið hér um alla landhelgina að ausa upp öllum fisktegundum milli 12 og 200 mílna (nema í tilfelli svæðalokana ... að fyrirlagi ESB!).

En meira af þessu makrílmáli hér í framhaldsgrein: "Stríðsaðgerð af hálfu ESB" (sagði hver?!).

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Athugasemdir við Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðfestingin komin!

  • Með því að fella tillögu Vigdísar Hauksdóttur um að spyrja þjóðina hvort halda ætti ferlinu áfram staðfesta þingmennirnir að ESB-umsóknin er ekki í umboði íslensku þjóðarinnar.

Frábærlega vel athugað. Margir afburðagóðir pistlar hafa birzt á Vinstrivaktinni gegn ESB, þar sem Ragnar Arnalds hefur einkum verið ötull við sín málefnalegu skrif. Lítið á þennan pistil: Haldreipi ESB-umsóknarinnar farið.

JVJ. 


ESB-flokkarnir á Alþingi eru þrír - og allir andvígir þjóðarvaldi yfir því hvort ráðamenn fái að halda áfram ESB-umsókn eða hún verði dregin til baka - Hræsni Þórs augljós

Tillaga Vigdísar Hauksdóttur um að þjóðin verði spurð í haust, hvort draga eigi til baka Evrópusambands-umsóknina, var felld í dag með 34 atkvæðum gegn 25; fjórir voru fjarverandi.

Ógæfa þessarar þjóðar eftir kosningarnar 2009 er sú að hún ræður engu um sín mestu málefni ... nema með víðtæku, tíma- og orkufreku átaki eins og birtist í undirskriftasöfnun InDefence-hópsins og seinna Samstöðu þjóðar gegn Icesave (kjósum.is) og í þjóðaratkvæðagreiðslunum tveimur um Icesave-málið.

ALLAN TÍMANN FRÁ UMSÓKNINNI HEFUR ÞJÓÐIN VERIÐ ANDVÍG ÞVÍ AÐ GANGA Í EVRÓPUSAMBANDIÐ, samkvæmt hverri einustu skoðanakönnun.*

Nú hefur stjórnarmeirihlutinn (sem nýtur um 31-33% stuðnings í nýjustu skoðanakönnunum), með fullum stuðningi Hreyfingarinnar, þrátt fyrir allt hjal hennar um þjóðaratkvæðagreiðslur, tekið algera afstöðu gegn því að fólkið í landinu fái að úrskurða um það, hvort áfram skuli haldið í umsóknarferlinu eða umsóknin dregin til baka.

Upphrópunin "Hræsni!" heyrðist í þingsalnum, þegar einn þingmaður var að gera grein fyrir atkvæði sínu. Sá var Þór Saari, leiðtogi Hreyfingarinnar. Ástæðan var augljós þeim, sem fylgzt hafa með umræðum á Alþingi. Þór Saari sagði þar í ræðustól, að ekki ætti að "blanda saman óskyldum málum" í þjóðaratkvæðagreiðslunni í haust (þ.e. stjórnarskrár-umturnunarmálinu annars vegar og ESB-umsókn vinstri flokkanna hins vegar). En sjálfur hafði þessi sami Þór barizt fyrir því, að tveimur óskyldum málum yrði slengt saman í júlímánuði: forsetakosningunni og stjórnarskrármálinu! Hræsni hans með ofangreindum orðum sínum er því augljós, en svona rakalausar eru samt hans forsendur fyrir því að hafna valdi almennings í þessu máli!

Það voru orð að sönnu hjá Einar K. Guðfinnssyni alþm., þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sinu, að tala um "ESB-flokkana á Alþingi" og tiltók þrjá flokka: Samfylkingu, Vinstri græna og Hreyfinguna.

Því má spá hér, að þetta verði uppreisnarefni í grasrót Vinstri grænna og upphafið að endalokum Hreyfingarinnar. Við þetta ber þó að bæta, að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, fyrrum þingflokksformaður VG, greiddi atkvæði með tillögu Vigdísar, og ennfemur Jón Bjarnason, fyrrv. ráðherra. Heiður sé þeim að standa með sannfæringu sinni og eigin kjósendum.

Eitt enn: Tveir þingmenn: Siv Friðleifsdóttir og Skúli Helgason, héldu því fram, að "forsendurbrestur [hefði] ekki orðið" í þessu máli, frá því að sótt var um ESB-inngöngu árið 2009, og réttlættu með því mótatkvæði sín gegn tillögu Vigdísar. Það var amalegt, að engir þingmenn tóku beinlínis á þessum fáfengilegu rökum þeirra. Hér eru nefnilega dæmi sem sýna jafnvel ýmsum ESB-hlynntum greinilega breyttar og brostnar forsendur fyrir umsókn:

  • Makrílstríð ESB gegn Íslandi, með hótunum um viðskiptabann!
  • Aðgerðir ESB gegn Íslandi í Icesave-málinu (sjá aðra grein hér í dag).
  • "Umræðuferlið" reyndist rangmæli; engar samningaviðræður fóru fram í tvö ár, en aðlögunarferli hófst og stendur enn yfir. Þarna virðist því hafa verið logið að þingi og þjóð strax í upphafi, en ekkert tillit tekið til þeirra, sem gagnrýnt hafa þetta -- þvert á móti var helzta gagnrýnandanum kastað út úr ríkisstjórninni, Jóni Bjarnasyni, og því fagnaði ESB-þingið í sérstakri ályktun!
  • Ekki var talað um það í upphafi, þegar Siv og Skúli kusu með ESB-umsókn, að Evrópusambandið fengi að eyða hér hundruðum milljóna króna í áróður, m.a. í formi rangnefndrar "Evrópustofu".** Þessi óeðilegu áhrif stórveldisins, sem stjórnarþingmenn sætta sig vel við, eru vitaskuld ógnun við lýðræðislegt vald og aðstöðu almennings til að að skoða málið í ljósi upplýsinga án tengsla við fjárhagslegt ofurvald.
  • Fulltrúar Evrópusambandsins hafa ítrekað hlutazt til um íslenzk málefni með ólöglegum hætti, "stækkunarstjórinn" Olli Rehn, sendiherrann Timo Summa og einnig sendiherra voldugasta ríkisins innan ESB: Þýzkalands.
  • Evrópusambandið sjálft hefur tekið miklum breytingum frá 2009, er nú enn síðri valkostur fyrir okkur, er sjálft í stórkostlegum efnahags- og skuldamála-vandræðum, umfram allt á evrusvæðinu, sem hafði verið helzta gulrótin fyrir ýmsa hér á landi: að "fá" evruna.
  • Jafnframt þessu er komin upp mjög sterk hreyfing meðal ráðamanna Evrópusambandsins og stærstu ríkjanna þar að efla miðstjórnarvald þess, gefa því meiri valdheimildir um sjálf fjárlög meðlimaríkjanna o.fl. fjárhagsmál, að taka af ríkjunum veigamikinn hlut af fullveldisrétti þeirra og auka samlögunarferlið.

Er það svo í alvöru, að Siv Friðleifsdóttir hafi verið fyrir fram sátt við alla þessa hluti, sem komið hafa á daginn? Er hún kannski reiðubúin að láta þjóð sína taka við enn meiri smánun, lítillækkun og yfirgangi af hálfu Brusselvaldsins?

* Í öllum 13 (10) skoðanakönnunum eftir umsóknina, frá 4.8. 2009 og áfram, þar sem spurt hefur verið, hvort menn vilji, að Ísland gangi í Esb., hefur svarið verið eindregið NEI! - NEI gegn JÁI hefur verið í þessum hlutföllum (óákveðnir ekki taldir með), í tímaröð frá 4. ágúst 2009 til 27. apríl 2012: 48,5%/34,7% --- 50,2/32,7 --- 61,5/38,5 --- 54/29 (könnun á vegum Hásk. í Bifröst) --- 55,9/33,3 --- 60,0/24,4 --- 69,4/30,5 --- 60/26 --- 50,5/31,4 --- 61,1/38,9 --- 55,7/30 --- 50,1/37,3 --- 64,5/35,5 --- 63/37 --- 67,4/32,6 --- 66/34.

** Evrópusambandið er aðeins 42,5% af Evrópu (43% með Króatíu). 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Tillaga Vigdísar felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mega þingmenn skrökva að þingi og þjóð? - og um ESB-tillögu Vigdísar Hauksdóttur

Baldur Þórhallsson, varaþingmaður Samfylkingar, hápólitískur prófessor, þó sí og æ álitsgjafi Rúv og 365 fjölmiðla, SKRÖKVAÐI á Alþingi í morgun að Íslandi hefði "alltaf gengið vel að semja við Evrópusambandið." Makrílmálið afsannar þá fullyrðingu hans gersamlega. Evrópusambandið hefur sýnt fádæma samningshörku gagnvart Íslendingum og ætlazt til þess, að við fáum (fyrst 3,1%, síðan:) einungis 4% hluta veiðinnar úr makrílstofninum í NA-Atlantshafi, þrátt fyrir að hann er hér við land 40% af líftíma sínum á seinni árum og étur hér tvær milljónir tonna af átu!

Baldri þykir greinilega henta að fara með fleipur fyrir sitt heittelskaða Evrópusamband, en það er opinber staðreynd, að um leið og hann fekk titilinn Jean Monnet-prófessor hjá Evrópusambandinu, voru stofnun hans veittar 7,5 milljónir króna í styrk frá því sama sambandi. Baldur er þannig tengdur því fjárhagsböndum. 

  • Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Framsóknarflokks, hvatti þingmenn til að kynna sér reglur ESB um stækkun sambandsins. Ísland ætti þess ekki kost að semja sig frá meginreglum ESB. (Mbl.is.)

Þetta er algerlega rétt hjá Gunnari Braga. Grunnreglur ESB gilda þar í öllum löndunum sem æðstu lög, æðri jafnvel en stjórnarskrár ríkjanna, þar sem í milli kann að bera. Jafnvel þótt hér yrði sett yrði inn í stjórnarskrá ákvæði um að sjávarauðlindir okkar væru ævarandi þjóðareign, þá hefðum við enga vörn í slíkri stjórnarskrárgrein gegn lögum Esb. sem fjalla m.a. um jafnan aðgang borgara allra ESB-ríkja að fiskimiðum landanna.

Nú fer fram á Alþingi (frá því fyrir kl. 11) umræða um stjórnarskrármálið og um tillögu Vigdísar Hauksdóttur alþm. um að þjóðin verði spurð í haust, hvort draga eigi til baka umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið. – Kl. 12.34 var tilkynnt, að tillaga hennar hafi verið felld með 34 atkvæðum gegn 25, en fjórir voru fjarverandi. Það voru orð að sönnu hjá Einar K. Guðfinnssyni alþm., þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sinu, að tala um "ESB-flokkana á Alþingi" og tiltók þrjá flokka: Samfylkingu, Vinstri græna og Hreyfinguna. Því má spá hér, að þetta verði uppreisnarefni í grasrót Vinstri grænna og upphafið að endalokum Hreyfingarinnar.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Alltaf gengið vel að semja við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Ögmundi hótað - eins og stjórnarþingmönnum í Icesave-máli?

Vigdís Hauksdóttir alþm. hefur lagt fram breytingartillögu þess efnis að samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs verði þjóðin spurð hvort stöðva eigi aðildarviðræður við Evrópusambandið. Ögmundur Jónasson hefur fyrir löngu séð, að umsóknarferlið er í allt öðru fari en um var talað í upphafi; hér er aðlögunarferli í fullum gangi og næsta tilætlunin sú, að hann að aðrir vinstrigrænir samþykki 5 milljarða IPA-aðlögunarstyrki þvert gegn skattalögum einstaklinga og fyrirtækja, þvert gegn tollalögum og þvert gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. (Já, það mál liggur fyrir þingi núna!).

Í 2. lagi hefur það ekki farið fram hjá honum fremur en öðrum, að ástandið í Evrópusambandinu hefur hríðversnað, síðan Össurarumsóknin var lögð fram fyrir 34 mánuðum: Skuldamál Suður-Evrópuríkjanna og margra annarra hafa valdið nýrri hættu á fjármálahruni, og evrusvæðið sérstaklega er orðið sannkallað skjálftasvæði og ekki fýsilegt að slægjast eftir evru sem gjaldmiðli.

Ögmundur Jónasson hefur sjálfur sagt orðrétt í fyrradag á Alþingi, "að aldrei, aldrei hefur það verið vitlausra en nú að ganga inn í Evrópusambandið." Það er því ekki að furða, að Vigdís Hauksdóttir segist undrandi á ummælum Ögmundar í Morgunblaðinu í dag, að hann ætli ekki að styðja tillögu hennar. Þó er víðtækur stuðningur við hana, m.a. ætla bæði Birkir Jón Jónsson og Eygló Harðardóttir, þingmenn Framsóknarflokksins, sem orðaðir hafa verið við Esb-áhuga, að styðja tillöguna, einnig Lilja Mósesdóttir, formaður Samstöðu (áður í VG), auk Ásmundar Einars Daðasonar, sem gekk úr VG í Framsóknarflokkinn, og í gær bættist Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG og fyrrverandi formaður þingflokksins, í hóp stuðningsmanna. Treysta má því, að Jón Bjarnason, fyrrv. ráðherra, geri það sama.

Hvað veldur þá hinni furðulegu afstöðu Ögmundar innanríkisráðherra? Liggur hann undir hótunum, ef hann tekur sjálfstæða afstöðu, í samræmi við vilja grasrótar eigin flokks, en gegn Esb-stefnu Jóhönnu og Steingríms J. Sigfússonar? Við vitum öll af slíkum hótunum í Icesave-málinu, m.a. gagnvart Liljunum, sem þá voru báðar í VG. Er nú verið að hóta Ögmundi missi ráðherrastólsins? Það er eina skýringin, sem undirriataður hefur á afstöðu hans nú og raunar sú eina, sem ég get tekið gilda, því að alveg er ljóst, að Ögmundur Jónasson er eina vörnin gegn ásælni kínverskrar fjárfestingarsamsteypu hér á landi.

En ófarsæl er sú landsstjórn, sem þarf að hanga saman á hótunum og ógnunum gagnvart jafnvel sínum eigin flokksmönnum. Það kann ekki góðri lukku að stýra, og þjóðin verður ekki blekkt endalaust, hversu fús sem Steingrímur J., hans hlýðni varaformaður (Katrín), hans sauðtryggi fylgismaður Björn Valur og 10 milljóna Esb-styrkþeginn Árni Þór Sigurðsson kunna að vera að ganga umsóknarslóðina á enda, með einungis 27,5% fylgi landsmanna við inngöngu í þetta valdfreka, en illa stadda Evrópusamband.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vonsvikin með orð Ögmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Látið er skína í æðsta vald þjóðar um stærstu mál, en þjóðin snuðuð um valdið!

Að þjóðin "fái" að svara 5 handvöldum spurningum Esb-sinna í ríkisstjórn og þingnefnd, en leyfa henni EKKI að hafna þar fullveldisframsalsákvæði í 111. grein stjórnarskrár-draga umboðsvana stjórnlagaráðs, jafngildir því EKKI að gefa þjóðinni æðsta vald um nýja stjórnarskrá, heldur virðist þetta form á málinu skollaleikur einber -- sýnd veiði, en ekki gefin um þjóðarvald í æðstu málum. Þar að auki er atvæðagreiðslan einungis sögð ráðgefandi.

Frumvarp, sem inniheldur ákvæði (í bland með hlálegum áróðurshljómi) frá Evrópusambands-sinnum í stjórnlagaráði um tiltölulega auðvelt og hraðvirkt fullveldisframsal, ætti að draga til baka og vanda betur alla vinnu að endurskoðun stjórnarskrár í framhaldinu.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Umræðu um þjóðaratkvæði frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég skammast mín fyrir að ég kaus evruna

“ESB-búrókratarnir vissu mætavel að evran mundi lenda í krísu en reiknað var með að allir myndu festast og kreppan við það breytast í lyftistöng sem gæti þvingað fram stofnun Bandaríkja Evrópu þrátt fyrir andstöðu fólksins,” skrifar Lars Bern, meðlimur í Konunglegu Verkfræðivísindaakademíunni um áramótin á vefsíðu Newsmill.se

 

 

Þeir eru margir Svíarnir sem algjörlega hefur snúist hugur eftir að raunverulegur tilgangur evrunnar og evrukrísunnar hefur afhjúpast og allar þær þjáningar sem einkum íbúar Suður-Evrópu þurfa að þola, vegna tilraunarinnar um Súperríki Evrópu.

 

Í dag eru næstum því 86% Svía andvígir því að taka upp evru. Einungis 11,4% vilja taka upp evru skv. skoðanakönnun SKOP um áramótin meðal 1000 Svía (sjá línurit).

 

 

afstadasvia 

 

“Við Evrópubúar höfum lengi dáðst að og öfundað framgang og styrkleika Bandaríkjamanna. Sú tilfinning hefur örugglega verið mikilvæg ástæða fyrir vexti Evrópusambandsins. Fyrir yfirstétt stjórnmálanna í Evrópu hefur markmiðið allan tímann verið að mynda Bandaríki Evrópu. Í ákafanum hefur manni yfirsést, hversu gjörólíkar forsendurnar hafa verið”, skrifar Lars.

 

“Líti menn á ríki Evrópu og beri saman við USA ættu allir að skilja, að verkefnið, sem við reyndum að fá í gang hérna megin, hafði miklu verri möguleika á að heppnast. Sjálfur hef ég lengi tilheyrt þeim, sem fönguðu drauminn á gagnrýnislausan hátt. Í öllum kosningum hef ég kosið það sem var jákvætt fyrir sænskan aðgang og sambandshugmyndina. Ég kaus meira að segja evruna, sem ég sé eftir í dag og skammast mín fyrir. Ég hefði mátt vita betur.

 

Núna skil ég, að draumurinn er hægt en örugglega að breytast í martröð. Við höfum skapað búrókratiskan risa á leirfótum, sem lifir sínu eigin lífi án nokkurrar lýðræðislegrar stjórnunar.”

 

“Það sem auðkennir stóran búrókratisma er stöðug ásækni þeirra eftir meiri viðurkenningu til að auka vald sitt. Fyrir ESB-búrókratanna hefur þetta þýtt, að þeir hafa leitað eftir ógn, sem hægt væri að nota til réttlæta meiri yfirbyggingu. Í byrjun, á meðan ESB var fríverslunarsamband, þá voru viðskiptamálin aðalatriðið.  En með aukinni valdagræðgi hefur verið ruðst inn á önnur svið eins og öryggismál, umhverfismál og innflytjendapólitík.”

 

Lengra í greininni skrifar Lars Bern:

 

“Hvernig gat fallegi draumurinn um sameinaða Evrópu mistekist svona herfilega? Það finnast sjálfsagt margar hlutaskýringar en ég held, að manneskjulegur veikleiki skipti hér miklu máli. Allt sjónarspilið með stórfundi ESB, ráðherraráðinu og hinu táknræna þingi hefur orðið að leikstofu yfirstéttar stjórnmálamanna í Evrópu. Það hefur í hæsta máta verið hvetjandi fyrir ráðherra okkar að geta farið til Bryssel og snætt kvöldverð með þekktum þjóðarleiðtogum og komast með á myndir í heimspressuna eða að minnsta kosti í sjónvarp í Evrópu. Þetta hefur verið mun skemmtilegra heldur en að puða á þinginu heimavið eða í fundarherbergjum sveitafélaganna.”

 

“Fyrir ESB-búrókratana var upptaka evrunnar að sjálfsögðu mikilvægt skref í að malbika völdin og þjappa þeim enn meira saman í Bryssel. Það hafði engin áhrif, að margir hagfræðingar vöruðu við því að taka upp einn og sama gjaldmiðilinn hjá öllum þessum ólíku löndum. Persónur í leiðandi stöðum vissu mætavel, að það yrði kreppa á leiðinni, en þá var gengið út frá því, að allir myndu festast og kreppan við það breytast í lyftistöng, sem gæti þvingað fram stofnun Bandaríkja Evrópu, þrátt fyrir andstöðu fólksins. Það er síðasti kaflinn í þessu ferli, sem við erum vitni að í dag.

 

Núna, þegar allt lítur út fyrir að ganga á verri veg, fáum við að heyra frá þessum stjórnmálamönnum, sem hafa málað sig út í ESB-hornið, að ESB sé upprunalega friðarverkefni. Með því að búa til sambandið sé hægt að forðast illdeilur í framtíðinni. Það er smámunasamt að komast að því, að staðan sem þeir hafa nú komið okkur í með óheyrilegum lýðræðisskorti og þýsk/frönskum einræðistilskipunum leiðir líklega til þess ástands, sem fullyrt er að ESB eigi að koma í veg fyrir. Mótsetningarnar aukast milli fólksins í Evrópu.

 

Ef stjórnmálamenn Evrópu gætu haft hemil á sér væri það skynsamlegasta, sem þeir gætu gert, að skrúfa sundur risann í Bryssel og hverfa aftur til þess, sem hefur verið jákvætt í ESB-verkefninu. Látum fríverslunarbandalag duga og sameiginlegan markað fyrir vörur og þjónustu, það sem fólkið vill hafa ... Látum fólkið í Evrópu fá að lifa í sjálfstæðum frjálsum ríkjum sínum og þróa sérstakar menningararfleifðir sínar í Evrópu, þar sem öllum blómunum verður leyft að vaxa.”

 

Ég hef engu við þessi orð Lars Berns að bæta. Spurningin er, hvort þróunin hafi ekki þegar gengið svo langt, að ekki verði aftur snúið og friðarverkefnið breytist í andstöðu sína.

 

Stokkhólmi 15. maí 2012,

Gústaf Adolf Skúlason.

Greinarhöf. er fyrrv. ritari evrópskra samtaka smáfyrirtækjaeigenda,

hefur birt fjölmargar blaðagreinar um efnahags-, sjávarútvegs- og stjórnmál

og er varaform. Samtaka um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland.


mbl.is Tóku út 700 milljónir evra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðsnúningur Bjarna Benediktssonar í EES- og stjórnarskrármáli er fagnaðarefni

"Stórkostlegt valdaframsal til ESB" er fyrirsögn á forsíðu Fréttabl. í dag. Þar segir Bjarni sameiginlegt fjármálaeftirlit á EES-svæðinu krefjast þessa, verði kerfið innleitt í EES-samninginn, og að menn verði að gera sér grein fyrir að risahagsmunir séu þar undir. Bjarni virðist hafna því, að hið nýja kerfi megi að óbreyttu innleiða hér, og tekur sérstaklega fram, að hann er því algerlega mótfallinn að fara þá leið, sem Össur Skarphéðinsson hafði lagt til, því að BB segir orðrétt:

  • "Ég tel fráleitt að við myndum hrökkva til og breyta stjórnarskránni út af þessari gerð ESB, það finnst mér alls ekki koma til greina."

Hefðu þessar reglur verið í gildi 2008, þá hefði Alþingi ekki getað sett neyðarlögin. 

  • "Ef þessar gerðir sem ESB er að fara fram á að verði innleiddar í EES-samninginn hefðu verið í gildi þegar bankakrísan skall á 2008, þá hefðum við að mestu tekið við fyrirskipunum frá Brussel," segir Bjarni.

Og takið eftir þessum lokaorðum í hinni ágætu forsíðufrétt:

  • Með breytingunum er í fyrsta sinn farið fram hjá tveggja stoða kerfi sem byggt hefur verið inn í EES-svæðið. "Það eitt og sér er stórmál," [sagði Bjarni]. (Sbr. nánar HÉR.)

Af stöðu mála ætti að vera ljóst, að mikið er nú komið undir því, að stjórnmálamenn í Noregi og á Íslandi taki einhuga afstöðu, þvert á allar flokkalínur, gegn þeirri óbilgjörnu stefnu Evrópusambandsins nú um stundir að vilja engar málamiðlanir um eðli hugsanlegra breytinga á þessum málum í EES-löndum utan ESB, en þannig eru Brusselherrarnir að óvirða tveggja stoða kerfið með því að ákveða sjálfir allt einhliða í málinu.

Þessi ánægjulegi viðsnúningur Bjarna í málinu er gott skref í þá réttu átt að mynda þá norrænu samvinnu um staðfestu gegn einhliða boðvaldi ESB, sem hér var rætt um. Hann er einnig með orðum sínum að draga nokkuð úr líkunum á því, að Össur geti neytt hér færis til að láta umbreyta stjórnarskránni til þess í raun að búa þar til fráleita heimild til að ofurselja Evrópusambandinu æðstu fullveldisréttindi þessa lands.

Jón Valur Jensson. 


Ísafold með yfirlýsingu gegn áróðursherferð ESB

Sannarlega er það rétt hjá unga fólkinu í Ísafold að gagnrýna áróðursbrellur Evrópusambandsins hér á landi. Þarf ekki að víkja burt þessum Timo Summa sendiherra, sem brýtur hér lög? Burt skal ESB með sínar 230 milljónir til að blekkja íslenzkan almenning, eins og við höfum ekki þurft að búa við ærinn "Evrópuhraðlestar"-áróður hingað til og um langt árabil !

Brynja Halldórsdóttir, talskona Ísafold.

Brynja Halldórsdóttir og félagar hennar í Ísafold hafa nú tekið á þessu hneykslismáli. Þeim "þykir skjóta skökku við að Evrópustofa sé með virkum hætti að hafa áhrif á umræðuna á Íslandi." (Mbl.is.) Hér er yfirlýsing Ísafoldar:

  • "Margra daga opin hátíðarhöld í tilefni Evrópudagsins svokallaða sem Evrópustofa stendur fyrir gefa upp ýkta glansmynd af aðlögunarferlinu og Evrópusambandinu sem slíku. Þessi hátíðarhöld sem fjármögnuð eru af ESB eru til þess fallin að draga úr þeirri neikvæðu ímynd sem Íslendingar réttilega hafa vegna framgöngu ESB og aðildarríkja þess. 
  • Á sama tíma og blásið er til hátíðar er Evrópusambandið í málaferlum við Íslendinga fyrir EFTA-dómstólnum vegna Icesave kröfu Breta og Hollendinga. Þá eru ekki öll kurl komin til grafar í deilunni um makrílinn vegna samþykktar sjávarútvegsnefndar ESB–þingsins frá 24. apríl sl. að tillögu Framkvæmdarstjórnarinnar um reglur til þess að refsa ríkjum utan sambandsins sem að mati þess stunda ósjálfbærar fiskveiðar. 
  • Verði Evrópustofa áfram starfrækt hér á landi á meðan aðlögunarferlið er í gangi, er það von Ísafoldar að þeir sem að stofnuninni standa sjái sóma sinn í því að vera eingöngu til staðar innan veggja skrifstofunnar. Þá getur hver sá er vill, aflað sér "hlutlægra" upplýsinga um ESB frá Evrópusambandinu sjálfu án þess að Evrópustofa, með sendiherra ESB sér við hlið, blandi sér markvisst í íslensk innanríkismál og skekki lýðræðislega umræðu Íslendinga." 

mbl.is Gagnrýna Evrópuviku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni Ágústsson um furðuleiki Samfylkingar

"... Hvar fiskurinn liggur undir steini vita allir landsmenn. Samfylkingin ætlar inn í Evrópusambandið og leikur marga furðuleiki til þess að ná því fram. Nú er framundan nýtt inngrip, sérstök gleðivika ESB á Íslandi (auðvitað óháð allri aðildarumsókn) svona hátíð eins og ungmennafélögin stóðu fyrir hér áður fyrr. Öðruvísi mér áður brá þegar við vinstrimenn girtum Kanana af í Miðnesheiðinni og lokuðum Kanaútvarpinu. En í þá daga vildu menn ekki inngrip í sjálfsákvörðunarrétt Íslands. Nú er öldin önnur og Össur "glaði" spyr Steingrím J. Sigfússon okkar gamla landvörslumann ekki leyfis í einu eða neinu þótt það sé nú blessaður Steingrímur einn sem ber ríkisstjórnina áfram."

Áskorun á forystu ASÍ  Þannig ritar Guðni Ágústsson, fyrrv. alþm. og ráðherra, í grein sinni í miðopnu Morgunblaðsins í gær, miðvikudag 9. maí: Útsmoginn er Össur Skarphéðinsson. Þið takið eftir sneiðinni í lok textans: þar er bent á, að Steingrímur ber í raun ábyrgð á, að þessi ríkisstjórn haldi áfram sinni ótæpilegu meðvirkni með Evrópusambandinu, jafnvel milljóna-áróðurspakka þess; Steingrímur virðist ekki hafa meiri sjálfsaga og stolt en svo, að hann leyfir utanríkisráðherranum komast upp með hvað sem er.

Guðni segir þarna meðal annars: "Nú er aðeins ein fyrirstaða í ríkisstjórninni eftir í ESB-ferlinu það er Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra." -- Hvetja má menn til að lesa skrif Guðna um Evrópusambandsmál í Morgunblaðinu (sbr. yfirlit hér). Ofangreindar tilvitnanir eru birtar hér með góðfúslegu leyfi höfundar. –JVJ.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband