Einn snjallasti heili landsins ritar: Opið bréf til Steingríms

mynd 2016/10/18/GE210A86B.jpg "Steingrímur, í kosningum fékkstu skýr skilaboð um að þinn tími væri liðinn. Þrátt fyrir það skorti þig hvorki brigsl né ísmeygileg hnýfilyrði í garð ríkisstjórnar og nú ert þú aftur í framboði. Þú ættir að draga framboðið til baka. Þú getur ekki gert formanninum það að dröslast með ykkur Björn Val í skottinu eina ferðina enn.

Loforð um að halda þjóðinni utan ESB sveikstu strax eftir kosningar. Til að liðka fyrir aðild að ESB sendir þú vin þinn að semja um Icesave. Sá kom með samni
ng, þegar hann nennti ekki lengur að standa í samningaströgglinu. Þið kröfðust þess að þingmenn samþykktu samninginn án þess að sjá hann. Líkt og blindir kettlingar. Það gekk ekki og Jóhanna kallaði þitt fólk villiketti, sem ekki væri hægt að smala. Samningurinn var kolfelldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá hefðuð þið átt að segja af ykkur strax.

Næstu kosningar fóru á sömu leið, en áfram sátuð þið samt. Rúin trausti í annað sinn. Stóradóm fenguð þið í alþingiskosningunum. Í viðbót við ESB, Icesave og veiðileyfi til hrægamma kunna eftirfarandi atriði að vera ástæða fallsins:

*Þið hleyptuð AGS inn og lögðuð blessun yfir hækkun stýrivaxta úr 12 í 18%. Kostnaðurinn lagðist á landsmenn. Margir misstu heimili sín og aldrei hafa jafn mörg fyrirtæki farið á hausinn. Snjóhengjubraskararnir fengu 18% vexti í gjaldeyri, sem streymdi úr landi þrátt fyrir gjaldeyrishöftin.

* Seðlabanki Íslands (SÍ) braskaði með skráð gengi krónu. Skilyrði var fjárfesting á Íslandi fyrir krónurnar. Ekki var spurt hvaðan gjaldeyririnn kæmi eða hvernig hans var aflað.

Á þinni vakt var SÍ peninga- þvottastöð á sama plani og bankarnir í Tortóla. Fékk skatturinn lista yfir þá sem keyptu útsölukrónur af SÍ?

*Þið kærðuð ekki Breta fyrir að setja á okkur terroristalög af ótta við að fá ekki að vera memm í ESBklúbbnum. Ekki þorðuð þið að tala máli þjóðarinnar þegar allar „vinaþjóðirnar“ réðust á okkur. Forsetinn sá að ekki gekk að hafa markið galopið með engan í marki. Hann fór í mark og í sóknina með þeim árangri að landinn þurfti ekki lengur að horfa á tærnar á sér í samræðum við útlendinga.

*Þið gáfuð hrægömmum veiðileyfi á almenning og fyrirtæki. Atvinnutæki voru hirt af verktökum fyrir slikk og seld úr landi fyrir gjaldeyri. Milliliðir hirtu gróðann. Fyrrverandi eigendur sátu eftir jafn skuldugir og áður. Mörgum hefði mátt bjarga með því að bjóða út grunn að nýjum spítala.

*Óskiljanlegt er að þið skylduð selja Kaupþing í Lúxemborg án þess að gramsa fyrst í því hvað bankinn hefði að geyma. Sagt var að fyrr myndi snjóa í helvíti áður en sæist hvað þar væri falið. Sérstakur þurfti svo að fara bónleiðina til að fá gögn úr bankanum, sem var mjatlað í hann.

*Þú felldir niður tugmilljarða skuldir hjá ýmsum fyrirtækjum, sem t.d. í sjávarútvegi seldu seinna kvóta úr byggðarlaginu. Kvóta sem var og er þjóðareign. Eitt loforða þinna var að skila honum til þjóðarinnar.


*Skjaldborgin um heimilin var skjaldborg um fjármagnseigendur. Með 20% leiðinni héldu lánardrottnar áfram að innheimta lán. Verðtryggingin sá um hækkun höfuðstóls. Á nokkrum árum varð staðan enn verri.

* Svo var það Hitaveita Suðurnesja, Sjóvá, Sparisjóðurinn, Askja, Straumur-Burðarás, Byr, VBS, Saga & Askar Capital, Drómi og allt hitt.

*Í liði VG var góður hagfræðingur, Lilja Mósesdó
ttur. Lyklafrumvarp hennar hefði bjargað mörgum heimilum. Jarðfræðiþekking þín vó þyngra en hagfræðikunnátta hennar og um að gera að losna við hana sem fyrst úr stjórninni.

* Jón Bjarnason stóð vörð um fullveldið og makrílkvótann, sem þið Össur vilduð semja um við ESB. Jón vildi setja samskonar kvóta á makrílinn og var á skötuselnum, en fékk ekki. Þú vildir losna við Jón úr ráðuneytinu. Það tókst sem betur fer ekki fyrr en í lokin.

*Þið læstuð niður skjöl í meira en 100 ár vegna persónuverndar, 
sem tók við af bankaleynd. Hvað er svo ljótt að skal falið 4-5 kynslóðum?

*Þið senduð reglulega tilkynningar um það hversu mikið ástand heimila og fyrirtækja hefði batnað undir ykkar stjórn. Hvernig gat annað gerst, þegar þeir verst settu höfðu misst íbúðir sínar og mörg þúsund fyrirtæki farið á hausinn?

Við það bættist landflótti fólks sem ekki átti sér viðreisnar von í landinu okkar góða. Er ekki ljóst að þeir sem lifðu af stóðu betur en hinir, sem þið gáfuð veiðileyfi á? Þú munt segja þetta tóma dellu miðað við hvað þið skiluðuð góðu búi þrátt fyrir rústirnar sem þú tókst við.

Ég spyr, hvernig hefði þetta endað hjá ykkur hefði almættið ekki blessað þjóðina með makríl og túristum? Hvað væri skuldin há hefði ykkur tekist að fá að greiða Icesave og deila makrílnum með ESB?

Að lokum:
Er trúverðugt að svara því sem kemur fram í skýrslu Vigdísar með því að skýrslan sé klippiplagg og ekki-skýrsla full af stafsetningarvillum? Reyna svo að gera Vigdísi ótrúverðuga hjá alþýðu manna með í senn ísmeygilegum og illyrmislegum ásökunum rætnifullra rægitungna um gegndarlaust og einskis nýtt hjal um stafsetningarstagl.
Þykir mér sýnt að trúverðugleiki Vigdísar vaxi við að þú, Steingrímur, reynir að gera hana ótrúverðuga."

Tilvitnun lýkur í grein Sigurðar Oddssonar verkfræðings (Opið bréf til Stein­gríms, Mbl. 18. okt.). Greinin hefur þegar verið endurbirt á DV-vefnum og sennilega víðar, enda á höfundurinn  "þakkir skildar fyrir að skrifa þessa króniku. Hún má ekki gleymast núna þegar VG er að gera hosur sínar grænar fyrir kjósendum," eins og Sigurður Hjaltested ritaði á DV-vefinn. Steingrímur J. hefur svikið kjósendur sína áður í ESB-málinu og mikils um vert að hann komist ekki í ráðherrastól á ný. Því er ekki óeðlilegt, að hinn frábærlega glöggi höfundur Sigurður Oddsson fái hér svigrúm fyrir sitt breiða yfirlit um nokkra viðkomustaði þessa mesta kosningasvikara í allri fullveldissögunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hér er t.d. góð grein (opin) eftir Sigurð Oddsson frá 22. október 2013: Virðing Alþingis.

Jón Valur Jensson, 24.10.2016 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband