Jón Baldvin Hannibalsson afhuga Evrópu­samband­inu: "Það þýðir ekkert að tala um að ganga inn í brenn­andi hús!"

"Þegar ég horfi á Evrópu núna sé ég Evrópu­samband sem er nánast í sjálfs­morðs­leið­angri ... og allt þar í rugli. Frammistaða ESB núna sýnir algert póli­tískt forystu­leysi, alltaf viðbrögð eftir á og skammar­lega lítil­mennsku. Við göngum ekki inn í brenn­andi hús núna. Slökkvið fyrst eldana,“ sagði Jón Baldvin Hanni­bals­son, fyrr­verandi utan­ríkis­ráðherra, í viðtali á Morgunvaktinni á Rúv í morgun, en hann hefur endur­skoðað afstöðu sína til aðildar Íslands að Evrópu­sambandinu. Þar sé allt í rugli.

Rúv segir frá þessu á vef sínum og birtir þar viðtal Óðins Jónssonar við hann. Gefum Jóni Baldvin sjálfum orðið:

„Hér talar maður sem var harðvítugasti talsmaður þess að við eftir hrun gengjum í samfélag lýðræðis­ríkja, Evrópusambandið. Ég hef endurskoðað þá afstöðu. Einfald­lega vegna þess að þegar ég horfi á Evrópu, þá sé ég Evrópusamband sem er nánast í sjálfsmorðsleiðangri vegna þess að pólitíska forystan hefur algjörlega brugðist - og það er kreppa eftir kreppu eftir kreppu. Peninga­samstarfið er byggt á röngum grunni og stenst ekki. Það mun ekki standast nýtt áhlaup", sagði Jón Baldvin.

Já, hann skefur ekki af því, eftir að hafa fylgzt með þessu stórvelda­banda­lagi sem hann áður dáði!

„Sú stefna sem Evrópu­sambandið hefur rekið undir forystu Merkel gagnvart þeim þjóðum sem fóru verst út úr hruninu (þá er ég að tala um Grikkland, Kýpur, Íberíu­skagann, Írland) er rugl! Tómt efna­hags­legt rugl! Og ekki boðleg. Og síðan, frammistaða Evrópu­sambandsins gagnvart þeirri áraun sem fylgja flótta­manna­hrær­ingum um allan heim sýnir algjört pólitískt forystuleysi, alltaf viðbrögð við atburðum eftir á og í þessum málum skammarlega lítil­mennsku“. – Er Jón Baldvin Hannibalsson með öðrum orðum ekki lengur fylgjandi því að Ísland gerist aðili að Evrópu­samband­inu? – „Það þýðir ekkert að tala um að ganga inn í brennandi hús“.

Í staðinn eigum við að "koma okkar eigin húsi í lag og búa okkur undir það síðar meir að geta verið þjóð meðal þjóða."

Hér mega ESB-innlimunar­sinnar strjúka svitann af enninu, reyna að jafna sig og hlusta á yfirveguð orð þessa fyrrv. formanns Alþýðu­flokksins, eins harðasta tals­manns þess að Ísland sækti um aðild að Evrópu­sambandinu, því að ...

Jón Baldvin tekur þó fram að fram­tíðar­sýnin sé óbreytt, að vera í nánu sam­bandi við aðrar lýðræðisþjóðir, sérstak­lega á Norður­löndum og við Eystrasalt, en hann sé pólitískur raunsæis­maður. „Við göngum ekki inn í brennandi hús núna. Slökkvið fyrst eldana.“ 

Fátt um jafnaðarmenn nú orðið, en "vofa fasismans gengur ljósum logum um Evrópu"

Hann sagðist sjá núna tvo jafnaðarmenn í heim­inum: Annar væri "hans heilag­leiki páfinn" Franz, en hinn Bernie Sanders, fram­bjóðandi í Demókrata­flokknum til embættis forseta Bandaríkjanna.

Hann segist hræddur við margt í samtímanum, að þetta geti farið til verri vegar: "Ég er skíthræddur, alltsvo: vofa fasismans gengur ljósum logum um Evrópu." Hann hafi ekki búizt við, að þetta gæti átt sér stað árið 2016, hann sé ekki alvitur! Og síðan fylgdu orð hans um Evrópusambandið, þau sem tilfærð hafa verið hér ofar!

Jón Valur Jensson tíndi saman.


mbl.is Svíþjóðardemókratar styðja Brexit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband