Ítrekað bregzt Bjarni Bene­dikts­son þeim sem unna sjálfstæði Íslands

Þetta sannast ljóslega á viðtali Mbl.is við ofjarl hans í ESB-mál­um, Styrmi Gunnarsson.  Styrmir Gunnarsson.

Rétti­lega segir hann ­til­raun BB til að verja klúður rík­is­stjórn­ar­inn­ar við aft­ur­köll­un ESB-­um­sókn­ar ekki ganga upp. Bjarni seg­ir: „Ég lít þannig á að það sé ekki í gildi um­sókn Íslands að ESB.“ En Styrmir svarar réttilega:

  • Því miður dug­ar þessi skoðun Bjarna á því ekki til, að þannig sé litið á málið í Brus­sel, eins og fyrst var sagt af sendi­herra ESB á Íslandi og síðar staðfest af stækk­un­ar­deild ESB.

Bjarni seg­ir:

  • „Ég lýsi yfir furðu á því að það skuli vera ein­hverj­um vafa und­ir­orpið af Evr­ópu­sam­bands­ins hálfu, hver staða máls­ins er. Þeir hafa fengið mjög skýr skila­boð að minnsta kosti frá þeim, sem fer fyr­ir ut­an­rík­is­stefn­unni, og for­sæt­is­ráðherra.“

Og Styrmir svarar í samræmi við sorglegar staðreyndir málsins:

  • „Það ligg­ur nú fyr­ir staðfest­ing á því að þau skila­boð hafa ekki verið nægi­lega skýr, hvort sem Bjarna lík­ar bet­ur eða verr.“

Og það sem meira er: Vegna afstöðu Evrópu­sambandsins, sem er bein­tengd við afstöðu Samfylking­arinnar og annarra ESB-afla á Íslandi, þá er það borð­leggjandi, að þessir aðilar ætla sér ekki að hefja allt umsóknar­ferlið upp á nýtt, þegar þeir fá aðstöðu til, heldur að láta sem Össurarumsóknin sé enn í fullu gildi, og sú er t.d. afstaða Árna Páls Árnasonar, sbr. bænarbréf hans þess efnis til Brussel, þar sem hann segir bréf utanríkisráðherrans ekkert gildi hafa, ólíkt umsókninni árið 2009.

Á Mbl.is var þetta þarfasta viðtal (tengill neðst) vandaðs blaðamanns, Baldurs Arnarsonar, við þennan fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, annan máttar­stólpa Evrópu­vaktarinnar (sem nú er reyndar í starfshléi, en þar á vefnum er gríðarmargt gott að finna um ESB-mál, sem og á vefsíðum Styrmis og Björns Bjarnasonar, hins meginhöfundarins á Evrópuvaktinni).

Það eru orð að sönnu, þegar Styrmir ritar í pistli sínum um málið, að „það verða ekki marg­ir kjós­end­ur, sem taka mark á svona yf­ir­lýs­ing­um af hálfu nú­ver­andi stjórn­ar­flokka.“ 

Makalausast af öllu er, að landsfundarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa í haust reynzt auðsveipir formanni sínum, sem svikið hefur þá í þessu máli, rétt eins og hann sveik bæði landsfund sinn og þjóðina í Icesave-málinu. Með þögninni var landsfundur 2015 að auglýsa uppgjöf sína fyrir aðgangsfrekri Samfylk­ingunni í málinu, og það er engin afsökun Bjarna eða landsfundar eða ríkis­stjórnar­innar sjálfrar, að misnotkun fjölmiðla í linnulausum ESB-hollum áróðri skelfdi svo þessa ráðherra, að þeir lyppuðust niður eins og lostnir skjótvirkri eiturör og svikust um sitt ætlunarverk.

Það er merkilegt, að atkvæði sjálfstæðissinna, sem falla á Sjálfstæðisflokk, verða til lítils eða einskis með þessum hætti. Hvenær ætlar Sjálfstæðis­flokkurinn sér að axla á ný það verkefni sitt að virða sína eigin grasrót, hinn yfirgnæfandi meirihluta flokksmanna og kjósenda hans, sem hafnar algerlega inngöngu Íslands í þetta stórveldabandalag?

Jón Valur Jensson.


mbl.is Tilraun Bjarna í ESB-málinu gangi ekki upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband