Margt kyndugt um skoðanakannanir um nýjan ESB-hægriflokk

Vísir.is er með greiningu á því hvaðan 20% fylgið komi, sem falli nýjum ESB-hægriflokki í skaut:
Ef greint er hvað þeir sem líklegt er að kjósi þennan flokk kusu síðast kemur í ljós að 26 prósent af fylginu kemur frá þeim sem kusu Sjálfstæðisflokkinn vorið 2013, 20 prósent Samfylkinguna, 16 prósent Framsókn, 15 prósent Bjarta framtíð, 4 prósent Vinstri græna og 2 prósent Pírata.
Og þetta sést hér á grafi:
Nýr hægriflokkur gæti notið svipaðs fylgis og Sjálfstæðisflokkurinn

Og þarna segir einnig (auðk. hér):

Í greiningu á könnuninni kemur fram að nýja flokknum hafi ekki verið stillt beint upp sem valkosti við hina flokkana, en ef miðað er við síðustu könnun Capacent í mars síðastliðnum og tekið mið af því hvaðan nýi flokkurinn tæki fylgi yrði niðurstaðan nálægt þessu:


Nýr hægriflokkur gæti notið svipaðs fylgis og Sjálfstæðisflokkurinn

Og enn segir á Visir.is: 

  • Í greiningunni kemur fram að niðurstaðan sé alls ekki nákvæm og í útreikningunum hafi ekki verið reiknað með því að nýi flokkurinn fengi neitt af fylgi þeirra sem segja hvorki líklegt né ólíklegt að þeir kjósi hann. Hins vegar er reiknað með því að hann fái öll atkvæði þeirra sem segja að líklegt sé að þeir kjósi hann.
  • Þess ber að geta að síðasti þingmaður Pírata stendur tæpt samkvæmt þessu og gæti það þingsæti  nánast lent hvar sem er, samkvæmt greiningunni.
  • Eva Heiða Hönnudóttir stjórnmálafræðingur segir niðurstöður könnunarinnar áhugaverðar. „Það kemur ekki á óvart að af þeim sem eru tilbúnir til að kjósa nýjan hægriflokk kaus fjórðungur Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum. Þar á eftir kemur Samfylkingin og þar eru væntanlega á ferðinni hægri kratarnir sem eru Evrópusinnaðir,“ segir Eva Heiða. „Það er líka áhugavert að 16 prósent af þeim sem myndu kjósa nýtt framboð kusu Framsókn síðast, miðað við hversu mikið Framsókn hefur sett sig á móti ESB.“ 

En þar er þá sennilega um þá menn helzt að ræða, sem kusu Framsókn vegna loforða hennar í skuldamálunum (auk þeirra fekk flokkurinn líka mörg þakklætisatkvæði vegna Icesave-málsins.)

Í könnuninni var spurt: Ef fram kæmi nýtt framboð Evrópusinnaðs flokks hægra megin við miðju, hversu líklegt eða ólíklegt er að þú myndir greiða slíku framboði atkvæði þitt í alþingiskosningum ef kosið yrði til Alþingis í dag? Könnunin var unnin 3. til 10. apríl. Svarendur voru 1.667 og þar af tóku 1.378 afstöðu. 

Í nýlegri skoðanakönnun MMR sögðu 38,1 prósent aðspurðra koma til greina að kjósa nýtt framboð hægri manna sem nyti stuðnings Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins. (Visir.is)

Þetta útleggur Páll Vilhjálmsson réttilega svo, að fylgi hins nýja "flokks" hafi hrapað á 10 dögum úr tæpum 40% í 20%.

Hver er annars stóra fréttin í þessum birtu könnunum? Að nýr hægri flokkur hrapi skv. skoðanakönnunum úr 38,1% í 20% á tíu dögum? Eða að Samfylkingin hrapi niður í 10,8% skv. ofanskráðu (á Vísis-vefslóðinni) og að VG haldi sig við 11% og þeir flokkar með 7+7 þingmenn? Neðst niður, miðað við nýlegar skoðanakannanir, myndi þó "Björt framtíð" hrapa, í 10,5%, og tækist þó með naumindum að ná 7 þingsætum eins og hinir vinstri flokkarnir (stjórnleysingjar pírata fengju hins vegar 6).
 
Og hvaða forspárgildi er í svona spám, þegar ekkert er vitað um frambjóðendur nýs ESB-flokks nema hugsanlega þrjá–fjóra (BenJ, ÞP, SvASvs)? Halda menn að þjóðin kjósi nánast ókunna menn í hrönnum?
 
Og er það ekki svo, að ESB-meinlokusinnar "kjósa taktískt" í svona skoðanakönnunum, tilbúnir að hjálpa til að láta líta svo út sem mikill klofningur sé í gangi hjá sjálfstæðismönnum og að nýr flokkur slíkra fengi mikið fylgi, með því að segjast styðja slíkan flokk, þegar það er útlátalaust fyrir viðkomandi meinlokumenn vegna eðlis könnunarinnar, enda ekki staddir við alvöru-kjörkassann, en þeir sjálfir hins vegar ráðnir í því að vera áfram evrókratar, en ekki evrósjallar?! 
 
Jón Valur Jensson. 

mbl.is Nýr flokkur nyti 20% stuðnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband