ESB ætlar sér auðlindir Grænlands - og okkar - í auðlindasamkeppni stórvelda

Vitaskuld sækist Evrópusambandið eftir auðlindum, eftir því sem það hefur færri úr að spila sjálft. Hér sést áhugi þess á aðgangi að auðlindum Grænlendinga. Halda einhverjir kjánar, að það hafi ekki áhuga á okkar auðlindum?!

  • „Mikilvægi Grænlands fyrir Evrópusambandið með tilliti til hráefnis verður ekki ofmetið,“ er haft eftir Antonio Tajani, yfirmanni iðnaðarmála í framkvæmdastjórn ESB, á fréttavefnum PublicServiceEurope.com ...
  • Fram kemur í fréttinni að ESB sé mjög í mun að tryggja sér aðgang að grænlenskum auðlindum, eins og olíu og verðmætum málmum í jörðu, þar sem sambandið óttist að aðgengi þess að hráefni annars staðar í heiminum kunni að dragast saman samhliða vaxandi tilhneigingu að koma á verndartollum. (Mbl.is.).

Nú tala þeir um „samstarfssamninga" milli Grænlands og ESB. „Það þýðir ekki að við viljum ganga í sambandið,“segir grænlenzkur forsvarsmaður í fréttinni.

  • „Ef við innleiddum alla löggjöf ESB myndum við þurfa 56 þúsund manns einungis til þess að stjórna 56 þúsund manns,“ segir Kleist að lokum og vísar þar til íbúafjölda Grænlands. Hann bætir við að ein ástæða þess að Grænlendingar hafi yfirgefið forvera ESB á sínum tíma hafi verið andúð á skriffinnsku."
  • "Rifjað er upp að Grænland hafi á níunda áratug síðustu aldar yfirgefið forvera ESB einkum vegna sjávarútvegshagsmuna landsins." (Mbl.is.)

Eins og Svisslendingar náðu Grænlendingar mun skárri samningi við Esb. heldur en Norðmenn og Íslendingar með EES-samningnum. En „sambandið" sækir á og ætlar sér stóran hlut í auðlindum norðurslóða. Þar eru Ísland og Grænland fyrstu kubbarnir í dómínóspili gömlu nýlenduveldanna sem stýra Evrópusambandinu og eru þar allsráðandi frá og með 1. nóv. 2014, þegar ákvæði Lissabonsáttmálans taka gildi um nær tvöfaldað atkvæðavægi Þýzkalands í leiðtogaráðinu og ráðherraráðinu, sem ráða þar mestu og því næst framkvæmdastjórnin, ekki þingið í Strassborg. Samanlagt verða fjögur stærstu ríkin (af 27) með 53,64% atkvæða. Þetta eru auk Þýzkalands Frakkland, Bretland og Ítalía (sjá töfluna hér fyrir neðan*). Ef við bætum við 5. og 6. stærstu þjóðunum, Spánverjum og Pólverjum, verða sex stærstu ríkin með 70,4% atkvæðamagns, en öll hin 21 verða samanlagt með 29,6%! Viðaukinn hugsanlegi, Ísland, hefði engin sjáanleg áhrif á það til breytingar!

Tíu fyrrv. nýlenduveldi munu (frá 1. nóv. 2014) ráða 73,34% atkvæðavægi í ráðherraráði og leiðtogaráði Evrópusambandsins, en hin 17 ríkin, saklaus af nýlendustefnu, munu ráða þar 26,66% atkvæðavægi ! Ísland fengi þar 0,06% atkvæðavægi!**

Og eindregna, ráðríka auðlindalöggjöf getur Esb. auðveldlega sett í framhaldinu ... Það verður þó ekki fyrr en Brusselkarlar hafa annaðhvort náð Noregi inn eða séð fram á, að það verði aldrei. Ísland er hins vegar mikilvægur dómínókubbur ekki aðeins vegna eigin auðlinda (einkum raforku og fiskimiðanna), heldur einnig vegna þess að með innlimun okkar telja Brusselmenn líklegra að Norðmenn láti líka fallerast.

Svo erum við með quislinga hér við stjórnvölinn–––haldið þið að það sé ástand!

Neðanmálsgreinar: 

* Atkvæðavægið í ráðherraráði Esb. (sem ræður m.a. "reglunni" óstöðugu um hlutfallslegan stöðugleika fiskveiða hvers Esb-ríkis) eins og það er nú og svo eftir breytinguna afgerandi 1. nóv. 2001 (heimild: Lissabonsáttmálinn, sbr. einnig Harald Hansson HÉR):

** ÁTTA þessara fyrrv. nýlenduvelda (og þá er Svíþjóð og Danmörku sleppt) munu ráða 70,39% atkvæðavægis í ráðunum tveimur. Svíþjóð var aðeins fáein ár með nýlendu og á því naumast heima í þessum hópi. Þessi átta ríki eru: Stóra-Bretland, Spánn, Frakkland, Portúgal, Holland, Þýzkaland, Belgía og Ítalía, og voru mörg þeirra mjög grimm nýlenduveldi, þ. á m. tvö þau síðastnefndu. Ef Tyrkland og Rússland bætast við, stóreykst enn hlutfall fyrrverandi nýlenduvelda í helztu valdastofnunum Esb., en okkar áhrifahlutur yrði 0,04%! Við þekkjum hroka sumra þessara ríkja (t.a.m. Bretlands og Hollands – og nú Tyrklands) og ættum að halda þeim sem lengst frá æðsta ákvörðunarvaldi um okkar mál.

Jón Valur Jensson. (Áður birt á bloggi hans 23. des. 2011.)
mbl.isESB með augastað á grænlenskum auðlindum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband