Alþingi ber STRAX að slíta formlega viðræðum við ESB

Fullveldið og slit ESB-viðræðna eiga að hafa sinn háa sess í málefnasamningi hinna nýju stjórnarflokka, ef vel á að fara. Hér er tækifæri til að minna á skarpa, tímabæra yfirlýsingu sem og aðgerð kl. 8 í kvöld.

Yfirlýsing Samstöðu þjóðar:

Alþingi ber STRAX að slíta formlega viðræðum við ESB.

 

19. maí 2013.

 

Þann 16. júlí 2009 samþykkti Alþingi ályktun um »að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB«. Ályktunin hlaut samþykki Alþingis með aðeins 33 atkvæðum af 63. Tillögu, um að leita álits þjóðarinnar á þessu afdrifaríka feilspori, var hafnað með 32 atkvæðum. Umsóknin um aðild að Evrópusambandinu var þannig alfarið á ábyrgð þess meirihluta á Alþingi sem studdi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Umsóknin var hvorki á ábyrgð stjórnarandstöðunnar á Alþingi né þjóðarinnar.

 

Í upphafi viðræðna hélt ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur því fram, að viðræður um aðild Íslands að ESB myndu taka í mesta lagi 18 mánuði. Liðnir eru 46 mánuðir síðan Alþingi samþykkti að sækja formlega um aðild landsins og mikilvægustu kaflar stjórnarskrár Evrópusambandsins (Der Vertrag von Lissabon) hafa ekki ennþá verið opnaðir. Að mati »Samstöðu þjóðar« eru engar forsendur til að ljúka þessum viðræðum. Áframhald viðræðna væri eins og meinsemd sem héldi áfram að draga mátt úr sjúklingi sem þjáðst hefur af hinni alvarlegu ESB-sýkingu í 46 mánuði.

 

»Samstaða þjóðar« telur þjóðarnauðsyn að Alþingi slíti strax viðræðum um aðild Íslands að ESB og að viðræðunum verði slitið formlega með ályktun. Viðræðurnar voru hafnar með ályktun meirihluta Alþingis og það væru stjórnskipuleg mistök að haga slitum á einhvern annan hátt. Benda má á, að allt frá september 2009, hafa verið gerðar kannanir um afstöðu landsmanna til inngöngu landsins í ESB, af Capacent-Gallup. Niðurstöður þessara kannana hafa ávallt verið á einn veg, 60% - 70% þjóðarinnar hefur verið andvígt aðild. Þær hugmyndir, að efna beri til þjóðarkönnunar um viðhorf almennings til áframhaldandi viðræðna við ESB, eru forsendulaust blaður.

 

»Samstaða þjóðar« skorar á forystu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að setja skýr ákvæði um formleg slit viðræðna við ESB, í sáttmála þessara flokka um nýja ríkisstjórn. Viðræðunum þarf að slíta með yfirlýsingu frá Alþingi, strax eftir að Alþingi hefur hafið störf. Alþingi hóf viðræður um aðild án samþykkis þjóðarinnar og Alþingi ber skylda til að ljúka þeim strax, án kostnaðarsamrar þjóðarkönnunar.

 

Fyrir hönd »Samstöðu þjóðar«

 

Pétur Valdimarsson.

Loftur Altice Þorsteinsson.

Anna R. Kvaran.

 

Í kvöld, þriðjudag 21. maí kl. 20.00-20.30, er fyrirhuguð aðgerð ESB-aðildarandstæðinga í baráttunni gegn ESB-umsókninni.

Ætlunin er að standa með áminningarspjöld og borða frá Heimssýn (mest með textanum: "NEI við ESB", einnig "ESB NEI TAKK" og "HÖFNUM ESB-AÐILD") fyrir utan bæði Valhöll og fundarstað framsóknarmanna í Rúgbrauðsgerðinni, Borgartúni 6, kl. 20.00-20.30 á báðum stöðum, en flokksráð Sjálfstæðisflokkins og miðstjórn Framsóknarflokks munu þá funda um málefnasáttmála flokkanna. Ekki er ætlunin að mótmæla nýrri ríkisstjórn eða taka afstöðu gegn þessum flokkum, heldur að ganga fram í þeirri von, að nú verði mynduð trú fullveldisstjórn og AÐ MINNA FLOKKANA Á FYRIRHEITI ÞEIRRA Á LANDSFUNDUM AÐ SLÍTA VIÐRÆÐUM VIÐ ESB. Einnig stendur til "að afhenda helzt hverjum fulltrúa, sem þátt tekur í fundunum, yfirlýsingu frá okkur þar sem við hvetjum þá til að standa við skýra stefnu flokks síns um að hafna ESB-aðild og slíta þessum tilganglausu innlimunar- og aðlögunarviðræðum við Sambandið nú þegar," eins og Gunnlaugur Ingvarsson, stjórnarmaður í Heimssýn og félagi í Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu, ritar í bréfi.

JVJ.


mbl.is Forsetinn fundar með Sigmundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband