Tillaga Þorgerðar Katrínar er í anda hennar þráláta evrókratisma

Það ER áríðandi fyrir Íslendinga að loka dyrum að því Evrópusambandi, sem leggur allt kapp á að innlima þetta lýðveldi með sinni gríðarlegu fiskveiðilögsögu og eyðir í það miklu fé á mörgum sviðum. Ferill þess gagnvart okkur í Icesave- og makríl-málunum er hneykslanlegur, en réðst af undirgefni framkvæmdastjórnarinnar undir voldug ríki þar. Við fengjum þar 0,06% atkvæðavægi í hinu volduga ráðherraráði, sem getur með einu pennastriki afnumið "regluna um hlutfallslegan stöðugleika" fiskveiða hvers Esb-ríkis, og vitað er af reynslu Norðmanna, að stórveldið fæst EKKI til að innmúra þá "reglu" inn í aðildarsáttmála. Kominn er tími til að menn átti sig hér á grunnreglu Esb. um jafnan aðgang að fiskimiðunum, áður en illa fer vegna fjárausturs hins ásælna stórveldis í mannskap hér á landi, til þjónustu við ofurvaldið, og vegna tangarhalds viðkomandi á fjölmiðlum og öðrum áhrifavöldum.

Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki er alls óskylt að halda áfram hinu auvirðilega umsóknarferli, sem lagt var út í þrátt fyrir ævinlega andstöðu Íslendinga við að "ganga í" þetta stórveldi stórveldanna gömlu -- ævinlega allar götur frá 2009, þegar tveir flokkar dirfðust að fara þessa leið, þvert gegn kosningaloforðum annars þeirra og þvert gegn vilja kjósenda hans.

Flokkunum tveimur ætti að vera treystandi til að fara að vilja sinna landsþinga, en þó að Þorgerður Katrín hafi greinilega ekkert lært af biturri reynslu þjóðarinnar af Esb. á þessu kjörtímabili, þá er hún ekki ein um óhlýðnina við landsfund -- það sama var að heyra (í Silfri Egils) á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem "gleymdi" þó að tilkynna landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningu sína sem varaformanns, að hún hyggist þverbrjóta gegn samþykkt flokksins um lokun hinna tveggja áróðursstofa Evrópusambandsins, í Reykjavík og á Akureyri. Hvað gengur þeirri manneskju til?

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Kosið verði um ESB 27. apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Páll Haraldsson

Sannur lýðræðissinni. Er lýðræðið bara fyrir þig og þína Jón? Eða meiga allir taka þátt?

Jón Páll Haraldsson, 20.3.2013 kl. 01:33

2 Smámynd: Óskar

Merkilegt þetta lýðræði sem Jóni Val er svo tíðrætt um.  Alvaran er ekki meiri en svo að hann vill ekki að þjóðin fái að segja sína skoðun á þessu máli og ákveða framhaldið sjálf.  Hræsnari.

Óskar, 20.3.2013 kl. 09:38

3 Smámynd: Samstaða þjóðar

Sneypuförinni til Evrópu er lokið. Að loknum kosningum mun meirihluti Alþingis samþykkja ályktun um að hætt verði tilraunum til að innlima Ísland í Evrópusambandið.

Meirihluti landsmanna er andvígur ESB-aðild. Skoðanakannanir frá því í ágúst 2009 sýna að þeim sem eru andvígir ESB hefur jafnt og þétt fjölgað úr 60% í þau 70% sem nú eru andvígir ófreskjunni.

http://www.si.is/media/althjodlegt-samstarf/4022801_Samtok_Idnadarins_210213.pdf

Umboð sitjandi Alþingis er á þrotum. Eftir 27. apríl mun nýtt Alþingi ráða þjóðarkönnunum. Eftir þann tíma mun engu máli skipta hvaða heimskulegu ákvarðanir sitjandi þing tekur. Tími þjóðsvikara á ríkisspenanum er að líða.

Loftur Altice Þorsteinsson.

Samstaða þjóðar, 20.3.2013 kl. 09:47

4 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Það er merkilegt að ekki hafi verið sterkara í umræðunni um Stjórnarskrána, þessi vegferð ESB sinna í átt að ESB og aðlögun Íslands að  regluverki ESB.

Eins og ég les gildandi Stjórnarskrá, þá er þessi vegferð brot á stjórnarskránni og allir þeir sem eru á þessum vagni eru brotamenn við Grunnsáttmála okkar og ættu ekki að ganga lausir.

Eggert Guðmundsson, 20.3.2013 kl. 13:41

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég þakka ykkur, Loftur og Eggert, ágæt innlegg hér.

Langsamlega lakasta innleggið er frá Óskari, æstum vinstrisegg, og skal ég svara því, til viðbótar við ágætt svar frá Lofti.

Hvað er þú að blaðra hér um lýðræði, Óskar, og kalla mig "hræsnara"?! Það skyldi þó ekki vera, að það orð eigi betur við um þig?

Ekki varst þú að kvarta yfir vöntun á lýðræði, þegar Samfylkingar- og VG-þingmenn höfnuðu hrokafullir tillögu á Alþingi um, að Esb-umsókn þeirra í júlí 2009 yrði borin undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvar var þinn lýðræðisvilji þá? Og þú veizt, að allan þennan tíma hefur þjóðin verið á móti því að fara inn i þetta Evrópusamband.

Og ekki varstu að kvarta yfir því, þegar bæði vinstri meirihlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd felldi tillögu um, að fullveldisframsalsheimildin í 111. gr. stjórnlagaráðs yrði borin undir almenning í þjóðaratkvæðagreiðslunni -- og meirihlutinn í þingsal Alþingis felldi tillögu í sömu átt.

Þetta Esb-þjónandi þinglið ÞORÐI EKKI að sjá dóm þjóðarinnar um þessi mál.

En tveir stærstu stjórnmálaflokkar landsins, skv. nýjustu skoðanakönnunum, þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafa báðir samþykkt á nýlegum landsfundum sínum að HÆTTA VIÐ Esb-umsóknarferlið. Þessir flokkar eru senn að skila umboði sínu frá kjósendum 2009 (en tóku engan þátt í sumsókn Össurargengisins 2009). Í staðinn leita þeir nýs umboðs frá kjósendum -- með stefnuskrár sínar á lofti. Þeir leita stuðnings við þá stefnu, m.a. að hætta við umsóknarferlið, og fái þeir meirihlutastuðning, eiga þeir vitaskuld að fylgja henni eftir, enda eru þeir þá búnir að fá beint umboð til þess, og það er þá vitaskuld fullkomlega lýðræðislegt.

Jón Valur Jensson, 20.3.2013 kl. 18:11

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Og með þessu er líka svarað, efnislega, innlegginu frá Jóni Páli Haraldssyni.

Jón Valur Jensson, 20.3.2013 kl. 18:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband