Össur Skarphéðinsson fer út fyrir öll mörk umboðs síns og valds í velþókknunarviðleitni í Brussel

Skyldi hinn umboðslausi Össur hafa borið "samningsmarkmið okkar" í sjávarútvegsmálum undir viðkomandi ráðherra, Steingrím? Nú flaggar Össur því að vera tilbúinn með samningsmarkmið, sem þó fara leynt, og segist reiðubúinn "að hefja viðræðurnar, takast á við vandamálin og þannig munum við ná samkomulagi sem Ísland mun fara eftir." (Sic, sjá fréttartengil Mbl.is neðar; leturbr. hér.)

Hefur Össur Skarphéðinsson eitthvað yfir því að segja, hvort Ísland eða íslenzka þjóðin muni "fara eftir" samkomulagi hans sjálfs við Evrópusambandið?! Er maðurinn kominn í algleymi á staðreyndir vegna eigin sjálfsálits?

  • Haft er eftir Össuri að hann telji að hægt verði að ná samkomulagi um sjávarútveginn í viðræðunum vegna góðs skilnings Evrópusambandsins á hagsmunum Íslendinga. (Mbl.is.)

Er þetta það, sem við höfum upplifað í samningaviðræðum við Evrópusambandið um makrílveiðar? Fjarri fer því. ESB hefur sýnt dæmafáa ófyrirleitni með kröfum sínum um, að við söxum makrílveiðar okkar niður í 3-4% af heildarveiði hans í NA-Atlantshafi, þó að makríllinn haldi sig hér 40% líftíma síns og éti hátt á aðra milljón tonna af átu í fiskveiðilögsögu Íslands.

Ekki nægir ESB þetta eitt, heldur hefur helzti málsvari þess á Íslandi, téður Össur Skarphéðinsson, úthýst helzta og bezta samningamanni landsins í hafréttarmálum, Tómasi H. Heiðar, úr samninganefnd Íslands í makrílviðræðunum! Hann fekk því svipaða útreið eins og sá eini ráðherra, sem hefur staðið sig við réttarstöðu Íslands gagnvart aðlögunarkröfum Evrópusambandsins, Jón Bjarnason, fyrrv. sjávarútvegsráðherra.

Blekkingarmeistarar eins og Össur verða ekki endalaust verðlaunaðir með umburðarlyndi almennings, hversu "jákvæðar" myndir sem þeir láta taka af sér með pótintátum erlendra stórvelda.

Sumir hafa heyrzt eða sézt halda því fram, að ólíku sé að jafna, samningsaðstöðu Íslands í makrílmálunum utan ESB og svo hins vegar eftir inngöngu í það -- sem sé: að innan Evrópusambandsins myndi hlutur okkar stórbatna. En þetta er rakalaus bjartsýnishyggja með öllu. Brussel er yfirfull af þrýstihópum ESB-ríkjanna, og eins og Skotar, Bretar og Írar hafa þrýst á um makrílveiðihagsmuni sína hingað til, þá myndu þeir halda því áfram, þótt Ísland færi inn í Evrópusambandið. Þar væri málið líka alfarið á valdsviði Brussel-manna, að engu leyti á okkar valdsviði lengur, ekki fremur en aðrir s.k. deilistofnar.

Við eigum að læra af reynslunni og átta okkur á því, að stórveldinu er það einfaldlega um megn að láta hlut sinn fyrir örríki og standa gegn voldugum þrýstihópum voldugra ríkja innan þess sjálfs. Í stað þess að gera okkur gyllivonir um, að allt gangi betur, þegar búið verði að handsala allt vald í þessum málum til Brussel-valdsins, þá ætti framferði ESB hingað til í makrílmálinu þvert á móti að koma okkur í skilning um, að þar er strax verið að sýna okkur, hvar valdið liggur: ekkert jafnræði milli stórveldis og örríkis. 

Það helzta, auk hafréttarreglna Sameinuðu þjóðanna, sem við höfum okkur hér til varnar í fiskveiðimálum, er nákvæmlega það sem stendur hér efst á síðunni: Fullveldi –– fullveldisréttur okkar á öllum sviðum ríkisvalds: löggjafar-, dóms- og framkvæmdavalds. Í krafti þess fullveldisréttar færðum við landhelgina út úr þremur í fjórar mílur, úr fjórum í tólf, úr 12 í 50 og loks í 200 mílur. Án sjálfstæðis okkar og fullveldis hefði verið tómt má að tala um að einu sinni reyna þetta.

"Evrópusambandið hefur alltaf lagt áherslu á að finna sérhannaðar lausnir fyrir hagsmuni umsóknarríkja án þess að troða á þeim meginreglum sem skipta þau ríki máli. Ég á von á frjóum lausnum," sagði Össur í fréttinni. Hann á þó að vita, að margar þúsundir brezkra og skozkra sjómanna misstu vinnu sína vegna Evrópusambands-úrskurðar um rétt Spánverja til veiða í Norðursjó.

  • "Við erum ólík Noregi sem hefur tvisvar sagt nei við Evrópusambandið," sagði Össur ennfremur.

Jæja, að hvaða leyti erum við ólíkir samkvæmt ráðherranum? Ætlum við að falla frá þeirri kröfu, sem norsk stjórnvöld lögðu þó fram, að s.k. "regla um hlutfallslegan stöðugleika" yrði tekin inn í aðildasamning þeirra sem ævarandi og bindandi? Þá kröfu neitaði Evrópusambandið með öllu að taka til greina. Jafnvel þótt regluna þá mætti toga og teygja, m.a. með lengingu "veiðireynslu"-viðmiðs, þá 

Orð Össurar gefa ekki frekar en fyrri daginn vonir um, að honum sé treystandi til að gæta hagsmuna Íslands. Hann ætti í reynd ekkert forræði að hafa yfir þessum málum, enda gersamlega umboðslaus, hvað þjóðarviljann snertir, og FELLDI það sjálfur með flokkssystkinum sínum, að þjóðin fengi (eins og hún vildi) að kjósa um umsókn hans um Evrópusambands-inngöngu, sbr. einnig þennan nýbirta pistil hér: Athyglisverðar skoðanakannanir á Vísi.is og Bylgjunni (Reykjavík síðdegis).

Jón Valur Jensson.


mbl.is Samningsmarkmiðin tilbúin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Er maðurinn algjörlega að fríka út?  Hvaða leyfi hefur hann til þess að haga sér svona? Er ekki hægt að stoppa þetta skoffín?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.6.2012 kl. 20:33

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ekkert kemur hér á óvart. Maðurinn er siðlaus.

Það verður að grafa undan honum í Evrópu! Hið íslenska fífl á ekki að vera andlit okkar út á við.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 23.6.2012 kl. 21:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband