Afstaða forsetaframbjóðenda til ESB sýnir afstöðu þeirra til lýðveldisins og fullveldisákvæða stjórnarskrár

Því er sannarlega rétt að forsetaframbjóðendur geri grein fyrir afstöðu sinni til umsóknar og inntöku Íslands í Evrópusambandið. Feluleikur á ekki við. Sem betur fer er a.m.k. einn frambjóðandi með skýra afstöðu í málinu. "[B]æði grundvallarhagsmunir Íslendinga, í sjávarútvegsmálum, auðlindamálum og varðandi legu landsins og gjaldmiðilinn einnig, eru þess eðlis að það þjónar ekki hagsmunum okkar að ganga í Evrópusambandið," sagði Ólafur Ragnar Grímsson í kappræðunni í Hörpu, sem Stöð 2 annaðist.

Þá sér hann enga nauðsyn á upptöku evru hér: "Það hefur verið sagt að evran sé það sem við erum að sækjast eftir. En þá bendi ég á að ef við tökum Norður-Evrópu og byrjum á Grænlandi og förum yfir Ísland, Færeyjar og Bretlandseyjar, til Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur, þá er það ekki fyrr en við komum til Finnlands sem við finnum land í Norður-Evrópu sem er evruland."

Og tökum eftir þessu:

  • "Hann bætti því við að ekkert eitt mál kæmi til með að hafa jafn afdrifarík áhrif á íslenska stjórnskipun, fullveldi og þjóðarhag í framtíðinni og hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu. Því væri það eðlileg krafa að þjóðin viti hvaða skoðun frambjóðendur til embættis forseta Íslands hafi í málinu." (Þetta sagði Ólafur Ragnar skv. frétt Mbl.is.)

Stjórnarskráin kveður á um, að löggjafarvald í landinu sé í höndum þings og forseta (og þjóðarinnar, skv. 26. grein, og það er rétt hjá Ólafi Ragnari að minna á, að það er ekkert sem kveður á um, að málskotsvaldið sé skilgreint sem "neyðarréttur"; það er einfaldlega meðal stjórnarskrárvarinna réttinda).

Þetta gengur þvert á tilætlun Evrópusambandsins, sem krefst þess strax í aðildarsáttmála (og um það atriði er ekkert val um "öðruvísi skilmála") að nýja aðildarlandið samþykki frá og með fullgiltri og löggiltri undirskrift hans, að lög Evrópusambandsins séu öll meðtekin ásamt mestöllu regluverki og tilskipunum og að NÝ LÖG ESB þaðan í frá verði samstundis að lögum í aðildarlandinu -- þau fara sem sé EKKI í gegnum hendur Alþingis, forsetans né þjóðarinnar eins og öll lög gera hins vegar (þ.m.t. EES-löggjöf) skv. núgildandi stjórnarskrá.

Þess vegna er ESB-sinnum mjög í mun að leggja niður núverandi stjórnarskrá og skella á okkur nýrri, þar sem hinum viðamiklu ákvæðum (á 2. tug greina í stjórnarskrá Íslands) um, að löggjafarvaldið skuli vera innlent og fara í gegnum lögákveðið ferli í stjórnskipun okkar, verði FÓRNAÐ á altari Brusselvaldsins og í staðinn tekin upp einföld og klókindaleg grein sem kveði á um að afsala megi fullveldi (og það jafnvel gert með því að pakka því ákvæði í drögum stjórnlagaráðs inn í silkiumbúðir til að líta sem bezt og sakleysislegast út!).

Þóra Arnórsdóttir er óskýrari um ESB:

  • "Annars vegar erum við ósammála um það hvort forsetinn eigi að taka þátt í umræðum og skipa sér í raðir, þ.e.a.s. að berjast gegn aðild eða berjast fyrir henni, eftir því hver skoðun hans er. Það er vegna þess að ég held að forsetinn eigi að vera forseti allra Íslendinga, og í hvaða stöðu er hann eftir atkvæðagreiðslu þar sem hluti þjóðarinnar er hjartanlega ósammála honum?"
  • "Þóra sagðist þó vera sammála forsetanum um að halda eigi þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum samningum við Evrópusambandið. Hún kvaðst þó ekki ætla að upplýsa um sína afstöðu til málsins. (Mbl.is í frásögn af kappræðunni, leturbr. jvj.)

Skv. frásögn Mbl.is sagðist Herdís Þorgeirsdóttir vera dálítið hugsi þegar kæmi að þessu máli en taldi það ekki úr vegi að forseti greini frá afstöðu sinni með yfirveguðum hætti. "Því skyldi hann ekki mega leggja eitthvað til málanna ef hann telur að um mikla og brýna hagsmuni þjóðarinnar sé að ræða?"

Og vitaskuld er hér um slíka hagsmuni þjóðarinnar að ræða, sbr. ofangreint! Ljóst er, að núverandi forseti tekur skýra afstöðu til þessa máls, en Þóra vill a.m.k. enn sem komið er leyna okkur sinni afstöðu. Hvers vegna? Er afstaða hennar þá einfaldlega óbreytt frá 1995, þegar hún tók sæti í fulltrúaráði Evrópusamtakanna og sagði sig þar með í hóp þeirra, sem vilja inntöku Íslands í það stórveldabandalag?

Jón Valur Jensson.


mbl.is Eðlilegt að gefa upp afstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband