Strámaður Stefans Füle og það sem hann þagði um í Sjónvarpinu í gærkvöldi

Stefan Füle bjó sér til strámann: eins og umræða stæði um það, hvort ESB ætli sér að eignast auðlindir okkar í eignarréttar-merkingu, þannig að jarðorkulindir okkar yrðu t.d. þinglýstar eign ESB. Enginn hefur haldið því fram. En Füle valdi þessa merkingu, því að þar getur hann þó farið rétt með, en hann leyndi okkur hinu, að Evrópusambandið hefur þegar í Lissabon-sáttmálanum* gefið sér valdheimildir til íhlutunar um orku- og auðlindamál ríkjanna, t.d olíulinda, þ.e. til íhlutunar um stjórn þeirra, hvernig dreifingar- og sölumálum verði háttað, og það tengist líka álagningu, skattlagningu o.s.frv. Þannig getur Brussel-valdið í raun takmarkað umráðarétt ESB-ríkis yfir því t.d., hvert það megi selja olíu, og bannað beinlínis útflutning hennar út fyrir Evrópusambandið og þar með ekki leyft frjálsu markaðsverði að ráða; afleiðingin yrði lægra verð til eigenda auðlindanna: þjóðarinnar.

En með þessu væri Evrópusambandið að tryggja sér orku, rétt eins og Kínverjar reyna það með klækindalegum samningum við Afríkuríki.

Engin furða, að Füle talaði hikstalaust um, að Evrópusambandið hafi hagsmuni af því að ná Íslandi inn! En þetta hafa þó sumir ESB-talsmenn hér á landi þrætt endalaust fyrir og látið sem þeim í Brussel stæði slétt á sama, hvort Ísland færi inn eða ekki! Þetta er ekki í samræmi við umræðu um málið í Berlín, Madríd og í Bretlandi, og sjálft Evrópusambandsþingið í Strassborg og Brussel hefur beinlínis fagnað því að fá Ísland inn og jafnvel því, að íslenzkum ráðherra var vikið úr ríkisstjórninni eftir áramótin og þar með liðkað fyrir inntöku landsins í stórveldið.

Um margt annað þagði Füle og beitti raunar sjónhverfingum og blekkingum til að gera hlut Evrópusambandsins sem beztan og einkum sem jákvæðan valkost fyrir Íslendinga!!! Fekk hann mjög rúman tíma til slíks einhliða áróðurs. Ýmsar spurningar Boga Ágústssonar voru góðar og meitlaðar og fylgt nokkuð vel eftir og þó ekki í öllu, hann leyfði Füle að komast upp með undanbrögð í sumu, en um sitthvað annað var Bogi ekki nógu vakandi né einarður. Vafalaust er þetta þó erfitt hlutverk, sem hann var í, og Sjónvarpið ekki óháður fjölmiðill, en með góðri greiningu er þetta viðtal mikið efni til að vinna úr. Hætt er þó við hinu, að gagnrýnislausir hafi þar fengið áróðurinn beint í æð og látið blekkjast af vinsamlegu útliti sendimannsins, sem nú þjónar Evrópusambandinu, en áður austurevrópskum kommúnisma.

* Í íslenzkri útgáfu utanríkisráðuneytisins af honum eru þó þýðingarvillur, m.a. um þessi orkumál. Verður nánar fjallað um það hér síðar.

Jón Valur Jensson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég vona bara að sem flestir hafi horft á heimildarmynd um Grikki á RUV í gær. Ég tek ofan fyrir þeim að sýna þá mynd. Hún segir margt um það sem þú fjallar hér. 

Varðandi frumkvæði ESB um aðild okkar, þá getur það ekki verið ljósara en á orðum Fule um að "veita okkur tilboð" um inngöngu. Staðreyndin er sú að fulltrúar ESB sjá berlega að málinu er lokið og að Íslendingar munu ekki samþykkja inngöngu í sambandið. Málinu er þó haldið til streytu, þvert gegn líkum, vegna þess að það kæmi mjög illa út fyrir sambandið að við hrykkjum úr skaftinu á þessum áfallatíma innan sambandsins. Þeim er annt um að halda Pótemkintjöldunum uppi og raunar eru það ein af fáum rökum þeirra fyrir því að allt sé í fína lagi að Ísland sé að sækja um og að Króatía sé komin í aðlögun. 

Semsagt: " Af hverju ættu þjóðir að vilja út úr sambandinu á meðan aðrar vilja ólmar komast inn?"  Það fylgir ekki sögunni að Lettar og Litháar eru á fótskriðu fjandans til í efnahagsmálum vegna Evrunnar og ástandið í Króatíu mun ekki batna frá hörmungum þeirra þegar að kemur. 

Það er í raun staðreynd að flestar Evruþjóðir uppfylla ekki skilyrði til þess að vera með myntina. Jafnvel ekki þjóðverjar. Menn geta svo dregið ályktanir sínar um framtíð hennar eftir því.

Jón Steinar Ragnarsson, 31.5.2012 kl. 11:17

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kærar þakkir, nafni, fyrir innlegg þitt. Sjálfur er ég ekki bjartsýnn á, að Brusselmenn hafi gefið upp vonina um að troða Íslandi inn sem fyrst.

Jón Valur Jensson, 31.5.2012 kl. 11:58

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þeir hafa peningana og ýmsar leiðir, eins og sást í gærkvöldi og á hinni rangnefndu "Evrópustofu" og ólögmætum predikunarferðum sendiherra Esb. um Ísland, lygaherferðum 5. herdeildarinnar o.s.frv.

Jón Valur Jensson, 31.5.2012 kl. 12:00

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Utan efnis, þá er hér ágætis greinargerð um Icesave deiluna og ESB.  Ef þetta er ekki unnið mál, þá þá standa öll rök tilverunnar á haus.

Jón Steinar Ragnarsson, 31.5.2012 kl. 15:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband