Snjall er Björn í greiningunni; Þorgerður Katrín lætur á sér skilja að kúvent sé ESB-stefnu Viðreisnar

En ekki er mikið að marka það; öll forystusveit Viðreisnar (sjá nöfnin) hefur frá upphafi haft Evrópu­sambandið fyrir augum sem sínar ær og kýr, sína Útópíu og himn­esku Je­rúsalem!

Komum rétt strax aftur að Þorgerði, en fyrst er að nefna, að Björn Bjarna­son rekur í frábærlega skýru yfirliti* ESB-umfjöllun Sjálfstæðisflokksins frá því haustið 2008 og fram undir þetta. Það er lærdómsríkt mörgum og áminning um að taka ekki mikið mark á áróðri ESB-kröfugerðar­fólks á Austurvelli um árið.

Aðspurð um það af fréttamanni Rúv, hvort Viðreisn, ef henni er boðið að stjórnar­myndunar­borði, mundi setja það sem skilyrði að gengið verði til atkvæða­greiðslu um áfram­haldandi viðræður við ESB á næsta kjör­tímabili, svaraði Þorgerður:

"Á þessu stigi tel ég rétt að flokkar setji ekki fram nein skilyrði."

Um þetta segir Björn á vef sínum, bjorn.is*:

Í ljósi sögunnar markar þetta svar tímamót. Viðreisn setur ekki atkvæða­greiðslu um framhald ESB-aðildar­viðræðna sem skilyrði fyrir myndun ríkisstjórnar. 

En hann bætir líka við:

Eftir yfirlýsingu Þorgerðar Katrínar sem vitnað er til hér að ofan vaknar spurning um hvort Viðreisnarfólk á samleið með Viðreisn. Hafi flokkurinn verið stofnaður um eitthvert málefni, sneri það að þjóðaratkvæðagreiðslunni um framhald ESB-viðræðna. Nú boðar flokksformaðurinn að ekki verði staðið við það loforð bjóðist ráðherrastólar.

Ólíklegt er að þessi yfirlýsing flokks­formannsins um hvarf frá meginstefnu flokksins breyti nokkru um aðdráttarafl hans við stjórnarmyndun.

Já, ekki er það traustsverðugt að stinga stefnu sinni niður í skúffu, þegar ráð­herrasætin bjóðast. Þetta gerði þó Steingrímur J. með hrikalegum afleiðingum árið 2009, eins og öllum á að vera kunnugt. Nú fer Þorgerður Katrín í hina áttina, en þó verður Viðreisnar-flokkurinn ávallt grunaður um græsku í okkar fullveldis­málum. Og þó að bæði Samfylking og "Viðreisn" verði að kyngja því, að þeirra heittelskaða ESB verður ekki á dagskrá hér næstu fjögur árin, þá er hætt við því, að þau reyni í millitíðinni að fara Fjalla­baksleið að því langtíma-markmiði, með því að vinna að því á þingi að spilla fyrir fullveldi­sákvæðum gildandi stjórnarskrár, en Logi Einarsson, formaður Sf., vill einmitt gera stjórnar­skrárbreyt­ingar að skilyrði fyrir því, að flokkur hans fáist til að taka þátt í stjórnarmyndun.

Hér er því full þörf á að vera áfram á verði, þótt sannfæring sumra sé kannski tíma­bundið til sölu fyrir völd og áhrif ráðherrastóla.

* Formaður Viðreisnar afneitar flokksstefnunni.

Jón Valur Jensson.


Bloggfærslur 8. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband