Bjarni Ben. tvístígandi gagnvart viðskipta­bann­inu, þó á skárri braut en hinir ráðherrarnir

Bjarni Ben. virðist vart vita í hvorn fótinn hann á að stíga, Íslend­ingar séu "varla eiginlegir þátttak­endur" í viðskiptastríði ESB gegn Rússum, samt tekur hann fullan þátt í því!

Það er auðvitað laukrétt athugað, að Íslendingar vilja ekki taka þátt í þessu, það sést í könnunum, en ríkisstjórnin er bara á öðru máli eða hefur verið hingað til.

Loksins rofar þó til, því að Bjarni Benediktsson virðist vera á því að endurskoða þessi mál frá grunni. Þáttur í því er að koma á fót sam­ráðshópi með t.d. það verk­efni að "fá ýt­ar­leg­ar upp­lýs­ing­ar um eðli inn­flutn­ings­banns Rússa og að eiga sam­skipti við hags­munaaðila."

Þessi frétt í hádeginu um samráðshóp með fulltrúum sjávarútvegsins kom mörgum eflaust ankannalega fyrir sjónir, því að þar er verið að gera það eftir á, sem átti að tilheyra sjálfri byrjun málsins fyrir nokkrum árum! Vitaskuld er þetta dæmi um lélegan undirbúning af hálfu stjórnvalda, sem létu svo Evrópusambandið og Bandaríkin ýta sér út í þetta.

Hér verður komið inn á ýmis atriði í þessu langa Mbl.is-viðtali við Bjarna. Fyrst skal þó notað tækifærið til að leiðrétta villu í málfutningi hans. Hann segir: „Við erum hér að tala um 5% af út­flutn­ings­verðmæt­um okk­ar í vör­um, og það er ákveðið áfall fyr­ir þjóðarbúið í heild sinni." En hlutfallstalan er í raun hærri, sennilega nálægt 7,3% af út­flutn­ings­verðmæt­um okk­ar í vör­um. Þetta virðist ljóst af upplýsingum Kolbeins Árnason, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, viðtali við Rúv í dag. Þar segir hann:

„Við áætlum að 80% af því sem fer í gegn Klaipéda í Litháen fari til Rússlands og um 40% af því sem fer í gegnum Rotterdam í Hollandi,“ segir Kolbeinn. Samkvæmt því fari því um 11 milljarðar [til Rússlands] í gegnum aðrar hafnir en rússneskar, en alls voru sjávarafurðir að andvirði 24 milljarða fluttar beint þangað á síðasta ári."

Heildarútflutningur sjávarafurða til Rússlands í fyrra hefur því verið um 35 milljarðar króna að verðmæti. Þeim mun þyngra áfall verður þetta viðskiptabann Rússa.

Spurður hvort Bjarna fynd­ist koma til greina, að for­set­inn nýtti sam­bönd sín við ráðamenn í Rússlandi til að greiða fyr­ir mál­um, sagðist fjár­málaráðherrann ekki vilja úti­loka neitt í þeim efn­um:

  • „For­sæt­is­ráðherra mun eiga sam­skipti, ut­an­rík­is­ráðherra mun eiga sam­skipti; við mun­um eft­ir öll­um leiðum reyna að koma okk­ar sjón­ar­miðum á fram­færi ..."

Ráðherrann á reyndar að vita, að það yrði ekkert gagn að Gunnari Braga í þessu efni. --Spurður hvort stjórn­völd gætu með ein­hverju móti komið til móts við út­vegs­fyr­ir­tæk­in, svarar Bjarni:

„Ég held að það sé lang­mik­il­væg­ast að við ger­um okk­ur grein fyr­ir um­fang­inu á þess­um tíma­punkti og sjá­um hvernig úr þessu spil­ast í fram­hald­inu, m.a. með mögu­leik­ann á að finna nýja markaði og koma þess­um afurðum í verð. Það er kannski svona fyrsta skrefið.“

En það er alveg ljóst,að hér er við mjög ramman reip að draga, þegar ekki aðeins Rússlands-, heldur og Nígeríu- og Úkraínumarkaðirnir fyrir makríl hafa hrunið. Ennfremur hefur heimsmarkaðsverð á makríl til manneldis lækkað verulega, jafnvel svo, að verð á lýsi og mjöli, sem úr makríl er hægt að vinna, hefur vegna verðhækkana nálgast þetta verð á nánast ferskum makríl. En ekki væri Evrópusambandið ginnkeypt fyrir því að leyfa útflutning á þessum úrvinnsluvörum til sinna aðildarríkja, því að það bannar í þröngsýni sinni kaup á þeim nema einungis á því möli sem unnið er úr afskorningum af makríl.

Réttilega mælir Bjarni hér:

„Í fyrsta lagi: það að lenda á bann­lista Rússa vegna inn­flutnings á mat­væl­um til Rúss­lands er miklu al­var­legra mál fyr­ir Íslend­inga en ein­stök aðild­ar­ríki Evr­ópu­sam­bands­ins eða Evr­ópu­sam­bandið í heild. Og þar mun­ar mjög miklu. Í öðru lagi; ef stjórn­völd á Íslandi myndu fara að reyna að lina erfiðleika þeirra sem hér eiga í hlut, þá væru það miklu þyngri byrðar, í fyrsta lagi útaf þessu sem ég nefndi, og í öðru lagi þá erum við bara ein­ir til að axla þær byrðar. Það er í sjálfu sér létt verk fyr­ir Evr­ópu­sam­bandið að deila úr þeim sjóðum sem þeir hafa til ráðstöf­un­ar, og ef við lít­um svo til annarra þeirra sem eru á list­an­um, t.d. Banda­ríkja­mann, þá skipt­ir það þá í sjálfu sér engu máli að vera á bann­lista Rússa, þannig að þeir þurfa svo sem ekki mikl­ar áhyggj­ur að hafa af því.“

Hér fer hann svo út í að benda með sínum hætti á afkáraleik þess, að Íslendingar séu að taka þátt í þessu viðskiptabanni, ekki með því að þrengja að stjórnvöldum Rússa hernaðarlega, heldur alþýðu manna þar:

„Viðskiptaþving­an­ir Evr­ópu­sam­bands­ins hafa af­skap­lega tak­markað raun­hæft gildi gagn­vart Íslandi. Eðli viðskiptaþving­an­anna er í raun og veru með þeim hætti að það er óraun­hæft að tala um að Ísland sé eig­in­leg­ur þátt­tak­andi. Segj­um t.d. í því að banna sölu her­gagna til Rúss­lands. Við erum ekki í því að miðla eða fram­leiða her­gögn. En hins veg­ar, á hinn bóg­inn, erum við að verða hlut­falls­lega verst úr þeim aðgerðum sem Rúss­ar beita til að bregðast við viðskiptaþving­un­um og þetta er sjón­ar­mið sem ég held að sé mik­il­vægt að heyr­ist.“

Með hliðsjón af þessum ábendingum Bjarna mætti spyrja, hvers vegna Evrópu­sambandinu sé akkur í því að fá Rússa til að drýgja þá gömlu, kapítalísku og oftlega fordæmdu stórsynd að eyðileggja matvæli í massavís -- áður var t.d. kornuppskera í Bandaríkjunum brennd, jafnvel á kreppuárunum, þegar sumt fólk svalt, en nú að keyra á rússneskum ýtum yfir ostasendingar frá Vestur-Evrópu!

Í eftirfarandi klausu slær Bjarni í og úr um stefnu sína:

Bjarni sagði fulla ástæðu til að staldra við og skoða það í stóra sam­heng­inu með hvaða hætti aðgerðir á borð við viðskiptaþving­an­irn­ar gegn Rúss­um væru tekn­ar upp og inn­leidd­ar. Hann sagði hins veg­ar mikla sam­stöðu á þingi um þær aðgerðir sem nú stæðu yfir gegn Rúss­um og að eng­inn þyrfti að ef­ast um stefnu Íslands hvað þær varðaði. (Mbl.is)

Þarna virtist fyrst sem Bjarni væri hlynntur allsherjar-endurskoðun og uppstokkun á þeirri viðskiptaþvinganastefnu, sem upp hafði verið tekin (og nýlega framlengd) hér á landi, en svo segir hann allt í einu í næsta orði, að mikil sam­staða sé á þingi um þær aðgerðir sem nú standa yfir gegn Rúss­um "og að eng­inn þyrfti að ef­ast um stefnu Íslands hvað þær varðaði"!! --Til lítils var því að gera sér vonir um endurbættan Bjarna Benediktsson í þessu máli!

Gunnar Bragi Sveinsson hafði rætt það, að Evrópusambandið væri með 18% toll á innflutning makríls frá Íslandi og gefið til kynna, að biðja mætti um niðurfellingu hans, en það hljómaði eins og þar talaði beiningamaður. Bjarni kemur inn á þetta í svari sínu við spurningu fréttamanns Mbl.is: "En kæmi til greina að semja við Evr­ópu­sam­bandið um t.d. tolla­lækk­an­ir fyr­ir þess­ar afurðir sem ekki fara inn á Rúss­lands­markað?" --Svar Bjarna er fróðlegt um afstöðu hans:

„Ja, eig­um við ekki að segja að það skjóti a.m.k. skökku við að við still­um okk­ur upp með banda­mönn­um okk­ar í þessu máli, sem á end­an­um hef­ur þær af­leiðing­ar að við fáum ekki markaði í Rússlandi eins og t.d. fyr­ir mak­ríl­inn. Og á sama tíma erum við með 18% toll inn í Evr­ópu­sam­bandið fyr­ir mak­ríl, og stönd­um reynd­ar í stríði við þá um rétt okk­ar til að stunda þær veiðar sem við telj­um eðli­leg­ar. Eitt­hvað verður und­an að láta þegar svona staða kem­ur upp.“

Vonandi verður það þátttakan í bannstefnu ESB, viðskiptastríði þess við Rússland, sem fær "undan að láta" í þessum efnum og það sem fyrst. Og þrátt fyrir nóg verkefni á viðskiptasviðinu ættu íslenzk stjórnvöld líka að ganga fast eftir því að fá frá þessu sama Evrópusambandi einhverjar sannanir fyrir því, að Rússaher hafi framið stríðsglæpi í Úkraínu, eitthvað sem réttlæti svona hörkulegar aðgerðir gegn Rússlandi. Naumast verður Evrópusambandinu stætt á því að halda uppi endalausu viðskiptabanni á Rússland vegna Krímskaga-málsins, því að vitaskuld munu stjórnvöld í Moskvu aldrei láta svínbeygjast til að "skila" Krímskaga til Úkraínu, þar sem hann á ekki í raun heima. Ágætur prestur tjáði sig um það mál á Facebók sinni í dag:
 
"Það að láta sér detta í hug að Rússar létu Krím af hendi eins og ekkert væri er pólitísk bilun."
 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Íslendingar varla eiginlegir þátttakendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband