Engar 250 milljónir í þjóðaratkvæðagreiðslu um spurningu sem engin sátt yrði hvort sem er um!

Eftir ágætt viðtal við Jón Gunnarsson alþm. í Sjónvarpi í seinni fréttum í kvöld, þar sem hann ræddi ESB-málið, brá svo við, að hann hljóp í undanhaldið aðspurður um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar fór illa hjá hreystimenninu. 

Hvers vegna geta ráðamenn ekki einfaldlega sagt NEI, eins og þjóðin gerði í Icesave-málinu? Það er engin fjárlagaheimild til þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu, og stjórnarfarslega séð hefði hún ekkert bindandi hlutverk, yrði einfaldlega "ráðgefandi", en þingmönnum samt skylt að fara að sannfæringu sinni í málinu, skv. 48. gr. þeirrar stjórnarskrár sem þeir hafa svarið eið að.

Þá dylst vart öðrum en þeim, sem lítt fylgjast með, að hér er um "sniðuga" og taktíska eða öllu heldur pragmatíska kröfu sem Samfylkingaröflin halda uppi í þjóðfélaginu, með afar miklum tilkostnaði við auglýsingaherferð (ekki var Samstaða þjóðar gegn Icesave með heilsíðuauglýsingar í því máli, ólíkt þessu máli). 

Áherzla Samfylingar- og ESB-sinna í málinu byggir raunar á falstúlkunum á aðildarviðræðunum, eins og þær geti falið í sér samninga um eitthvað fram hjá lagaverki Evrópusambandsins. Það er einfaldlega ekki í boði, sbr. þessa endregnu yfirlýsingu sjálfrar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins 27.7. 2011 og þessi orðaskipti Stefans Füle, stækkunarstjóra ESB, og Össurar Skarphéðinssonar, meðan hann var ráðherra -- afar pínleg fyrir þann síðarnefnda!

Þegar gengið var á Jón Gunnarsson, kom svo vitaskuld í ljós, að hann er ekki sáttur við að óskaspurning Árna Páls og annarra ESB-innlimunarhyggjumanna fái að vera spurningin stóra í þjóðaratkvæðagreiðslunni hugsanlegu. Hann vill frekar, eins og fleiri í stjórnarflokkunum, að spurningin verði með öðru sniði. En hvernig dettur þeim yfirleitt í hug, að það sé hægt að ná nokkurri sátt við hið freka ESB-lið í þessu máli? Um leið og farið væri að lofa kvartmilljarðs-dýrkeyptri þjóðaratkvæðagreiðslu, þá myndu þessir kröfumenn ekki aðeins taka í þann litla fingur, heldur krefjast þess að fá að ráða spurningunni sjálfir!

Það á einfaldlega að segja NEI, þegar tími er kominn til að segja NEI. Það á líka að vera dagljóst af stöðu mála í aðildarviðræðunum. Þeim varð ekkert þokað áfram í sjávarútvegsmálunum, þótt sá væri vilji Jóhönnustjórnar, en Frakkar, Spánverjar og Portúgalar stöðvuðu málið 2011, enda voru fyrirvarar utanríkismálanefndar Alþingis við umsóknarmál þeirra Össurar & Co. óásættanlegir fyrir þessi ríki og í sjálfum sér í beinni mótsögn við ákvæði Rómarsáttmálans. Má hér t.d. vitna til orða Emmu Bonino, þáverandi sjávarútvegsmálastjóra (kommissar) ESB, í viðtali við Morgunblaðið 1995 þegar hún sagði að Ísland fengi ekki full yfirráð yfir fiskveiðilögsögu sinni, heldur yrði eins og önnur aðildarlönd að gangast undir hina sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB. Orðrétt sagði hún: "Meginreglan er sú að sameiginleg stefna er öllum sameiginleg, hvort sem um er að ræða fiskveiðar eða landbúnað. Sami rammi gildir fyrir alla."

Sjálfhætt er viðræðum um "aðild" vegna þessa meginatriðis og þeim mun fremur vegna þeirrar ósveigjanlegu grundvallarkröfu Evrópusambandsins að fá hér æðsta löggjafarvald. Þingmenn hafa í raun ekki vegna eiðs síns að stjórnarskránni að samþykkja slíkt. Þeir yrðu þá fyrst að fótumtroða hana og fleygja þar út mörgum greinum, allt frá 2. gr. hennar. Ekki er þó að efa, að sú er innsta löngun þeirra sem meðvitað og viljandi aðhyllast innlimunarhyggjuna. Allt annar var vilji Jóns forseta Sigurðssonar, jafnvel svo snemma sem 1858 (í grein í Nýjum félagsritum, s. 209), að við Íslendingar "eigum að réttu lagi fullkomin löggjafarréttindi skilið". Þetta geta Árni Páll, Össur, Helgi Hjörvar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Árni Þór Sigurðsson engan veginn unað við. Þau vilja ekki standa á réttinum, þeim sem á 23 árum (1952-1975) veitti okkur vald og réttarstöðu til að útfæra fiskveiðilögsöguna úr 3 mílum í 200.

Höfnum innlimunarhyggjunni og gefum henni ekkert færi á þjóðinni. Segjum NEI við öllum kröfum þessa ESB-þjónustuliðs.

Með einlægri samúð með öllum þeim saklausu, sem hingað til hafa látið blekkjast í málinu,

Jón Valur Jensson, form. stjórnar Samtaka um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland.


Bloggfærslur 9. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband